Sóknaráætlun

Núgildandi sóknaráætlanir landshlutanna gilda út árið 2024. Ný Sóknaráætlun Norðurlands vestra fyrir árin 2025-2029 hefur verið samþykkt á haustþingi SSNV og tekur hún gildi í janúar 2025. Með nýrri sóknaráætlun fyrir Norðurland vestra fyrir árin 2025-2029, sjáum við fyrir okkur framtíð þar sem samfélagið okkar getur vaxið, dafnað og byggt á sínum styrkleikum. Sóknaráætlunin okkar er ekki einungis verkfæri fyrir áhersluverkefni svæðisins heldur einnig leiðarljós sem byggir á meginmarkmiðum byggðaáætlunar, landsskipulagsstefnu, menningarstefnu og annarri opinberri stefnumótun.

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV, samþykkti á vormánuðum 2024 að ráða samskiptafyrirtækið Aton til að veita ráðgjöf og aðstoð við gerð nýrrar sóknaráætlunar. í ferlinu voru gögn um stöðu landshlutans rýnd og gerð úttekt á markmiðum 
og árangri fyrri sóknaráætlunar. Netkönnun var send til kjörinna fulltrúa og viðtöl tekin við ólíka aðila úr samfélaginu, svo sem úr atvinnulífi, stofnunum, mennta- og menningarmálum, haldnar voru þrjár opnar vinnustofur og ungmennaþing til að tryggja aðkomu fjölbreyttra hópa að stefnumótunarferlinu. Það er þessi sameiginlegi kraftur sem hefur mótað hina vönduðu og vel unnu sóknaráætlun sem við höfum í dag.

 

 

Opnar vinnustofur voru haldnar á eftirfarandi stöðum:

Félagsheimilið á Hvammstanga - 20. ágúst 
Félagsheimilið á Blönduósi - 21. ágúst 
Félagsheimilið Ljósheimar í Skagafirði - 22. ágúst

 

Stefnuáherslur á vinnustofum voru: 

-  Samstaða, jákvæðni og bjartsýni – Drifkraftur íbúa mótar samfélagið.

-  Aukin nýsköpun og fjölbreytt atvinnulíf – Öflugt atvinnulíf styður við lífsgæði á svæðinu.

-  Góður staður til að búa á – Blómlegt menningarlíf og fjölskylduvænt samfélag.

-   Landshluti í sjálfbærri uppbyggingu – Samfélag í forystu í umhverfismálum.

 

Á vinnustofunum fengu íbúar tækifæri til þess að koma sínum hugmyndum og skoðunum á framfæri. Allar voru vinnustofurnar vel sóttar og þökkum við íbúum vinnusemina, allir sem mættu voru tilbúnir til að taka virkan þátt í stofunni og það skilaði sér svo sannarlega.

 

 

Vönduð og vel unnin sóknaráætlun er öflugt stjórntæki

Að hafa stefnumótandi áætlun og áherslur fyrir okkar landsvæði getur skipt sköpum. Aðferðafræði sóknaráætlana veitir okkur aukið frelsi til athafna og ákvörðunartöku um mál og málefni sem varðar okkar samfélag. Þannig er sóknaráætlunin okkar stefnumótandi skjal sem varpar ljósi á þau gildi og menningu sem landshlutinn byggir á.

Sóknaráætlun tekur mið af meginmarkmiðum byggðaáætlunar, landsskipulagsstefnu, skipulagsáætlunum, menningarstefnu og annarri opinberri stefnumótun. 

Fjármunirnir nýtast best hjá þeim sem þekkja aðstæður og hafa innsýn í nærumhverfið

Lög um sveitarstjórnir fela landshlutasamtökum sveitarfélaga að vinna sóknaráætlanir á sínu svæði og bera ábyrgð á framkvæmd þeirra. Samkvæmt lögunum skulu sóknaráætlanir taka mið af meginmarkmiðum byggðastefnu og eftir atvikum öðrum opinberum stefnum. Sóknaráætlanir eru þannig t.d. tengdar með beinum hætti við byggðaáætlun fyrir allt landið. 

Bein áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta

Byggðamál eru viðfangsefni allra ráðuneyta og ná til landsins alls. Sóknaráætlanir auka samráð ráðuneyta á sviði byggðamála og aðlaga byggðamál að annarri stefnumótun. Í framtíðarsýn í núgildandi byggðaáætlun kemur fram að í öllum landshlutum verði blómlegar byggðir og öflugir byggðakjarnar þar sem stuðlað verði að bættum lífskjörum landsmanna með sem jöfnustu aðgengi að grunnþjónustu og atvinnutækifærum óháð efnahag og búsetu. 

Kynningarrit um samninga Sóknaráætlanir landshluta

Introduction about Sóknaráætlun (Regional plan of actions) in english