Saga sagnameistara
„Það hefur mér fundist skrýtnast, að um leið og þeim fækkar, sem þekkja þennan heim, sem ég skrifa um, þá hef ég spurnir af ungu fólki, sem nennir að lesa sögurnar mínar. Það finnst mér eiginlega meira virði, en þótt einhverjir stytti sér stundir við kerlingabókahjal og kaffibolla.“[1]
Þessi orð úr viðtali við Guðrúnu Árnadóttur frá Lundi þegar hún var 84 ára draga í raun saman sögu hennar sem rithöfundar. Sögu sem sýnir ævintýralegar og endurteknar vinsældir en einnig afskiptaleysið sem henni var sýnt hjá bókmenntastofnuninni á sínum tíma. Nú þegar Dalalíf hefur verið útgefið í fjórða sinn er ekki úr vegi að skoða þessa sögu og hvað það er sem gerir það að verkum að bækur Guðrúnar hafa verið lesnar á Íslandi í 70 ár og njóta enn vinsælda. Jafnvel er hægt að tala um nýja Guðrúnarbylgju og að Guðrún hafi komist í tísku á 21. öldinni og þá um leið loksins hlotið viðurkenningu sem alvörurithöfundur. Sumir sáu á þessu spaugilegar hliðar og Guðbergur Bergsson bendir á að hin nýja vinsældabylgja feli í sér algjöran viðsnúning. Það að háskólasamfélagið og menntamenn hampi nú Guðrúnu þýði afskiptaleysi fyrrverandi aðdáendahóps: „Afkomendur hins sauðsvarta almennings, sem las á sínum tíma ekkert nema bækur Guðrúnar, vita varla hver hún var eða að hún sé framúrstefnu-feministakerling fyrir háskólafólk.“[2] Vissulega voru þessar tvær stærðir, menntaelítan og almenningur, leikendur í rithöfundarsögu Guðrúnar en skilin voru þó ekki svona skörp, margir sem lásu Laxness lásu líka Guðrúnu en það vildu ekki allir viðurkenna það.
Þeir sem lásu bækur Guðrúnar héldu því fyrir sjálfa sig og bækurnar voru sjaldan í betri stofum eða stásshillum. Hjá hluta þjóðarinnar varð hún neðanjarðarhöfundur þótt aldrei hafi vinsældirnar minnkað. Guðrún hæðist að þessu sjálf þegar hún segir: „Kerling eins og ég má ekki skrifa svona mikið.“[3] Í seinni tíð hefur jafnvel verið talað um að lesendur Guðrúnar séu komnir úr felum. Hvort það er alfarið viðhorfsbreytingu háskólasamfélagsins til skáldkonunnar að þakka má efast um en Guðbergur Bergsson er ekki í vafa og talar um „sektarkenndarsár“ og að bókmenntafræðingar vilji „má út syndir feðranna með hátíð sem hreinsar bókmenntasöguna af svívirðu“.[4]
Guðrún nýtur enn mikilla vinsælda, það sást vel á árunum 2010 og 2011 þegar haldin voru málþing í Fljótum í Skagafirði undir heitinu Er enn líf í Hrútadal? Þar er vísað til dalsins fræga í Dalalífi. Fullt var út úr dyrum í bæði skiptin og margir tóku til við að lesa Guðrúnu auk þess sem kvartað var undan því að bækurnar væru ófáanlegar. Hallgrímur Helgason rithöfundur hreifst með og eftir lesturinn á Dalalífi stillti hann Guðrúnu upp við hlið Halldórs Laxness sem stórskáldunum tveimur enda þótt aðstöðumunur þeirra hvað varðaði menntun og ritstjórn væri augljós. „... hæfileikinn sem henni var gefinn var stærri en sá sem hún fékk að njóta.“[5]
Þótt bækur Guðrúnar væru mikið lesnar voru líka margir sem þekktu einungis til umræðunnar og tengdu höfundarnafnið við kerlingabækur og töldu þær gamaldags og hallærislegar. Staða Guðrúnar meðal rithöfunda er því sérstök. Í Guðrúnu birtist saga þrautseigju og kjarks ómenntaðrar sveitakonu sem kom fyrir almenningssjónir á peysufötum og sem færði þjóðinni sveitina sína í meðbyr og mótlæti. Hún varð metsöluhöfundur á einni nóttu og hélt þeirri stöðu samfellt í tvo áratugi. Hún varð líka vörumerki sem allir þekktu og höfðu skoðun á, hún átti sér marga aðdáendur en einnig raddsterka gagnrýnendur sem tefldu bókum hennar fram sem andstæðu góðra bókmenntaverka.Þrátt fyrir gríðarlegar vinsældir ríkti þögn um verk hennar hjá bókmenntastofnuninni enda voru þau flokkuð sem afþreyingarbókmenntir og um þær er auðvitað ekki rætt. Afþreyingarbókmenntir áttu sannarlega ekki upp á pallborðið og höfðu sumir miklar áhyggjur af því að bókmenntaþjóðin lifði á innlendum „kerlingabókum“ og þýddu reyfararusli. Það þótti ekki par fínt að lesa Guðrúnu en það viðhorf hefur breyst mikið og í fjórða bindi Íslenskrar bókmenntasögu sem kom út árið 2006 eru sex blaðsíður tileinkaðar Guðrúnu frá Lundi undir heitinu „Lífið í dalnum“. Vegferð Guðrúnar frá Lundi inn í ritaða bókmenntasögu tók hana þó sextíu ár ef talið er frá útgáfu fyrstu bókar af Dalalífi.
Guðrún fæddist árið 1887 að Lundi í Stíflu í Skagafirði þann 3. júní og var fjórða barn þeirra Árna Magnússonar (1854–1924) og Baldvinu Ásgrímsdóttur (1858–1941). Alls voru systkinin 11 en tvær stúlkur dóu í æsku. Árna föður hennar er lýst sem mjög bókhneigðum manni „svo að hann hafði eigi unnað bókum sínum minna en búsmala“.[6] Baldvina er sögð dugnaðarforkur og í Skagfirskum æviskrám er tekið fram að hún hafi verið „frábitin öllu lestrarstússi, en Árni bóndi miklu fróðari en almennt gerðist meðal alþýðu, las mikið fyrir börn sín og lagði sig fram um að skýra fyrir þeim hvaðeina, sem þau skildu ekki, og hvatti þau til lestrar“.[7] Guðrún segir að aðallega hafi þetta verið Íslendingasögur og riddarasögur, „en þjóðsögur og draugasögur voru ekki síður þegnar, þótt þær bæru þann árangur, að gera okkur tryllt af myrkfælni“.[8] Guðrún var snemmlæs og las það sem gafst þótt helst kysi hún skáldsögur og dáðist mjög að Torfhildi Hólm sem fyrst íslenskra kvenna gaf út skáldsögur og smásögur.
