Hér má nálgast fundargerðina á pdf formi
Föstudaginn 7. apríl 2017 kom stjórn SSNV saman til fundar á Gauksmýri og hófst fundurinn kl. 10:00.
Mætt til fundar: Adolf H. Berndsen, Sigríður Svavarsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, Valgarður Hilmarsson og Björn Líndal Traustason framkvæmdstjóri sem ritaði fundargerð. Stefán Vagn Stefánsson formaður stjórnar setti fundinn og stjórnaði honum.
1. Fundargerð 15. stjórnarfundar SSNV dags. 07. mars 2017.
Fundargerðin samþykkt.
2. Fundargerð 16. stjórnarfundar SSNV dags. 24. mars 2017
Fundargerðin samþykkt.
3. Umsagnir um þingmál.
a. Stjórn hefur áður samþykkt með tölvupósti umsögn um þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 207. mál og staðfestir nú eftirfarandi umsögn:
Í tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða kemur m.a. fram að:
Umsögn þessi fjallar um ofangreinda kosti.
Í 1. gr. laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun kemur fram að markmið laganna sé tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Í 4. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að í verndar- og orkunýtingaráætlun skuli í samræmi við markmið laganna lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þ.m.t. verndunar.
Í 4. – 6. gr. kemur fram hvaða sjónarmið eigi að ráða því hvort tilteknir virkjanakostir falli í orkunýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk.
Af ofangreindu er ljóst að vilji löggjafans er að röðun virkjanakosta ráðist af því mati sem lagt er til grundvallar í 4. mgr. 3. gr. þ.e. verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þ.m.t. verndunar. Af ákvæðinu má ráða að mat á öllum þeim þáttum sem taldir erum upp þurfi að liggja fyrir áður en tekin er ákvörðun um það hvort tiltekinn virkjanakostur falli í nýtingar- eða verndarflokk. Enda kemur fram í 5. gr um biðflokk að falli virkjunarkostir sem er talið að afla þurfi frekari upplýsinga um svo meta megi á grundvelli sjónarmiða sem fram koma í 4. mgr. 3. gr. hvort þeir eigi að falla í orkunýtingarflokk eða verndarflokk.
Í 8. gr. laganna er gert ráð fyrir að skipuð sé verkefnisstjórn og skv. 9. gr. er hlutverk hennar m.a. að upplýsingasöfnun, faglegt mat, sbr. 4. mgr. 3. gr. og skal verkefnisstjórn skipa faghópa með sérfræðingum á viðeigandi sviðum sen fari yfir virkjunaráform hver frá sínum sjónarhóli, meti þá með stigagjöf og geri tillögur til verkefnisstjórnar.
Í 10. gr. laganna kemur fram að verkefnisstjórn skuli byggja faglegt mat sitt á upplýsingum sem fyrir liggja um þætti sem taka skal tillit til í verndar- og orkunýtingaráætlun og beitir við það samræmdum viðmiðum og almennt viðurkenndum aðferðum. Vinna faghópa er lögð til grundvallar matinu.
Verkefnisstjórn skipaði 4 faghópa. Samkvæmt skipunarbréfi faghóps 1 var verkefni hans „að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til náttúru, menningarminja, landslags og víðerna.“
Samkvæmt skipunarbréfi faghóps 2 var verkefni hans „að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til annarrar nýtingar en orkuvinnslu, svo sem vegna ferðaþjónustu, útivistar og landbúnaðar.“
Samkvæmt skipunarbréfi faghóps 3 var verkefni hans „að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til áhrifa þeirra á samfélagið, svo sem áhrifa á félagslega velferð íbúa, samfélagslega fjölbreytni, samskipti, samstöðu, virkni og aðra þá þætti sem hópurinn telur æskilegt og mögulegt að leggja mat á.“
Samkvæmt skipunarbréfi faghóps 4 var verkefni hans „að fjalla um virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til hagrænna þátta, einkum út frá áhrifum einstakra virkjunarkosta eða hópa virkjunarkosta á þjóðarhag.“
