Lán og styrkir

Umhverfi styrkja og stuðningsúrræða fyrir einstaklinga og fyrirtæki er síbreytilegt og flókið. Atvinnuráðgjafar SSNV leitast við að fylgjast með því eins og kostur er á hverjum tíma til þess að geta veitt aðstoð í sambandi við mótun verkefna og gerð umsókna.

 SSNV veitir styrki úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra í desember ár hvert. Sjóðurinn er samkeppnissjóður og eru umsóknir metnar út frá þeim markmiðum og áherslum sem koma fram í Sóknaráætlun Norðurlands vestra.

 

Auk SSNV veita eftirfarandi stofnanir stuðning við frumkvöðla og fyrirtæki:

Byggðastofnun

Ferðamálastofa

Íslandsstofa

Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Orkustofnun

Rannís

 

Eftirfarandi styrkir eru í boði fyrir frumkvöðla og fyrirtæki en listinn er ekki tæmandi:

  • Tækniþróunarsjóður (Fræ, Sproti, Vöxtur, Sprettur, Markaðsstyrkur, Hagnýt rannsóknarverkefni, Fræ og Einkaleyfastyrkur). Alltaf er opið fyrir umsóknir um einkaleyfastyrk. Sproti er ætlaður til að styðja við verkefni á byrjunarstigi. Vöxtur er ætlaður til að styrkja þróunarverkefni sem eru komin af frumstigi hugmyndar. Sprettur er öndvegisstyrkur innan Vaxtar. Markaðsstyrkur er eingöngu fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem verja að lágmarki 10% af veltunni til rannsókna- eða þróunarstarfs samkvæmt síðasta reikningsári. Hagnýt rannsóknarverkefnni er ætlað fyrir háskóla, opinberar rannsóknastofnanir og opinber fyrirtæki. Þau hafa það að markmiði að afla nýrrar þekkingar og kunnáttu sem nýtist til að þróa nýjar vörur, verkferla eða þjónustu eða til að koma í kring umtalsverðum endurbótum á eldri vörum, verkferlum eða þjónustu. Verkefnið þarf að vera með skýr og raunhæf markmið um hagnýtingu.Fræ er ætlað fyrirtækjum yngri en 5 ára og einstaklinga. Fræið hefur það að markmiði að styðja við hugmyndir og verkefni á frumstigi sem getur leitt af sér stærra þróunarverkefni. Einkaleyfastyrkir eru annars vegar til að undirbúa og skila inn forgangsréttarumsókn og hins vegar að undirbúa og skila inn umsókn í alþjóðlegt ferli.
  • Skattfrádráttur rannsóknar- og þróunarverkefna. Markmiðið er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja með því að veita þeim rétt til skattfrádráttar vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni.
  • Loftslagssjóður. Loftslagssjóður er sérstakur sjóður sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra. Hlutverk sjóðsins er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Styrkir eru meðal annars ætlaðir til þess að styrkja rannsóknir og þróunarstarf í tengslum við innleiðingu á nýjum loftslagsvænum tæknilausnum og hönnun.

  • Nýsköpunarsjóður námsmanna. Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi við háskóla til sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarverkefni.

  • Atvinnumál kvenna. Fyrirtæki þurfa að vera a.m.k. 51% í eigu kvenna og stjórnað af konu. Um nýnæmi skal vera að ræða, annaðhvort nýja vöru/þjónustu eða þróun vöru/þjónustu. Hámarksstyrkur er 4.000.000 og ekki eru veittir styrkir lægri en 600.000. Mótframlag þarf að vera 50% af kostnaði. Veittir eru styrkir til gerðar viðskiptaáætlunar, áætlanagerðar, þróunarkostnaðar og markaðssetningar. Ef fyrirtæki er nýstofnað en ekki komið í rekstur og/eða liggi trúverðug viðskiptaáætlun fyrir og viðkomandi að hefja rekstur er hægt er að sækja um styrk til að hrinda hugmynd í framkvæmd (launastyrkur fyrir viðkomandi styrkþega).

  • Rannsóknasjóður. Veittur er styrkur til skilgreindra rannsóknaverkefna vísindafólks og rannsóknanema í grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum.