Fjölskyldan flutti frá Lundi þegar Guðrún var sjö ára en hún virðist alla tíð hafa haft sterkar taugar til Fljótanna og finnst að þar hafi alltaf „verið sólskin og blíða“. Hún lýsir bernskuheimili sínu í viðtali árið 1958: „Börnum nú á dögum mundi ekki finnast, að þar hafi verið margt til skemmtunar. En það, sem nú mundu þykja smávægilegir atburðir, varð þá að stórum viðburðum.“ Gesta var beðið með óþreyju og Guðrún dregur upp áhrifamikla mynd af því þegar bóksali kemur að Lundi, alla leið frá Akureyri. „Hann bar stóran poka á baki. Börnin stóðu álengdar í mikilli lotningu, þegar hann tók að raða bókunum á rúmið hjá sér.“[9] Frá sjö ára aldri bjó Guðrún ásamt fjölskyldu sinni að Enni á Höfðaströnd og þar víkkaði sjóndeildarhringurinn mikið, því í dalinn komu fáir en á ströndinni voru mörg býli og svolitlir kaupstaðir rétt hjá, Hofsós og Grafarós. Allt bauð þetta hugarfluginu og framtíðarvonunum faðminn og þarna sá Guðrún sjóinn í fyrsta sinn.[10] Kennari var tekinn á heimilið, Ástvaldur Björnsson, og hann sá fljótlega að Guðrún átti gott með að skrifa. Guðrún vildi þó fara leynt með skrifin og verður feimin og sár þegar hann les upp sögu eftir hana og hvetur til dáða. Skólaganga Guðrúnar var stutt en áþekk flestra Íslendinga á þessum tíma. Hún naut kennslu í þrjár vikur í senn í þrjá vetur eða samtals í níu vikur. Menntunin fólst því að mestu í lestri bóka og var lestarfélagið á Höfðaströndinni kærkomið. „Það var nú meiri gullnáman að komast í það.“[11]
Frá Höfðaströndinni lá leið fjölskyldunnar út á Skaga, fyrst að Ketu en síðan á næsta bæ, Syðra-Malland, sem stendur alveg við sjóinn. Á Skaganum skrifaði Guðrún mikið og lét sig dreyma um að menntast. „Ég var búin að ráðgera með sjálfri mér að reyna að læra eitthvað meira en það, sem þurfti til að komast í kristinna manna tölu, en svo var fermingin kölluð í þá daga, en það varð lítið úr því.“[12] Hún fær nokkur dýrmæt ár þar sem hún skrifar „söguvitleysur“ eins og hún kallaði þessu fyrstu skrif sín en yfirgefur foreldrahús um tvítugt og ræður sig í vetrarvist „til að kanna heiminn í Skagafirði og Húnavatnssýslu“.[13] Eftir það verður nær ógjörningur fyrir hana að sinna hugðarefnum sínum. „Eftir að ég fór úr foreldrahúsum, tóku við þessi vanalegu kjör kynsystra minna, eins og þau voru á þeim árum, vistir, gifting og búskapur og heldur lítill tími til skrifta.“[14]
Eftir stuttan tíma í kaupavinnu í Skagafirði réðst Guðrún til vetrarvistar í Þverárdal í Austur-Húnavatnssýslu. Þar kynntist hún mannsefni sínu, Jóni Jóhanni Þorfinnssyni, og voru hringarnir settir upp sumarið eftir. „Það var svo sem ekki beðið með það, að leggja út í lífið.“[15] Hún hafði reyndar, skömmu áður en hún kynntist Jóni, fest kaup á farseðli með skipi vestur um haf og ætlaði að sigla með Ásmundi bróður sínum og konu hans. Þau hjón hættu hins vegar við ferðina og Guðrún vildi ekki fara ein. Ameríka kemur fyrir í nokkrum sögum Guðrúnar enda gerast þær sumar á tíma Vesturferða. En Ameríka verður þar „áþekk himnaríki“ eins og segir í Dalalífi. „Það eru fögur fyrirheit, en það eru fáir sem geta sannað þá alsælu“ (bls. 618). Hvernig hefði hún skrifað um dalinn ef leiðin hefði legið til Ameríku?
Þau Guðrún og Jón giftu sig 11. apríl 1910 og mánuði síðar, 11. maí, fæddist sonurinn Hilmar Angantýr. Jón var þægilegur í viðmóti en gat verið ör í skapi og voru þau Guðrún því miklar andstæður, hún hæglát og feimin og hafði sig lítt í frammi en Jón þekktur hagyrðingur.[16] Þau eignuðust tvö börn auk Hilmars Angantýs, Freystein og Marín.
Fyrstu búskaparárin voru þau í húsmennsku í Bólstaðarhlíð og Þverárdal og á þeirri jörð hefja þau síðan búskap á þriðjungi jarðarinnar en flytja síðan að Valabjörgum í Skörðum. „Það var nú harðbýliskot, en þetta gekk samt einhvern veginn. [...] Það þætti alveg ólifandi núna, það er ég viss um. Maður hafði til hnífs og skeiðar, en ekkert þar fram yfir. En svo þegar við komum út á Skaga, þá voru nú börnin farin að stækka, og þá fór okkur að líða betur.“[17] Á Skaganum virðast Guðrún og Jón una hag sínum betur í nábýli við systkini Guðrúnar og gjöfulan sjó en flytja til Sauðárkróks 1939. Þegar þau rifja upp búskaparárin í sveitinni segir Jón: „Víst leið okkur oft vel í sveitinni. En það er satt, að þú hafðir það oft of erfitt, þegar ég var í burtu tímum saman við smíðar, og þú varst ein heima með börnin og sást um búskapinn.“[18]
Þriðji og fjórði áratugurinn voru ár húsmóðurstarfa hjá Guðrúnu en einnig æfinga í skrifum. Hún stelur sér stund og stund þegar börnin eru sofnuð eða þegar hún er að elda. Þá punktar hún niður og mótar persónur sínar sem voru daglega með henni við störfin en gerir sér þó engar grillur um annað en að standa sig sem húsmóðir. Kvennabaráttan á þessum tíma snerist um að bæta kjör húsmæðra og Guðrún gerir sitt besta til að helga sig hlutverkinu sem henni var ætlað við giftingu.[19] „Það var um líkt leyti, að ég tók mestallt handritadraslið og brenndi það,“ segir hún. „Líklega hef ég rennt grun í, að framtíðin myndi krefjast einhvers annars af mér en að sitja við skriftir.“[20] Marín Jónsdóttir, dóttir Guðrúnar, hefur sagt frá því að móðir sín hafi þrátt fyrir miklar annir tekið sér klukkutíma á dag í að skrifa. Oftast var þetta á meðan hún eldaði miðdagsmatinn sem svo var kallaður og á hún þá að hafa brugðið sér frá pottunum og inn í búr þar sem hún stóð og skrifaði við lítið borð. Var henni illa við að heimilisfólk eða gestir trufluðu hana á þessum dýrmætu og mikilvægu stundum.[21] Hún hélt skrifunum leyndum en Sigþrúður Friðriksdóttir frá Valadal, næsta bæ við Valabjörg, minntist þess að á heimili Guðrúnar hefði allur umbúðapappír og hvert bréfsnifsi sem fyrirfannst verið útskrifað og að þetta hafi Guðrún haft hjá sér í kringum pottana. Sigþrúður var fengin, 16 ára, til að vera hjá Guðrúnu þegar hún átti von á sínu þriðja barni.[22]