Í þingsályktunartillögunni sem hér er fjallað um kemur fram að faghópar 1 og 2 hafi skilað niðurstöðum snemma árs 2016. Varðandi niðurstöður faghóps 3 kemur fram að „niðurstöður faghópsins nýttust lítið sem ekkert við endanlega röðun og flokkun virkjunarhugmynda og því ákvað verkefnisstjórn 3. áfanga að leita leiða til að nálgast samfélagsleg áhrif virkjunarhugmynda með öðrum hætti.“ Um faghóp 4 kemur fram að hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að „ekki séu forsendur til að meta þjóðhagslega hagkvæmni þeirra virkjanakosta sem til umfjöllunar eru í 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar.“
Um rökstuðning vegna þeirra virkjanakosta sem þessi umsögn tekur til eru tiltekin rök faghóps 1 og 2. Ekki eru allir á eitt sáttir um röksemdafærslu faghóps 1 og Í ágætri rýni Orkustofnunar á drögum að skýrslu verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar frá 11. maí 2016, sem birt var á vef stofnunarinnar þann 27. júlí sl., er bent á margvísleg dæmi um undarlega aðferðafræði við mat á Skatastaðavirkjunum í Skagafirði. Meðal þess sem Orkustofnun bendir á er hve víða fullyrðingum er slengt fram án þess að rökstyðja þær með nokkrum hætti. Á þetta m.a. við um neikvæð áhrif á vistgerðir, spillingu stórra minjaheilda, skerðingu á sjónrænni fjölbreytni, rýrnun á fágæti berggrunns, fjölbreytni jarðgrunns, áhrifum á fuglalíf, rýrnun veiði o.s.frv. Bendir Orkustofnun á að allt gagnsæi og rekjanleika skorti við mat faghópa þannig að hægt sé að sannreyna það. Nánar má lesa um þetta á bls. 34-44 í rýni Orkustofnunar: (http://os.is/media/raforka/ryni_drog_skyrsla_orkunytingaraaetlunar_11052016.pdf).
Í skýrslu verkefnisstjórnar, á bls. 125 er fjallað um niðurstöður faghóps 3. Þar kemur eftirfarandi fram: „Niðurstöður þeirra rannsókna sem faghópur 3 gekkst fyrir sýna að mikill meirihluti íbúa í nærsamfélögum virkjunarkosta sem og þjóðarinnar í heild telur mikilvægt að tekið sé tillit til samfélagslegra áhrifa virkjunarkosta ekki síður en umhverfislegra og efnahagslegra áhrifa þeirra. Þá telja margir að of lítil áhersla hafi verið lögð á það hingað til að meta áhrif virkjunarkosta á samfélagslega þætti. Þessar niðurstöður eru því í fullu samræmi við þá ákvörðun verkefnisstjórnar rammaáætlunar að mynda sérstakan faghóp um samfélagsleg áhrif mögulegra virkjana. Niðurstöðurnar sýna einnig fram á mikilvægi þess að haldið verði áfram á þeirri braut að þróa mat á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta samhliða mati á náttúrufarslegum og efnahagslegum þáttum. Faghópurinn vill jafnframt leggja á það áherslu að samfélagsleg áhrif virkjunarkosta hafa þá sérstöðu, samanborið við áhrif virkjunarkosta á náttúru, að þeirra gætir um leið og kostirnir eru lagðir fram til mats. Virkjunarkostur getur skapað óvissu og haft margvísleg áhrif á samskipti og væntingar í nærsamfélaginu. Auk þess sýnir sagan að virkjunaráform geta vakið upp deilur víðar í þjóðfélaginu um virkjun eða verndun ákveðinna landsvæða. Faghópurinn álítur að ofangreind atriði undirstriki nauðsyn þess að tekið sé aukið mið af samfélagslegum áhrifum á öllum stigum umfjöllunar, allt frá því að virkjunarkostir eru undirbúnir og lagðir fram í hinu formlega ferli verndar og orkunýtingaráætlunar og þar til lokaákvörðun er tekin um hvort af byggingu og rekstri þeirra verður.“
Ljóst er að ofangreindu að mikilvægt er að mati faghóps 3 að samfélagsleg áhrif virkjanakosta séu metin. Þrátt fyrir það eru engin rök að finna varðandi samfélagsleg áhrif þeirra virkjanakosta sem hér er fjallað um og þar með er farið á svig 4. mgr. 3. gr.
