Hér má nálgast pdf útgáfu fundargerðarinnar.
Þriðjudaginn 5. apríl 2022 kom stjórn SSNV saman til fundar á Skagaströnd. Hófst fundurinn kl. 9:30.
Mætt voru: Ingibjörg Huld Þórðardóttir, Þorleifur Karl Eggertsson (í fjarfundi), Álfhildur Leifsdóttir, Halldór G. Ólafsson, Anna Margret Sigurðardóttir (í fjarfundi) og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð. Ingibjörg Huld Þórðardóttir, formaður, setti fundinn og stjórnaði honum.
Dagskrá
Afgreiðslur
1. Bréf frá dómsmálaráðherra vegna fyrirhugaðrar endurskipulagningar sýslumannsembætta.
Lagt fram bréf frá Jóni Gunnarssyni, dómsmálaráðherra, dags. 21. mars 2022. Í því eru kynntar fyrirhugaðar breytingar á sýslumannsembættum sem m.a. felast í því að embætti sýslumanna um land allt verði sameinuð í eitt. Stjórn SSNV lýsir yfir áhyggjum af fyrirhugaðri breytingu og harmar að ekki hafi verið viðhaft samráð við sveitarfélög í undirbúningi hennar. Vísað er í hraða stafræna þróun og að núverandi skipulag henti illa af þeim sökum. Stjórn SSNV vill benda á að stafræn þróun sýslumannsembætta hefur staðið yfir um nokkurt skeið og ekki að sjá að núverandi fyrirkomulag hafi verið til trafala í þeim efnum. Einnig er vert að benda á að sýslumenn fara með úrlausn viðkvæmra mála sem erfitt er að sjá að hægt sé að leysa með rafrænum hætti. Í bréfinu kemur jafnframt fram að markmiðið með breytingunni er að efla núverandi starfsemi og styrkja þær starfsstöðvar sem eru að þjónusta almenning um land allt. Ekki er tiltekið með hvaða hætti. Framkvæmdastjóra er falið að óska eftir frekari kynningu á breytingunni til að betur verði hægt að leggja mat á áhrif hennar á samfélögin í landshlutanum.
2. Bókun bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga.
Lögð fram til kynningar bókun sveitarfélagsins Voga vegna ferlis útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.
3. Starfsáætlun Markaðsstofu Norðurlands.
Lögð fram til kynningar starfsáætlun Markaðsstofu Norðurlands fyrir árið 2022.
4. Samgöngu og innviðaáætlun Norðurlands vestra.
Á nýafstöðnu 30. ársþingi SSNV var samþykkt, með tveimur breytingum, Samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra. Áætlunin hefur verið uppfærð með tilliti til þeirra breytinga sem samþykktar voru á þinginu og liggur því fyrir í lokaútgáfu. Stjórn SSNV vill þakka samgöngu- og innviðanefnd vel unnin störf. Framkvæmdastjóra er falið að koma áætluninni á framfæri við þá sem hlut eiga að máli og fylgja henni eftir.
5. Aukaþing í kjölfar sveitarstjórnarkosninga.
Skv. grein 2.1 í samþykktum SSNV skal, það ár sem sveitarstjórnarkosningar fara fram, halda aukaþing þar sem fram fer kjör nýrrar stjórnar ásamt kynningu á starfsemi samtakanna fyrir nýja sveitarstjórnarmenn. Skal þingið haldið sem fyrst að afloknum kosningum, eigi síðar en 15. júlí. Skulu nýjar sveitarstjórnir tilkynna um þingfulltrúa fyrir 1. júlí. Boða skal til þings með tveggja vikna fyrirvara.
Stjórn ákveður að aukaþing skuli haldið þann 21. júní 2022.
Framkvæmdastjóra er falið að tilkynna sveitarfélögunum dagsetningu þingsins, óska eftir því að tilnefningu fulltrúa verði lokið eigi síðar en 6. júní og hefja undirbúning þings.
6. Kynningarmál.
Undanfarin 9 ár hefur SSNV átt í farsælu samstarfi við sjónvarpsstöðina N4 og hefur til þess verið nýtt fé sem á fjárhagsáætlun er eyrnamerkt kynningarmálum. Hefur samningur við sjónvarpsstöðina að mestu snúist um framleiðslu efnis í þáttinn Að norðan sem og framleiðslu á sérstökum þáttaröðum, líkt og Uppskrift að góðum degi á Norðurlandi vestra frá árinu 2020. Nú liggur fyrir mikið efni sem tekið hefur verið upp í landshlutanum sem nýta má til gerðar kynningarefnis fyrir landshlutann. Sem t.d. má nýta á samfélagsmiðlum. Framkvæmdastjóra er falið að fá tilboð frá N4 í gerð slíks efnis sem og endurbirtingu þáttanna Uppskrift að góðum degi á Norðurlandi vestra.
7. Fundargerðir lagðar fram til kynningar.
Stjórn SSH, 7. mars 2022. Fundargerðin.
Stjórn SSS, 16. mars 2022. Fundargerðin.
Stjórn SSV, 2. mars 2022. Fundargerðin.
Stjórn SSNE, 9. mars 2022. Fundargerðin.
Stjórn SASS, 4. mars 2022. Fundargerðin.
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, 25. mars 2022. Fundargerðin.
8. Umsagnarbeiðnir og mál í samráðsgátt stjórnvalda.
Frumvarp til laga um fjarskipti. 461. mál. Umsagnarfrestur er til 13. apríl 2022.
Framkvæmdastjóra er falið að rýna frumvarpið og gera tillögu til stjórnar að umsögn.
9. Skýrsla framkvæmdastjóra.
Framkvæmdastjóri fer yfir helstu verkefni. Flutt munnlega á fundinum.
10. Önnur mál.
a) Markaðsstofa Norðurlands.
Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi SSNV í stjórn Markaðsstofu Norðurlands fer yfir helstu störf Markaðsstofunnar.
b) Stafrænt ráð sveitarfélaga.
Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi SSNV í stafrænu ráði sveitarfélaga fer yfir helstu störf ráðsins.
c) Heimildir til veitingar ívilnana
Í 27. og 28. greinum laga um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020 eru heimilaðar ívilnanir við endurgreiðslu námslána. Annars vegar vegna viðvarandi eða fyrirsjáanlegs skorts í starfsstétt og hins vegar vegna námsgreina á sérstökum svæðum sem skilgreind eru í samráði við Byggðastofnun. Stjórn SSNV hefur ekki upplýsingar um að þessar greinar laganna hafi komið til framkvæmda enn sem komið er og er það miður. Einkum í ljósi umræðu um að á landsbyggðinni skorti víða sérmenntað starfsfólk svo sem lækna, hjúkrunarfræðinga og jafnvel lögreglumenn. Stjórn SSNV kallar eftir því að kynntar verði verklagsreglur um veitingu framangreindra ívilnana til að auðvelda sveitarfélögum að laða til sín einstaklinga með nauðsynlega menntun til að auka öryggi og bæta búsetuskilyrði.
Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 11:05.
Ingibjörg Huld Þórðardóttir
Þorleifur Karl Eggertsson
Halldór G. Ólafsson
Álfhildur Leifsdóttir
Anna Margret Sigurðardóttir
Unnur Valborg Hilmarsdóttir