Guðrún skrifaði þegar færi gafst og árið 1946, þegar hún 59 ára, gaf hún út sína fyrstu bók. Handritið að fyrstu tveimur bindunum af Dalalífi hafði þá flakkað á milli nokkurra útgefenda í þrjú til fjögur ár. Enginn þekkti höfundinn og íbúar Sauðárkróks vissu ekki einu sinni að hægláta konan á Freyjugötunni sæti við skriftir. Kannski hafði hugsunin um að gefa Dalalíf út lifað með henni lengi en hún vildi ekki viðurkenna neitt slíkt. Bróðursonur hennar, sem stundaði viðskipti í Reykjavík, fékk leyfi til að fara með handritið til Reykjavíkur enda taldi hann frænku sína eiga ágæta möguleika en sjálf var hún óviss: „Ég er svo einurðarlaus sem mest getur verið svo mér hefði aldrei dottið þetta í hug ef hann frændi minn hann Sigurður Magnússon heildsali hefði ekki farið að rekast í þessu. Hann jarmaði við karlana.“[23]
Á þessum árum keyptu stærri prentsmiðjur handrit auk útgefenda og þannig var það í tilfelli Guðrúnar, Gunnar Einarsson, prentsmiðjustjóri Ísafoldarprentsmiðju, keypti handritið. Hann eignaðist síðan prentsmiðjuna Leiftur árið 1955 og vilja margir meina að það veldi hafi aðallega verið byggt á bókum Guðrúnar frá Lundi.[24] Flökkusagan segir reyndar að tilviljun ein hafi ráðið því að handritið að Dalalífi fékk athygli og hljóðar svo: Einn daginn var setjari Gunnars í Leiftri verklaus og Gunnar á þá að hafa hent í hann ólesnu handriti eftir „einhverja kerlingu að norðan“. Setjarinn skemmti sér svo við verkið að Gunnar mun hafa lesið settan textann og drifið í prent. En Guðrún segir söguna með þessum orðum: „... þeim leizt víst ekkert sérlega vel á þetta handrit, eftir ómenntaða og óþekkta sveitakonu.“[25] Loks bauð Gunnar í Ísafold henni 2600 krónur fyrir handritið og hún varð fegin þó að upphæðin væri ekki há. Bókin myndi þá koma út og var það henni mikils virði.[26] Ekkert bólaði þó á bókinni fyrr en Afdalabarn, stutt skáldsaga sem Guðrún átti, tók að birtast sem framhaldssaga í Nýju kvennablaði. Afdalabarn naut mikilla vinsælda og stuttu seinna var fyrsta bindi Dalalífs auglýst. Á bókarkápu kom fram að höfundur væri kona norðan úr Skagafirði. Bókina prýddi rómantísk mynd af torfbæ í fögrum fjalladal og fyrir miðju voru karl og kona á hestbaki. Nokkrum dögum eftir að bókin kom norður var Jóni óskað til hamingju með konuna en kom af fjöllum og varð víst heldur súr út í konu sína fyrir að hafa ekki látið sig vita.
Bókin rauk út og bindanna fjögurra sem á eftir komu var beðið með eftirvæntingu fyrir hver jól. Fyrstu fjögur bindi Dalalífs komu út á fjórum árum, 1946-1949. Afdalabarn kom út í bók árið 1950 en margir vildu fá að vita meira um fólkið í Hrútadal og því kom fimmta bindi Dalalífs út 1951. Haft er eftir Marín, dóttur Guðrúnar, að framhaldið hafi fyrst og fremst verið skrifað fyrir fatlaða telpu á Króknum sem var heimagangur á heimili Guðrúnar að Freyjugötu 5. Fleiri urðu þó til að hvetja til framhaldsins og í Vikunni birtist eftirfarandi póstur: „Kæra Vika! Eftirfarandi stöku ætla ég að biðja þig að gera svo vel að birta, vegna mín og margra annarra, sem lesið hafa skáldsöguna „Dalalíf“ og er stíluð til höfundar hennar:
Dalalíf fékk dögum breytt,
drunga feykt úr lyndi.
Öll við þráum yfirleitt
ákaft fimmta bindi.“[27]
Þegar fimmta bindið kom út var þar komin lengsta skáldsaga sem þá hafði komið út eftir íslenskan höfund.
Flestir héldu að Guðrún frá Lundi væri skáldanafn og að höfundur hlyti að vera vel menntuð kona. Annað kom á daginn og áttu margir erfitt með að kyngja því síðar meir að höfundur væri „bara“ roskin sveitakona og að nafnið Guðrún frá Lundi væri ekki einu sinni skáldanafn. Fyrstu ritdómarnir sem Guðrún fékk voru vinsamlegir og birtu það sem lengi vel endurómaði í umfjöllun um bækur hennar. Gagnrýnendur sögðu söguna góða en of langa, rætt var um breiða þjóðlífslýsingu, heimildagildi og raunsannar myndir af lífi í sveit. Flestir hældu frásagnargáfu höfundar og skemmtilegri persónusköpun. Þegar þessir fyrstu dómar eru skoðaðir er eins og menn viti ekki alveg hvað þeir eigi að þora að ganga langt í hrifningu sinni. Kristmann Guðmundsson skrifar árið 1949: „Þetta er þjóðlífssaga, – en af allra bestu og skírustu tegund, sem nálgast hinn mikla skáldskap svo, að oft eru mörkin lítt greinanleg.“[28] Tengdadóttirin, þriggja binda skáldsaga, naut álíka vinsælda og Dalalíf. Verkið kom út á árunum 1952–1954 og var auglýst svo; „Enginn íslenzkur rithöfundur hefur á síðari árum vakið aðra eins athygli og Guðrún frá Lundi. [...] Guðrún segir frá lífi alþýðunnar blátt áfram og kenjalaust. Frásögn hennar er eins og uppsprettulind, og líf þjóðarinnar streymir fram eins og elfa.“[29] Já, fyrstu bækurnar voru fádæma vinsælar og í Útvarpstíðindum árið 1952 birtist eftirfarandi frásögn: „Í fyrra vetur lá kona á áttræðisaldri í sjúkrahúsi í Reykjavík. Hún var södd lífdaga en þó glaðleg í tali og sagði að enginn væri ofgóður að lifa eins lengi og skaparanum þóknaðist. Hún hafði fengið slag fyrir nokkrum árum „og er nú komin hingað til að lognast út af. [...] En þess hef ég beðið blessaðan lækninn minn, að reyna að lofa mér að lifa þar til einhver hefur tíma til að lesa fyrir mig síðustu bókina hennar Guðrúnar frá Lundi. Hún heitir Afdalabarn.““[30]