Á bls. 153 í skýrslu verkefnisstjórnar kemur eftirfarandi fram frá faghóp 4. „Faghópur 4 telur að ekki séu forsendur til að meta þjóðhagslega hagkvæmni þeirra virkjanakosta sem til umfjöllunar eru í þriðja áfanga rammaáætlunar. Það er niðurstaða faghópsins að hvorki liggi fyrir nægilegar upplýsingar um fjárhagslegan kostnað og ábata né mat á öðrum kostnaði og ábata sem leggja megi til grundvallar áreiðanlegu mati á þjóðhagslegum áhrifum. Það er hins vegar mat hópsins að afar mikilvægt sé að slíkt mat fari fram, og jafnframt að gera ætti slíkt mat að hluta af ferli samþykktar virkjanaframkvæmda.“
Faghópurinn taldi að skortur á upplýsingum gerði það að verkum að ekki væri unnt að leggja mat á virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til hagrænna þátta. Það breytir ekki þeirri skyldu verkefnisstjórnar að taka beri tillit til ofangreindra þátta.
Alvarlegt er að ekki er gerð tilraun til að rökstyðja tillögu um að ofangreindir virkjanakostir skuli falla í verndarflokk á grundvelli allra þátta sem tilteknir eru í 4. mgr. 3. gr. svo sem áskilið er í lögum nr. 48/2011. Ekki er lagt mat á efnahagsleg eða samfélagsleg áhrif sem þó er algerlega skilyrt til þess að virkjunarkostur geti fallið í nýtingar- eða verndarflokk. Liggi ekki fyrir upplýsingar um alla þætti, þar með talið efnahags- og samfélagsleg áhrif ber að flokka viðkomandi virkjunarkost í biðflokk sbr. 5. gr. laganna en þar segir: Í biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar falla virkjunarkostir sem er talið að afla þurfi frekari upplýsinga um svo meta megi á grundvelli sjónarmiða sem fram koma í 4. mgr. 3. gr. hvort þeir eigi að falla í orkunýtingarflokk eða verndarflokk.“
Útilokað er, á grundvelli laga nr. 48/2011, að flokka virkjunarkost í hvort sem er verndar- eða nýtingarflokk án þess að lagt sé mat á samfélagsleg eða efnahagsleg áhrif.
Með tilliti til rökstuðnings hér að framan mótmælir stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra því að þeir virkjanakostir sem að framan er fjallað um verði flokkaðir í verndarflokk og krefjast þess að farið veði að lögum nr. 48/2011 og virkjanakostirnir verði settir í biðflokk.
b. Stjórn hefur áður samþykkt með tölvupósti umsögn um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987,með síðari breytingum (bílastæðagjöld). mál 307 og staðfestir nú eftirfarandi umsögn:
Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) fagnar því að frumvarp þetta sé lagt fram og mælir með því að það verði að lögum. Með auknum ferðamannastraum hafa komið fram auknar kröfur þess efnis að sveitarfélög leggi í ýmiskonar kostnað til að bæta aðgengi að ferðamannastöðum, þar á meðal gerð bílastæða. Ástæður þessa má meðal annars rekja til þess að ekki hafa verið skýrar lagaheimildir fyrir gjaldtöku einstaklinga og sveitarfélaga t.d. vegna bílastæða. Verði þetta frumvarp að lögum bætir það aðeins stöðu sveitarfélaga og annarra sem þurfa að leggja til og fjármagna bílastæði og aðra aðstöðu vegna aukins straums ferðamanna til landsins.
c. Stjórn hefur áður samþykkt með tölvupósti umsögn um tillögu til þingsályktunar um úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra, sbr. þingskjal nr. 134, 77. mál. og staðfestir nú eftirfarandi umsögn:
Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) tekur eindregið undir þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi feli mennta- og menningarmálaráðherra að láta gera úttekt á stöðu fjölmiðla sem starfa utan höfuðborgarsvæðisins og leggja fram tillögur sem stuðli að því að efla og tryggja stöðu þeirra. Um gildi og mikilvægi öflugrar fjölmiðlunar er ekki deilt. Staðbundnir fjölmiðlar hafa verið starfræktir víða um land um árabil og hafa sannað gildi sitt. Rekstur þeirra hefur þó oftast gengið illa. Því er mikilvægt að skoða hvaða leiðir eru færar til að auka möguleika lítilla staðbundinna fjölmiðla til að gegna öllum þeim hlutverkum sem alvöru fjölmiðlar þurfa að sinna.
4. Fundargerðir.
Lagðar fram til kynningar:
Eyþing fundur stjórnar dags. 15. mars. 2017
SSA fundur stjórnar dags. 07. mars 2017
SASS fundur stjórnar dags. 16. mars 2017
SSS fundur stjórnar dags. 8. mars 2017
FV fundur stjórnar dags. 23. mars 2017
Samband íslenskra sveitarfélaga dags. 24. mars 2017
Vorfundur Landshlutasamtök sveitarfélaga dags 23. mars 2017
5. Skýrsla framkvæmdastjóra.
Flutt munnlega á fundinum.