  • Innviðasjóður. Sjóðurinn er ætlaður sem fjármögnun kaupa á dýrum rannsóknatækjum, uppbyggingu rannsóknainnviða og aðgangs að rannsóknainnviðum.

  • Sóknarstyrkir. Markmið sjóðsins er undirbúningur umsókna í alþjóðlega rannsóknasjóði, einkum Horizon 2020.

  • Frádráttur frá tekjum erlendra sérfræðinga. Umsóknarferli er alltaf opið. Markmiðið er að laða að erlenda sérfræðinga sem búa yfir nauðsynlegri þekkingu og hæfni til starfa hér á landi og með því að gera fyrirtækjum auðveldara fyrir að fá til sín slíka aðila svo að ekki þurfi að fara með viðkomandi starfsemi úr landi. 

  • Jafnréttissjóður. Tilgangur sjóðsins er að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu.

  • Uppbyggingarsjóðir Norðurlands vestra. Tilgangur Uppbyggingarsjóðs er að styrkja annars vegar menningar- og hinsvegar atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni á Norðurlandi vestra. Sjóðurinn er samkeppnissjóður og eru umsóknir metnar út frá þeim markmiðum og áherslum sem koma fram í Sóknaráætlun Norðurlands vestra.

  • Orkurannsóknasjóður. Markmið sjóðsins er að veita styrki til námsmanna, rannsóknarverkefna á vegum háskóla, stofnana, fyrirtækja og einstaklinga.

  • Eurostars. Eurostars eru fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem stunda sjálf rannsóknar- og þróunarstarfsemi (e. R&D performing SMEs), sem eru í alþjóðlegu samstarfi og stefna á markað.

  • Matvælasjóður. Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla og hliðarafurða úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Áhersla er á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvæla um land allt. Sjóðnum er einnig heimilt að styðja við vöruþróun og markaðssókn á erlendum mörkuðum. Sjóðurinn fylgir eftir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í þessum tilgangi styrkir sjóðurinn verkefni og rannsóknir einstaklinga og lögaðila.

  • Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Hlutverk Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er að veita styrki til uppbyggingar, viðhalds og vernd­unar ferðamannastaða sem eru í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila um land allt og til aðgerða sem stuðla að öryggi ferðamanna og verndun náttúru landsins. Einnig er sjóðnum ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.

  • Hönnunarsjóður. Hönnunarsjóður veitir styrki til margvíslegra verkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs: þróunar og rannsókna, verkefna og markaðsstarfs auk ferðastyrkja. Hlutverk Hönnunarsjóðs er að efla þekkingu, atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi. Hönnunarsjóður stuðlar einnig að auknum útflutningi íslenskrar hönnunar með því að styrkja kynningar- og markaðsstarf erlendis.

  • Nordplus. Ýmsir sjóðir eru í boði innan Nordplus áætlunarinnar. Fyrir háskólastigið, samstarfsverkefni menntastofnana á ólíkum stigum, leik- grunn- og framhaldsskólastig, tungumál og fullorðinsfræðsla. Frekari útlistun og umsóknarfrestir er að finna á heimasíðu Rannís. 

  • Erasmus +. Erasmus+styrkir verkefni af ýmsum toga en einnig er um að ræða samstarfsfleti milli landa og miðlun á þekkingu á sameiginlegum vefsvæðum. Sjóðir innan Erasmus+ eru Kennara og starfsmannaskipti á háskólastigi, nám og þjálfun innan starfsmenntunar, samstarfsverkefni á háskólastigi, nám og þjálfun á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi, samstarfsverkefni á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi, samstarfsverkefni á sviði fullorðinsfræðslu, samstarfsverkefni á sviði starfsmenntunar og stúdentaskipti og starfsnám á háskólastigi. Allar frekari upplýsingar eru á heimasíðu Rannís.

  • Þróunarsjóður námsgagna. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu námsgagna fyrir leik-grunn- og framhaldsskóla með það að markmiði að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda og skóla.

  • Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara. Hægt er að sækja um styrki til að skipuleggja sumarnámskeið framhaldsskólakennara í samstarfi við bókhaldsskylda fræðslu- eða menntastofnun, gestafyrirlestur á vegum fagfélags eða skóla, þátttöku í ráðstefnum og vettvangsnám.