Þegar tólfta bókin, Ölduföll, kemur út árið 1957 og Guðrún hefur notið fádæma vinsælda í rúman áratug fer tónn ritdóma að breytast. Bjarni Benediktsson skrifar: „Það er ekki bókmenntir, þessi ósköp, heldur ein ógurleg munnræpa frá upphafi til enda. [...] Kannski ómaksins vert að biðja guð að hjálpa þeim lýði, er hefur kjörið sér höfund Öldufalla bókmenntalega leiðarstjörnu.“[31] „Lýðurinn“ les þó áfram verk Guðrúnar af áfergju og Gunnar Einarsson útgefandi er ánægður og auglýsir bækur hennar vel. Kynnir jafnvel til leiks aðra höfunda með stimplinum söluvinsæla: „Hér er á ferðinni svo skemmtileg saga, að hún er líkleg til að ná sömu vinsældum og sögur Guðrúnar frá Lundi.“[32] Guðrún er orðin landsfræg og sveitin hennar einnig. Hún segist hverfa inn í annan heim til að kalla fram sögusvið sitt og atburði, hún sé þá hjá þessu fólki sem hún skrifar um. Hún fjallar um það líf sem hún þekkir og setur í skáldlegan búning og þótt sveitin sé heillandi er ekki hægt að tala um fortíðarþrá því gallar sveitalífsins, strit og stéttskipting eru áberandi. Þegar Guðrún er spurð um hvað sögurnar snúist segir hún: „Þær segja frá lífinu eins og það var og eins og ég sá það renna fram. Bílar og flugvélar koma lítið við sögu hjá mér, atburðirnir eru margir hverjir ekki stórir, nema fyrir þá sem lifa þá. En fyrir þeirra sjónum eru þeir mikilvægir og skipta sköpum.“[33]
Það eru þó án efa ástríðurnar og draumarnir sem lesandinn samsamar sig við og sem ná tökum á honum. En eru þetta ástarsögur? Vissulega er fjallað um ástina en ekki á einfaldan og lausnamiðaðan hátt. Allt hömluleysi í ástum var ógn við friðinn. Jafnvægið sem ráðandi öfl samfélagsins leggja allt kapp á að haldist kostar miklar fórnir fyrir þá sem lægra eru settir. Þannig er fjallað um misskiptingu gæða, kjör vinnufólks og eilífar yfirhylmingar. Oft er minnt á að boðlegt hátterni er ekki það sama fyrir karla og konur, fátæka og ríka. Áhersla er á líf kvenna. Það eru örlög þeirra við fæðingu en ekki síst hjúskap sem eru þungamiðjan, konurnar þrá öryggi og betri stéttarstöðu. Fléttan snýst oftar en ekki um tilfinningar, breyskleika og von eftir betra lífi en einnig mikilvæga sátt við hlutskipti sitt.
Með innlifaðri frásagnartækni og persónusköpun tekst Guðrúnu að láta atburði bókanna skipta lesandann öllu máli. Við erum spennt því oftast vitum við eitthvað sem persónurnar vita ekki sjálfar og bíðum því í ofvæni eftir að upp komist t.a.m. um rangt faðerni, framhjáhald, drykkjuskap eða launbörn. Lesandinn veit þetta allt en les áfram spenntur að sjá hvernig persónum verður við, hvernig samfélagið bregst við. Sögumenn Guðrúnar eru alvitrir en skammta okkur vitneskju og skipt er reglulega um sjónarhorn í verkunum með því að flakka á milli bæja. Það er í raun búið að skrifa kvikmyndahandritið enda eitt meginhöfundareinkenni Guðrúnar að láta sögurnar og persónurnar lifna við með samtölum.
Á útgáfutíma flestra skáldsagna Guðrúnar á 6., 7. og 8. áratug síðustu aldar áttu sér stað miklar breytingar á íslensku þjóðfélagi. Borgarsamfélag var að taka á sig mynd en þó var Reykjavík enn einhverskonar blanda af sveit og borg, með óljós mörk á milli. Margir vilja meina að Guðrún hafi komið inn á markaðinn einmitt þegar lesendur vildu halda í gömlu sveitina. Sú saknaðarþrá sveitamanna í borginni nægir þó ekki til að skýra vinsældir Guðrúnar og síst nú síðustu árin þegar Dalalíf hefur til dæmis verið gefið út í fjórða sinn. Sagan sjálf og töfrar hennar voru aðdráttaraflið.
Þegar Dalalíf var endurútgefið í fyrsta sinn árið 1982 skrifaði Jóhanna Kristjónsdóttir blaðamaður: „Það var snertur af menningarsjokki sem hluti þjóðarinnar fékk á hverju ári, þegar í ljós kom að enn var Guðrún frá Lundi mest lesni höfundurinn – á undan sjálfu nóbelsskáldinu, að ekki væri talað um minni spámenn.“[34] Þessi mikli lestur á löngum sveitasögum þar sem ekkert gerðist í stílnum þótti bera vott um slakt menningarlæsi þjóðarinnar og varð til þess að lesendur Guðrúnar fóru sumir í felur með lesturinn. Staglast var á því að bækurnar væru léttmeti og þegar hæst lét kom upp nýtt flokkunarheiti sem átti að ná utan um margar vinsælar bækur eftir konur. Hér er um að ræða hugtakið „kerlingabækur“ sem brátt varð á hvers manns vörum. Guðrún varð sökum vinsælda höfuðskáldið í þessum flokki en á sama tíma gáfu margar aðrar konur út bækur sem nutu vinsælda.[35] Hugtakið kerlingabækur var rakið til Lesbókargreinar sem Sigurður A. Magnússon skrifaði árið 1964 undir heitinu „Engu að kvíða – kellingar bjarga þessu“. Sigurður var ungur og metnaðarfullur maður og fyrsti bókmenntafræðingurinn sem ræðst til dagblaða á Íslandi til þess að skrifa um bækur og aðra menningu. Hann lítur yfir sviðið og líst illa á. Greinin fjallar að mestu um ljóðskáldin ungu sem honum finnst fá alltof litla athygli en segir svo í niðurlagi: „Annars skilst mér, að góðborgarar Íslands þurfi ekki að hafa þungar áhyggjur af föndri ungu ljóðskáldanna eða framtíð íslenzkra bókmennta: þær eru nú að verulegu leyti í höndum einna 8 eða 10 kellinga, sem fæstar eru sendibréfsfærar á íslenzku. Bækur þeirra seljast eins og heitar lummur, en við ungu ljóðskáldunum lítur þjóðin varla. Svo þetta er allt í sómanum, góðir hálsar!“[36]