6. Önnur mál
a) Svohljóðandi umsögn um mál 306, frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (jöfnunarsjóð) samþykkt.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki var markmið þeirra annars vegar að afla ríkinu tekna til að mæta þeim mikla kostnaði sem fallið hefur á ríkissjóð vegna hruns íslenska fjármálakerfisins, hins vegar að draga úr áhættusækni fjármálafyrirtækja með því að leggja sérstakan skatt á skuldir þeirra vegna þeirrar kerfisáhættu með tilheyrandi kostnaði sem áhættusöm starfsemi þeirra getur haft í för með sér fyrir þjóðarbúið. Skattskyldir aðilar og skattstofninn er tilgreindur í 2. og 3. gr. Í 5. gr. er m.a. fjallað um innheimtu skattsins og fer hún fram samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003. Í lögunum eða í lögskýringargögnum er hvergi að finna vísbendingu um annað en að skatturinn skuli renna til ríkisins með sömu formerkjum og aðrir skattar og þar með að hluta til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sbr. 8.gr. a. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Óumdeilt er að framlög vegna þessa skatts skuli renna til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Jöfnunarsjóður hefur haft tekjur af þessum skatti frá árinu 2014. Í 9. gr. laga nr. 4/1995 er fjallað um hvernig tekjum sjóðsin skuli ráðstafað. Af ákvæðinu má ráða að sjóðnum beri að ráðstafa tekjum sínum jafnóðum og þær berast. Af því er best verður séð er Jöfnunarsjóði óheimilt að geyma eða halda eftir tekjum, þeim ber að ráðstafa í samræmi við 9. gr. en sú hefur þó ekki orðið raunin vegna tekna af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki. Jöfnunarsjóður hefur tekið sér það vald, án lagaheimildar, að halda þessum fjármunum. Verður af því ráðið að sveitarfélög eigi lögvarða kröfu á hendur Jöfnunarsjóði vegna þeirra tekna sem fallið hafa til hans á grundvelli laga nr. 155/2010.
Með lögum nr. 40/2014 var gerð sú breyting á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að rétthöfum séreignasparnaðar var veitt heimilt til að ráðstafa hluta af séreignasparnaði. Samhliða þeirri breytingu var gerð breyting á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt, að ráðstöfun séreignasparnaðar samkvæmt breytingu á lögum nr. 129/1997 teldust ekki til tekna hjá rétthöfum.
Með þessari ráðstöfum var rétthöfum séreignasparnaðar veitt skattfrelsi af hluta séreignasparnaðar. Með þeirri ráðstöfum voru framtíðartekjur sveitarfélaga skertar töluvert. Í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 40/2014 var gerð tilraun til að meta áhrif tekjumissis ríkis og sveitarfélaga og kemur þar fram að tekjutap sveitarfélaga geti orðið allt að 12 milljarðar vegna ofnagreindra ráðstafanna. Hvergi í lögum nr. 40/2014 eða lögskýringargögnum þeim tengdum kemur fram að sveitarfélögum verði bætt þetta tekjutap. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið koma m.a. fram áhyggjur af tekjutapi sveitarfélaga og krafa um að sveitarfélögunum verði bætt tapið.
Í því frumvarpi sem hér er til umsagnar kemur fram að breyta eigi skiptingu tekna Jöfnunarsjóðs til að mæta tekjutapi sveitarfélaganna vegna ofangreindra ráðstafanna. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tilgangur þess sé að vega á móti þeim áhrifum sem lög nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, hafa haft á útsvarstekjur sveitarfélaganna. M.ö.o. er tilgangur frumvarpsins að bæta sveitarfélögum það tekjutap sem þau urðu fyrir vegna þeirra áhrifa sem lög nr. 40/2014 höfðu á tekjustofna þeirra.