  • Kvikmyndasjóður. Umsóknarferli er opið allt árið. Kvikmyndasjóður veitir styrki til handritsgerðar, þróunarverkefna, framleiðslu íslenskra kvikmynda og kynningar á íslenskum kvikmyndum. 

  • Myndlistarsjóður. Veittir eru styrkir í fimm flokkum og eru þeir eftirfarandi:

    Undirbúningsstyrkir og styrkir til minni sýningarverkefna allt að 500.000 kr.
    Styrkir til stærri sýningarverkefna, útgáfu-/rannsóknarstyrkir allt að 2.000.000 kr.
    Aðrir styrkir allt að 1.000.000 kr.

  • Barnamenningarsjóður. Hlutverk Barnamenningarsjóðs er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. 

  • Listamannalaun. Tilgangur sjóðsins er að efla listsköpun í landinu. Alþingi veitir árlega fé af fjárlögum til þess að launa listamenn í samræmi við lög 57/2009.

  • Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar. Nefnd um endurgreiðslu kemur saman að jafnaði tvisvar í mánuði og fjallar um umsóknir. Umsækjandi þarf að skila umsókn ásamt fylgigögnum í seinasta lagi viku fyrir næsta fyrirhugaða fund svo unnt sé að taka umsókn til umfjöllunar. Framleiðendur kvikmynda eða sjónvarpsefnis á Íslandi eiga kost á endurgreiðslum á allt að 25% af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi. Skilyrði er að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru eða að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu á listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa. 

  • Creative Europe Menning. Markmið sjóðsins er að efla listsköpun í landinu og koma á samstarfi á milli listastofnana og listamanna í Evrópu. Hægt er að sækja um fjárstyrk til að skipuleggja millilandaheimsóknir fyrir evrópska listamenn, fjármagna bókmenntaþýðingar, skipuleggja fagþjálfun eða tengslanet fyrir fagfólk, koma listamönnum og verkum þeirra á framfæri á nýjum mörkuðum og fyrir nýjum áhorfendum í gegnum tengslamyndin og samstarf. Mismunandi umsóknarfrestir eru eftir sviði. Nánari upplýsingar á heimasíðu sjóðsins

  • Creative Europe Media. Þróunar á leiknum kvikmyndum og sjónvarpsefni, skapandi heimildamyndum, teiknimyndum og tölvuleikjum. Dreifing og sala á kvikmyndum og margmiðlunarefni. Stuðningur við kvikmyndahátíðir og þjálfun fagfólks í geiranum ásamt stuðningi við tengslanet sem styðja samstarf listamanna landa milli. Mismunandi umsóknarfrestir eru eftir sviði. Nánari upplýsingar á heimasíðu sjóðsins

  • Tónlistarsjóður. Hlutverk Tónlistarsjóðs er að efla íslenska tónlist samkvæmt Tónlistarlögum og reglum um Tónlistarsjóð. Umsóknarfrestir fyrir alla styrki Tónlistarsjóðs, nema ferðastyrki, eru í maí og nóvember. Ferðastyrkir eru veittir annan hvern
    mánuð frá og með 1. júní 2024. 1. febrúar, 1. apríl, 1. júní, 1. ágúst, 1. október, 1. nóvember (auka úthlutun) og 1. desember.

  • Markaðsstyrkur ÚTÓN. Umsóknarfrestir eru fyrir 1. febrúar, 1. maí, 1. ágúst og 1. nóvember. Markaðsstyrkir eru ætlaðir til þess að gera tónlistarmönnum kleift að framkvæma stærri kynningarverkefni á erlendum markaði. Styrkirnir eru veittir fjórum sinnum á ári. Þá er úthlutað tveimur styrkjum að upphæð 500.000 kr. og einum að upphæð 1.000.000 kr. hverju sinni. Stjórn Útflutningssjóðs áskilur sér þann rétt að veita umsækjendum hærri eða lægri upphæðir eftir fjárþörf og gæðum verkefnisins.

  • Ferðastyrkur ÚTÓN. Að jafnaði er veittur stykur upp á 50.000 krónur á mann, en sjóðstjórn hefur leyfi til að lækka eða hækka þá upphæð, hámarksstyrkur á mann er 100.000.  Hvert verkefni getur að hámarki hlotið styrk upp á 400.000 krónur.

Mikilvægt er að vanda vel til verka þegar sótt er um styrki, hér er að finna góð ráð.