Flestum fannst þetta fyndið og það liðu fjórtán ár þar til Sigurður sagði að hugtakið ætti alveg eins við um bækur karla og vísaði til vondra bókmennta en hefði ekki verið hugsað sem niðrandi um allar kvennabókmenntir. Halldór Laxness blandaði sér í umræðuna, varði skáldkonur landsins og sagði þær ritfærari en margan og tilheyra svokölluðum ævintýrakellingum sem lengi hefðu lifað með þjóðinni. Hann sagði Guðrúnu reyndar vera Jónsdóttur og virtist því ekki þekkja vel til en hrósaði almenningi fyrir að lesa bækur sem tilheyrðu þjóðlegri sagnahefð og virtist að því leyti sammála hinum körlunum um að ekki væri um alvöru fagurbókmenntir að ræða. Halldór er líka upptekinn af því að bókmenntir kvennanna tilheyri íslenskri alþýðuhefð, að kvenrithöfundarnir séu frekar varðveitendur en skapandi höfundar: Þarna séu „þær gömlu góðu kellíngar endurrisnar í nýju landi, gerbreyttu þjóðfélagi, öðrum heimi.“[37] Viðhorfið sem þarna sést litaði umfjöllun um kvennabókmenntir og birti þá skoðun að „kerlingar“ og góður skáldskapur ættu ekki saman. Helga Kress prófessor útskýrir þetta vel í grein sinni „Bækur og „kellingabækur““. Hún segir að umræðan hafi birt opinskárri andstöðu við bókmenntir kvenna en áður og í blaðaskrifum mátti lesa á milli lína að fráleitt væri og nokkuð fyndið að vera bæði rithöfundur og kona.[38]
Þegar Guðrún var spurð hvað henni fyndist um að tróna efst á blaði hjá þeim sem tala um kerlingabókmenntir sagði hún: „Ojá. Og kaffibollaþvaður hefur líka heyrzt og sézt, þó með þeirri viðbót, að það væri nú gaman, þegar ómenntuð kona legði slíkan bókastafla á borð með sér!“[39] Hún veit með öðrum orðum vel af umræðunni en er einnig stolt af því mótvægi sem vinsældir og sölumet leggja henni til. Í sama viðtali segist hún „hvergi“ staðsetja sig í íslenskum bókmenntum og undirstrikar þar enn og aftur að hún eigi ekki heima innan þess flokkunarkerfis. Hún valdi að horfa fram hjá neikvæðri umræðu eða látast ekki taka eftir henni: „Ég vil þakka öllum sem skrifað hafa vel um bækurnar mínar. [...] Og í raun öllum sem hafa lagt mér til gott orð, þeir eru ósköp fáir sem talað hafa eða skrifað illa um bækurnar mínar, að minnsta kosti opinberlega.“[40] Svo gæti virst sem umræðan um bækurnar hefði lítið snert skáldkonuna en þó má sjá í tilsvörum hennar höfund sem stillir sér og verkum sínum fram sem andstæðu merkra bóka sem hægt er að skrifa um „hólklausur“.[41] Hún virðist með öðrum orðum aldrei alveg jafna sig á umræðunni og afsakar ritstörf sín þrátt fyrir miklar vinsældir og lof lesenda. Þegar hún hefur ekki orð á að hún skrifi fyrir sjálfa sig segist hún skrifa af gömlum vana.
Sagan hefur nú, áratugum síðar, metið kellingabókaþátt Sigurðar A. Magnússonar sem skref í baráttu kvenna til að komast inn á markaðinn. Dagný Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur hefur bent á að með því að taka umræðuna upp á yfirborðið hafi hún í raun dáið. Kerlingabókaumræðan varð svo yfirgengileg að hún opnaði ungum kvenkyns höfundum leið.[42]
Þeir sem harðast töluðu gegn bókum Guðrúnar litu svo á að í breyttum heimi eftirstríðsáranna væri út í hött að rita og gefa út sögur um ástir og örlög í gamla sveitasamfélaginu, þar sem þess utan ekkert gerðist í stílnum. Þær kröfur voru gerðar til þjóðfélagslegu skáldsögunnar að hún gerði tilraun til að túlka söguna í nútíð og fortíð og best var ef hún bæri með sér uppbyggilega afstöðu án þess þó að pólitískrar eða samfélagslegrar predikunar gætti um of. Eins þótti knappt form bera vott um listrænan aga og Sigurður Nordal talaði um orðfátt, hófsamt og karlmannlegt sögumál.[43] Bækur Guðrúnar áttu fátt sameiginlegt með þessari forskrift, texti hennar flæddi óheftur fram og án allrar meitlunar og yfirlegu. Óritskoðuð alþýðukonan hafði eitthvað að bjóða fólkinu og það þótti sumum merki um að bókmenntasmekk þjóðarinnar hefði hrakað.
Þetta misræmi hrindir af stað einkennilegum kafla íslenskrar bókmenntasögu. Landsmenn þekktu höfundarnafnið og Guðrún frá Lundi varð þekkt fyrir langar sveitalífssögur og að teygja lopann. Í fórum sjónvarpsins er myndefni frá 8. áratugnum þar sem fólk er spurt hvers dóttir Guðrún frá Lundi sé og vissu fáir. Einn viðmælandinn taldi þó rétt að taka fram að hann hefði ekkert lesið eftir kerlinguna og annar rifjar upp sögu af því þegar Steinn Steinarr lá á spítala og óttaðist að hafa fengið blóð úr Guðrúnu frá Lundi því hann hafi gripið svo sterk löngun í að skrifa mikið. Það var ekki í tísku að lesa Guðrúnu og þeir sem stýrðu menningarumræðunni fáruðust yfir því að þjóðin nærðist á léttmeti. Lengd sagnanna þótti bera vott um agaleysi í hugsun og stíl, gott ef ekki kvenlegt hömluleysi. Kaffiþamb þótti mikill löstur á verkum Guðrúnar og glensið var að þetta væri kaffidrykkja út í eitt. Kaffi kemur víða við sögu, kaffi var borið á borð þegar gesti bar að garði, gesturinn sagði oft nauðsynlegar fréttir fyrir framvindu sagnanna og því fara samtöl mjög oft fram við kaffidrykkju. Það ber þó að hafa í huga að kaffi var á þessum tíma munaðarvara og því ekki bruðlað með það.
