Hér má nálgast fundargerðina á pdf formi.
Fundargerð 47. fundar stjórnar SSNV, 3. september 2019.
Þriðjudaginn 3. september 2019 kom stjórn SSNV til fundar í Varmahlíð og hófst fundurinn kl. 10:00.
Mætt voru: Þorleifur Karl Eggertsson, Ragnhildur Haraldsdóttir, Valdimar O. Hermannsson, Stefán Vagn Stefánsson, Álfhildur Leifstóttir og Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð. Þorleifur Karl Eggertsson formaður setti fundinn og stjórnaði honum.
Dagskrá:
Afgreiðslur:
1. Almenningssamgöngur.
Nú er ljóst að samningar milli landshlutasamtaka og Vegagerðarinnar sem renna út um komandi áramót munu ekki verða endurnýjaðir. Stjórn SSNV krefst þess að heimamenn verði hafðir með í ráðum varðandi skipulag leiða og áætlana til að þær nýtist sem best og einnig að leiða verði leitað til að semja við heimamenn um aksturinn líkt og verið hefur. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra óska eftir samtali við Vegagerðina um almenningssamgöngur í landshlutanum.
2. 6 mánaða uppgjör.
Lagt fram 6. mánaða uppgjör samtakanna. Rekstur er almennt skv. áætlun.
3. Öryggisúttekt á vegum á Norðurlandi vestra.
Stjórn staðfestir ákvörðun sem samþykkt hafði verið með tölvupósti um að gengið verði til samninga við Ólaf Guðmundsson umferðaröryggissérfræðing um gerð öryggisúttektar á vegum á Norðurlandi vestra. Mun verkið hefjast nú þegar og ljúka um leið og tölur yfir slys og umferð ársins 2018 liggja fyrir. Vinna þessi er í beinu framhaldi af vinnu við gerð samgönguáætlunar landshlutans og mun verða nýtt til uppfærslu á henni. Sveitarfélögin munu einnig fá gögnin í hendur til notkunar. Kostnaður við verkið er um 2,6 milljónir.
4. Dagskrá haustþings.
Framkvæmdastjóri leggur fram drög að dagskrá haustþings. Stjórn samþykkir drögin og mun þingið fara fram í Húsi frítímans, Sæmundargötu á Sauðárkróki, föstudaginn 18. október kl. 9.30-13.30.
5. Fjárhagsáætlun ársins 2020.
Framkvæmdastjóri fer yfir forsendur og fyrstu drög fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020. Stjórn samþykkir þær forsendur sem fram eru lagðar og felur framkvæmdastjóra að ljúka gerð áætlunarinnar.
6. Fundargerðir.
Lagðar fram til kynningar.
Stjórn SASS, 16. ágúst 2019.
Stjórn Eyþings, 13. ágúst 2019.
Stjórn SSH, 19. júní 2019.
7. Umsagnarbeiðnir og mál í samráðsgátt stjórnvalda.
Engar umsagnarbeiðnir hafa borist.
8. Skýrsla framkvæmdastjóra.
Flutt munnlega á fundinum.
9. Önnur mál
a. Jöfnun raforkuverðs.
Stjórn SSNV hefur tekið raforkuverð til umfjöllunar og vill beina því til ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar að raforkuverð í dreifbýli og þéttbýli verði jafnað.
Frá því að skipulagsbreytingar voru gerðar á raforkukerfinu árið 2005 hafa fyrirtæki sem annast dreifingu á raforku í þéttbýli og dreifbýli haft tvær mismunandi gjaldskrár, aðra fyrir dreifingu raforku í þéttbýli og hina fyrir dreifingu raforku í dreifbýli. Þrátt fyrir niðurgreiðslu frá ríkinu, með svonefndu dreifbýlisframlagi, er raforkuverð í dreifbýli enn hærra en raforkuverð í þéttbýli.
Frá árinu 2015 hefur dreifbýlisframlagið verið fjármagnað með svonefndu jöfnunargjaldi, sem er lagt á alla almenna raforkunotkun. Til að ná fullri jöfnun raforkuverðs fyrir alla landsmenn er áætlað að þurfi viðbótarframlag sem nemur um 900 m.kr. á ári.
Stjórn SSNV tekur undir tillögu stjórnar SASS í bókun frá 546. fundar hennar dags. 16 maí sl. um að nýta megi hluta af arði af rekstri Landsvirkjunar sem framlag til niðurgreiðslu raforkuverðs. Ástæða er til að benda á að í gegnum tíðina hefur verið rætt um að þegar skuldir Landsvirkjunar hafi verið greiddar niður muni arður af henni nýtast í þágu landsmanna. Það liggur beinast við að sá arður verði nýttur á sviði raforkumála og beinlínis í þágu landsbyggðarinnar, þar sem allar virkjanir Landsvirkjunar standa. Um þýðingarmikið byggðamál er að ræða og löngu tímabært er að íbúar hinna dreifðu byggða sitji við sama borð og íbúar í þéttbýli hvað varðar raforkuverð og í raun hálfhjákátlegt að þeir sem búa næst uppsprettu raforkunnar, nærri virkjununum eða undir raflínum sem flytja orkuna á suðvesturhornið, skuli greiða hærra verð fyrir orkuna en þeir sem fjær búa.
Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt.
Fundi slitið kl. 11:55.
Þorleifur Karl Eggertsson
Ragnhildur Haraldsdóttir
Valdimar O. Hermannsson
Stefán Vagn Stefánsson
Álfhildur Leifsdóttir
Unnur Valborg Hilmarsdóttir