Ljóst er að tekjur Jöfnunarsjóðs af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki liggja nú þegar hjá sjóðnum og þeim ber að ráðstafa sbr. 9. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Frumvarpið gerir ráð fyrir að sveitarfélögunum verði bætt tekjutapið með fjármunum sem nú þegar er í raun eign þeirra. Með því að breyta reglum um ráðstöfun (sbr. 9. gr.) eins og frumvarpið gerir ráð fyrir er verið að bæta tekjutapið með því að færa fjármuni frá sveitarfélögum sem fá að jafnaði há framlög frá Jöfnunarsjóði til hinna sem fá lægri framlög frá sjóðnum. Þannig eru það í raun þau sveitarfélög sem fá að jafnaði há framlög frá Jöfnunarsjóði sem eru í raun að bæta hinum sveitarfélögunum upp þeirra tekjutap.
Hafi ríkisvaldið yfir höfuð áhuga á að bæta sveitarfélögum tekjutap vegna þeirra áhrifa sem lög nr. 40/2014 höfðu væri nær að ríkið greiddu framlag til sveitarfélaga í takt við tekjutapið og tækju fjármuni til þess úr eigin vasa en ekki úr vasa sveitarfélaganna í gegnum Jöfnunarsjóð.
Stjórn samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra líta svo á að þeir fjármunir sem liggja inni hjá Jöfnunarsjóði vegna sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki sé eign sveitarfélaganna og að þau eigi lögvarða kröfu til þeirra fjármuna og Jöfnunarsjóði beri að greiða þá út samkvæmt núgildandi lögum. Stjórn mótmælir harðlega því afturvirka inngripi sem felst í frumvarpinu og hefur efasemdir um lögmæti þess.
b) Svohljóðandi ályktun um samgöngumál var samþykkt
Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) hvetur stjórnvöld til að fjármagna þá samgönguáætlun sem samþykkt var af Alþingi á síðasta ári.
Samgöngumannvirkjum í landshlutanum hefur í flestum ef ekki öllum tilfellum farið mjög aftur á liðnum árum sökum viðhaldsleysis og aukinnar umferðar. Eins eru mikilvæg samgöngumannvirki í landshlutanum sem þarfnast algerrar endurbyggingar, svo sem Skagastrandarvegur frá Blönduósi að Þverárfjallsvegi og brúin yfir Tjarnará á Vatnsnesi svo að dæmi séu nefnd. Þessir tvær framkvæmdir eru á samgönguáætlun en hafa ekki enn verið fjármagnaðar og settir á framkvæmdastig.
Tryggja þarf fjármagn til áframhaldandi uppbyggingar Hegranesvegar sem sömuleiðis er á samgönguáætlun en einnig að koma af stað uppbyggingu Reykjastrandarvegar og Skagavegar.
Af hafnarframkvæmdum sem eru á samgönguáætlun en hafa ekki verið fjármagnaðar og settar á framkvæmdastig má t.d. nefna afar brýnar endurbætur á Skagastrandarhöfn.
Tryggja þarf rekstur Alexandesflugvallar með það að markmiði að sjúkraflug um völlinn verði öruggt allt árið og að hægt verði að hefja reglubundið áætlunarflug til og frá Norðurlandi vestra. Í ljósi fjölgunnar ferðamanna og til að efla samkeppnishæfni landshlutans er það krafa SSNV að auknu fé verði varið til flugvallarins.
Í öllum sveitarfélögum landshlutans er mikil þörf á auknu fjármagni til viðhalds og endurbóta vega og hafa íbúar sent frá sér ályktanir um það efni og kröfur á stjórnvöld um úrbætur en því miður án árangurs. Foreldrar eru víða uggandi um öryggi barna sinna í skólabílum vegna ástands vega og er það vægast sagt hvorutveggja ömurlegt hlutskipti og ólíðandi staða. Landshlutinn hefur setið hjá í langan tíma þegar kemur að vegabótum og má til dæmis geta þess að einungis um 0,3% af þeim fjármunum sem ríkisvaldið lagði til stofn- og tengivega á landinu öllu á árinu 2016 voru ætluð Norðurlandi vestra þrátt fyrir að um 10% umræddra vega liggi innan landshlutans. Stjórn SSNV krefst þess að settir verði verulega auknir fjármunir til viðhalds og nýbygginga samgöngumannvirkja í landshlutanum á þessu ári og á komandi árum.
7. Starfsmenn SSNV mæta til fundar
Almennar umræður um starfsemi samtakanna
Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 11:30
Stefán Vagn Stefánsson (sign.)
Adolf H. Berndsen (sign.)
Sigríður Svavarsdóttir (sign.)
Unnur Valborg Hilmarsdóttir (sign.)
Valgarður Hilmarsson
Björn Líndal Traustason (sign.)