Eftir því sem bókunum fjölgar verða menn uppteknari af því hvort Guðrún ætli ekki að fara að hætta að skrifa, hvort ekki sé komið nóg. Fyrirsögn eins og „Enn bók frá Guðrúnu“ lýsir þessu ágætlega. Vinsældirnar haldast en gagnrýnin harðnar með hverri bók. Guðrún lýsir yfir í viðtali árið 1967 að hún sé að hætta að skrifa, það er eins og henni hafi fundist hún þurfa að lýsa þessu yfir, kannski til að gleðja blaðamanninn. Hún skrifar þó fimm bækur eftir það. Hún hefur að vísu áhyggjur af því að sögurnar séu að verða áþekkar og gerir sér vel grein fyrir því að yfirlestur hefði hjálpað. Hún virðist einhvern veginn gangast inn á kall markaðarins og útgefandans og sendir á færibandi frá sér hverja bókina af annarri. Sjálf hefði hún viljað komast í samband við „þá fróðu menn um bækur“ sem hefðu getað leiðbeint „með góðum ráðum og hæfilegum aðfinnslum“.[44] En hún er orðin nokkurs konar bókamaskína, staðsett á Sauðárkróki, og menn eru sendir eftir handritum norður ef Guðrún er ekki fyrri til að senda þau suður, stundum í pörtum. Hún segist í einu bréfi muna hvar hún endaði og óþarfi sé að senda sér þráðinn en í öðru biður hún um að sér sé sent aftasta blaðið úr handritinu.[45] Asinn er oft mikill: „Í sumar átti ég eftir töluvert, en maðurinn lét hvorki laust né fast. Hann fór með það sem til var og ég sendi sögulokin á eftir.“[46] Guðrún sendir með öðrum orðum frá sér handrit að bók á hverju ári utan einu í nær þrjá áratugi. Nöfn verkanna eru sum hver sérkennileg og eiga fátt sameiginlegt með efni þeirra eins og Hvikul er konuást. Hún leggur til nöfn en þeim er oft breytt af útgefanda og virðist það vera samkomulag þeirra á milli. Hún skrifar til hans: „Það má víst með sanni segja að krógarnir sjeu orðnir fullmargir þegar framleiðendurnir eru í vandræðum með nöfnin á þau.“[47]
Það tekur Guðrúnu langan tíma að fara að líta á sig sem rithöfund og kannski gerir hún það aldrei. Þegar hún er spurð hvort hana hafi aldrei langað að hitta aðra rithöfunda í Reykjavík er svarið: „Nei, ónei. Ég hefði víst orðið lítil við hliðina á þeim.“[48] Hún telur sig ekki eiga tilkall til rithöfundartitils og erum við þar komin að hinni heilögu þrenningu af óskrifuðum reglum sem hún brýtur; hún er ómenntuð en skrifar samt, hún er kona en skrifar samt og hún fjallar um það líf sem er liðið og gamalt og nýtur samt hylli fjöldans. Þess utan er hún eldri kona þegar hún birtist þjóðinni, svipmikil en feimin á peysufötunum. Sjálf talar hún um að útgefandinn hafi miskunnað sig yfir hana og undirstrikar að skrifin séu ekki merkileg. Hún segir að nú sé komið nóg af þessu rugli. „Ekki rugl? Jú, víst er þetta hugmyndarugl.“[49] Minnimáttarkennd sökum menntunarleysis eða skorts á formlegri menntun er víða sýnileg og þegar ritstjóri tímaritsins Heima er bezt falast eftir sögu hjá henni í blaðið skrifar hún: „En hrædd er jeg um að mitt hugarsmíði yrði fátæklegt við hlið þess sem þessir hámenntuðu menn skrifa í það. Samt skal jeg reyna að senda yður sögu fyrir áramót ef þjer treystið mönnum yðar að komast fram út því.“[50] Hún er alla tíð hlédræg og ekki alveg viss um að hún sé rétta manneskjan í þetta umstang og vinsældir: „En ég skil ekkert í að ég skyldi nokkurn tíma leggja í að gefa út bók, mér finnst hver ný bók, sem ég skrifa sú lakasta. Ég veit ekki hvort það er rétt hjá mér, en ég hef ekki meira sjálfsálit en svo.“[51] Í bréfum til forleggjarans er hún alltaf að afsaka skrif sín og réttritun. Hún er líka hrædd um að skriftin sé ómöguleg: „Ég er hálfkvíðin yfir því að frændi úr Fljótunum komist ekki framúr handritinu.“[52]
Árið 1958 höfðu skýrslur frá bókafulltrúa fræðslumálaskrifstofunnar um starfsemi almenningsbókasafna lengi birt tölur þar sem fram kom að Guðrún var langmest lesni höfundurinn um allt land. Það ár var röðin þessi: Guðrún, Laxness, Ragnheiður Jónsdóttir, Stefán Jónsson og Guðmundur Hagalín. Rúmum áratug síðar, árið 1970, var gerður út könnunarleiðangur á vegum Rithöfundasjóðs Íslands til að ganga úr skugga um hverjir ættu höfundarrétt að bókum, en sjóðurinn átti þá að hefja greiðslur til þeirra eftir bókaeign og útláni á bókasöfnum. 1480 höfundar áttu rétt á greiðslum skv. talningu á þessum tíma og „... metið af öllum átti Guðrún frá Lundi og Hagalín fylgir fast í kjölfarið.“[53] Í tvo áratugi, 1950–1970, var Guðrún efst í sölutölum og útlánum og í því ljósi er umræðan um úthlutanir úr Rithöfundasjóði Íslands fróðleg. Indriði G. Þorsteinsson bendir á að skáldsystir sín beri auman hlut frá borði í blaðagreininni „Peningar Guðrúnar frá Lundi“ og ofbýður þar að stjórn hins nýstofnaða sjóðs skyldi ákveða hvaða sérvöldu rithöfundar fengju úthlutað af þeim fjármunum sem allir rithöfundar ættu með réttu. Indriði segir í greininni að fámennur fundur rithöfundasamtakanna hafi með reglum og málaflækjum ákveðið að „kokka með“ peninga Guðrúnar og annarra höfunda sem lánaðir væru út í þúsundum eintaka. Það væru hennar peningar sem stæðu undir viðurkenningum sjóðsins. „Kannski hefur einhverjum í hópi forystumanna rithöfundasamtakanna ekki þótt nógu menningarlegt að láta féð renna beint til rithöfundanna samkvæmt útlánaskrá, og haft þá til hliðsjónar þann hundingjadóm, sem kallar eitt viðurkennda list en annað utangarðs.“[54] Fjórum árum eftir birtingu greinarinnar fær Guðrún úthlutað úr sjóðnum og þá segir Indriði sem einnig hlaut styrk: „Nú sláum við skjaldborg um Guðrúnu.“[55] Nokkru fyrr, árið 1969, orti Vilmundur Jónsson landlæknir beitta vísu við mynd sem birtist af rithöfundunum Hannesi Péturssyni, Guðmundi Hagalín, Þórbergi Þórðarsyni og Thor Vilhjálmssyni í Morgunblaðinu þar sem þeir skáluðu í kampavíni eftir að hafa fengið úthlutað styrkjum úr rithöfundasjóði.
Vengir, heiðraðir, verðlaunaðir
vígðir á helgum fundi,
skálum bræður og bergjum glaðir
blóð úr Guðrúnu frá Lundi.
Bjarni úrsmiður á Akureyri orti eftirfarandi vísu við sama tækifæri:
Listamenn sem lítið fá
laun af sínu pundi
græða eins og greifar á
Guðrúnu frá Lundi.
Guðrún er spurð hvort hún telji ekki að hún sé harla vel að þessari viðurkenningu komin og svarar hógværlega: „Kannski við megum segja það [...] En það er nú matsatriði. En mér þykir vænt um þessa viðurkenningu. Kannski hefði verið skemmtilegra að fá hana fyrr, þá hefði ég getað farið á flakk, nú er heilsan farin langleiðina og ég er ekki til stórræðanna.“[56]
Lokaorð
Guðrún sprettur upp úr menningu sem gerir ráð fyrir að hún sé til hliðar. Sjálf virðist hún ekki gera hávært tikall til annars, en hún gerir sér vel grein fyrir óréttlætinu og segir í viðtali: „Mér virðist þeir yfirleitt heldur lítið hrifnir af okkur konunum. En ég held nú að það séu góðir kaflar í okkar bókum ekki síður en karlanna.“[57] Þegar líða tekur á ritferil Guðrúnar og komið er fram undir 1970 eru menn farnir að bera virðingu fyrir eljusemi og vinsældum gömlu konunnar en sjálfri leiðist henni athyglin: „En um mig sjálfa er ekkert að segja. Jeg hef alla ævi verið fátæk kona sem samferðafólkið hefur veitt heldur litla athygli fyrr en nú síðustu árin að sífelt er verið að skrifa um mig einhverja markleysu.“[58]
Guðrún varð um skeið fyrir harðri gagnrýni þar sem vinsældir hennar þóttu spaugilegar og bera vott um vondan bókmenntasmekk. Henni er haldið utan hringsins og þess vegna samsamar hún sig ekki með rithöfundastéttinni. Saga Guðrúnar Árnadóttur er öðrum þræði hversdagsleg saga skagfirskrar húsmóður en einnig saga rithöfundar sem náði að verða metsöluhöfundur í tvo áratugi þótt hún væri komin um sextugt þegar fyrsta bókin kom út. Og þetta þvældist fyrir mönnum. Hvað gat tákngervingur gömlu sveitarinnar haft að bjóða nútímafólki? Voru ekki hættumerkin ljós þegar fólkið kokgleypti við „léttmeti“ sem rann fram stjórnlaust? Þetta er líka saga mikils valdaójafnvægis þar sem annars vegar er roskin kona sem hefur enga formlega menntun og tilheyrir í raun 19. öldinni hvað varðar viðfangsefni og stíl og hins vegar menntuð orðræða bókmenntamanna sem vildu skilja sig sem mest frá gamla Íslandi, gömlu sveitinni, samsama sig nýju borgarsamfélagi og horfa til framtíðar. Sigurganga Guðrúnar var álitin tímaskekkja í bókmenntum og verkefnið var að koma lesendum hennar í skilning um þá staðreynd. Samt siglir Guðrún fram úr öðrum rithöfundum í vinsældum og nær að hrífa þjóðina með sér aftur á bak í gömlu sveitina. Þegar staða Guðrúnar í bókmenntum er skoðuð er nauðsynlegt að líta til þess hvaðan umræðunni var stjórnað, hver var að túlka og undir hvaða himni. Menn vildu að menningin göfgaði samfélagið og hin sterka mýta um Íslendinga sem bókaþjóð kemur hér líka við sögu. Menn vildu sjá erlend áhrif og tilþrif í stíl og ekki mátti fréttast að Íslendingar væru svona lítilþægir og gamaldags. Sjálf segir Guðrún þegar hún er innt eftir því hvað henni finnist um nýju höfundana sem henni finnast misgóðir: „En hvað er að tala um það, hvað kerling eins og ég hugsa? Ekki stendur heimurinn kyrr.“[59] Hún fær alls konar viðbrögð við verkum sínum og því ekki að undra þótt hún segi að það sé matsatriði hvort hún sé vel að höfundarlaunum úr Rithöfundasjóði komin þó nokkurrar kaldhæðni gæti einnig í orðunum. Guðrún gerir í viðtölum heldur lítið úr verkum sínum og stærir sig aldrei af afrekum og vinsældum. Þrátt fyrir rólyndislega orðræðu á yfirborðinu hefur Guðrún verið viðkvæm fyrir dómum heimsins eins og flestir. „Ég hugsaði mér strax, að ef mínar bækur yrðu tættar sundur, þá myndi ég hætta þessu pári um leið. En fyrsta bókin reyndist nú metsölubók og lesandinn hefur alltaf tekið mér vel, þótt ég hafi aldrei hugsað beinlínis til hans við skriftirnar.“[60]
Hver svo sem skoðun manna er á ritsnilli Guðrúnar er ljóst að ef aðstæður hennar eru skoðaðar þolir hún vel samanburðinn við stóru rithöfundana sem henni sjálfri virtist standa svo mikill stuggur af. Staða Guðrúnar í bókmenntaheiminum í dag er forvitnileg. Sú skoðun virðist almennt ríkja að snilli Guðrúnar sem sagnaskálds sé mikil og sú staðreynd að bækur hennar ná enn vinsældum sé næg ástæða til að gefa henni gaum sem einum af okkar mestu rithöfundum.
Marín Guðrún Hrafnsdóttir
Ítarefni:
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=67010
https://www.skald.is/product-page/gu%C3%B0r%C3%BAn-fr%C3%A1-lundi
https://www.youtube.com/watch?v=MQaCsoU4BOc
https://www.facebook.com/Gu%C3%B0r%C3%BAn-fr%C3%A1-Lundi-271313093077345
[1] f.j. [Freysteinn Jóhannsson]: „„Kerling eins og ég má ekki skrifa svona mikið.“ Afmælisrabb við Guðrúnu frá Lundi,“ Morgunblaðið, 3. júní 1972, bls. 10.
[2] Guðbergur Bergsson: „Andlegt líf: Sigurganga Guðrúnar frá Lundi.“ Fréttablaðið, 12. júní 2004, bls. 16.
[3] f.j. [Freysteinn Jóhannsson]: „„Kerling eins og ég má ekki skrifa svona mikið.“ Afmælisrabb við Guðrúnu frá Lundi,“ Morgunblaðið, 3. júní 1972, bls. 10.
[4] Guðbergur Bergsson: „Andlegt líf: Sigurganga Guðrúnar frá Lundi.“ Fréttablaðið, 12. júní 2004, bls. 16.
[5] Hallgrímur Helgason: „Kona fer undir vatn.“ Tímarit Máls og menningar, 73. árg., 1. hefti (febrúar 2012), bls. 51.
[6] Sr. Pétur Þ. Ingjaldsson: „Mannalát 1983,“ Húnavaka, 24. árg., 1. tbl. (1984), bls. 173.
[7] Skagfirskar æviskrár, tímabilið 1910–1950, II. bindi, bls. 187.
[8] Sr. Helgi Konráðsson: „Kunningjar hennar úr væntanlegum skáldsögum voru henni til skemmtunar við heimilisstörfin. Guðrún frá Lundi segir frá ævi sinni og ritstörfum.“ Morgunblaðið, 24. desember 1952, bls. 7.
[9] Sama heimild, bls. 7.
[10] Caroline Gunnarsson: „Skemmtileg dagstund hjá skáldkonunni frá Lundi,“ Lögberg-Heimskringla, 24. febrúar 1972, bls. 5.
[11] Dagur Þorleifsson: „Dalurinn minn í stækkaðri mynd,“ Vikan, 15. júní 1972, bls. 26.
[12]Sr. Helgi Konráðsson: „Guðrún frá Lundi“. Áhugamál kvenna. Lögberg 30. október 1958, bls. 5
[13] Caroline Gunnarsson: „Skemmtileg dagstund hjá skáldkonunni frá Lundi,“ Lögberg-Heimskringla, 24. febrúar 1972, bls. 5.
[14] Sr. Helgi Konráðsson. „Kunningjar hennar úr væntanlegum skáldsögum voru henni til skemmtunar við heimilisstörfin.“ Morgunblaðið, 24. desember 1952 (Jólablað III), bls. 7.
[15] Dagur Þorleifsson: „Dalurinn minn í stækkaðri mynd,“ Vikan, 15. júní 1972, bls. 26.
[16] Til eru nokkrar þekktar vísur eftir Jón og var hann eitt hirðskálda Brynjólfs bónda í Þverárdal sem vildi hafa vinnumenn sína hagmælta. ‘Nótt að beði sígur senn’ er landsfræg vísa, kveðin í Stafnsrétt í Svartárdal: Nótt að beði sígur senn / sofnar gleði á vörum. / Við skulum kveða eina enn / áður en héðan förum.
[17] Dagur Þorleifsson: „Dalurinn minn í stækkaðri mynd,“ Vikan, 15. júní 1972, bls. 26.
[18] Sr. Helgi Konráðsson. „Kunningjar hennar úr væntanlegum skáldsögum voru henni til skemmtunar við heimilisstörfin.“ Morgunblaðið, 24. desember 1952 (Jólablað III), bls. 7.
[19] Á þriðja og fjórða áratugnum fór fram mikil hugmyndabarátta um hvað það merkti að vera Íslendingur enda helstu mótunarár íslensks nútímasamfélags. Í bók sinni, Hinn sanni Íslendingur – þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900–1930 (Rvík 2004), bendir Sigríður Matthíasdóttir á að tekist var á um hvað væri þjóðlegt, hver væru gildi nútíðar og fortíðar, borgarmenningar og sveitamenningar en einnig var staða konunnar mörkuð innan veggja heimilanna. Niðurstaðan var sú að eðli kvenna ákvarðaðist af móðurhlutverkinu sem jafnframt gerði þær óhæfar til annarra verka en heimilisstarfa.
[20] Caroline Gunnarsson: „Skemmtileg dagstund hjá skáldkonunni frá Lundi,“ Lögberg-Heimskringla, 24. febrúar 1972, bls. 5.
[21] Marín Guðrún Hrafnsdóttir. Formáli Dalalífs, 3. útgáfa, Mál og menning, Rvík 2000.
[22] Munnleg heimild. Sigþrúður bjó á Gili í Svartárdal, næsta bæ við foreldra greinarhöfundar.
[23] Hólmfríður Gunnarsdóttir: „Myndir úr lífi dalafólksins,“ Lesbók Morgunblaðsins, 13. júlí 1975, bls. 13.
[24] Í umfjöllun um prentsmiðjuna Leiftur sem starfaði frá 1946–1978 er þáttur Guðrúnar þó hvergi nefndur en nöfn nokkurra þekktra rithöfunda getið, s.s. Kristmanns Guðmundssonar og Ólafs Jóhanns Sigurðssonar. www.prentsogusetur.is/prentsmidjan-leiftur-1946–1978 (sótt 19/1 2017).
[25] Sr. Helgi Konráðsson. „Kunningjar hennar úr væntanlegum skáldsögum voru henni til skemmtunar við heimilisstörfin.“ Morgunblaðið, 24. desember 1952 (Jólablað III), bls. 7.
[26] Erlendur Jónsson: „Bókmenntir. Skáldkona gömlu góðu dagana. Hundrað ár liði frá fæðingu Guðrúnar frá Lundi,“ Morgunblaðið, 3. júní 1987, bls. 18.
[27] „Pósturinn,“ Vikan, 26. janúar 1950, bls. 2.
[28] Kristmann Guðmundsson: „Bókmenntir. Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi,“ Morgunblaðið, 7. desember 1949, bls. 6.
[29] „Merkar bækur, Bókaverslun Ísafoldar“ (auglýsing), Morgunblaðið, 21. desember 1952 (blað II), bls. 6.
[30] [Dagný Kristjánsdóttir]: Íslensk bókmenntasaga IV, Rvík 2006, bls. 525.
[31] B.B. [Bjarni Benediktsson frá Hofteigi]: „Gangurinn í málskapsvélinni.“ Þjóðviljinn, 3. nóvember 1957, bls. 7.
[32] Skinfaxi, 29. árgangur 4. tbl. (1958), bls. 125: Bókin Kjördóttirin á Bjarnalækeftir Hafstein Sigurbjarnason auglýst.
[33] Erlingur Davíðsson: „Stutt heimsókn til Guðrúnar frá Lundi,“ Tíminn, 20. desember 1967 (jólablað II), bls. 2.
[34] Jóhanna Kristjónsdóttir: „Bókmenntir. Geisað og hneggjað hjá Guðrúnu,“ Morgunblaðið, 12. desember 1982, bls. 28.
[35]Fjölmargar konur voru taldar eiga heima í þessu mengi „kellingabóka“; Elínborg Lárusdóttir, Guðrún Jakobsen, Guðrún A. Jónsdóttir, Hildur Inga, Ingibjörg Jónsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Jakobína Sigurðardóttir, Magnea frá Kleifum, Ragnheiður Jónsdóttir, Una Árnadóttir, Þorbjörg Árnadóttir og Þórunn Elfa Magnúsdóttir.
[36] Sigurður A. Magnússon: „Rabb.“ Lesbók Morgunblaðsins, 22. nóvember 1964, bls. 5.
[37] Halldór Laxness: Íslendingaspjall, Rvík 1967, bls. 89.
[38] Helga Kress: „Bækur og „kellingabækur,“ Tímarit Máls og menningar, 39. árg., 4. hefit (desember 1978), bls. 369–395.
[39] f.j. [Freysteinn Jóhannsson]: „„Kerling eins og ég má ekki skrifa svona mikið.“ Afmælisrabb við Guðrúnu frá Lundi,“ Morgunblaðið, 3. júní 1972, bls. 10.
[40] Dagur Þorleifsson: „Dalurinn minn í stækkaðri mynd,“ Vikan, 15. júní 1972, bls. 26.
[41] Ó. Vald. [Ómar Vadimarsson]: „Vinnur að síðustu skáldsögu sinni: Viðtal við Guðrúnu frá Lundi, sem er 85 ára í dag,“ Tíminn, 3. júní 1972, bls. 5.
[42] [Dagný Kristjánsdóttir]: Íslensk bókmenntasaga IV, Rvík 2006, bls. 520–563.
43 Sigurður Nordal, „Samhengið í íslenzkum bókmenntum“, formáli að Íslenzkri lestrarbók 1400— 1900, Reykjavík: Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar, 1924, bls. bls. XXXI-XXXII.
[44] Erlingur Davíðsson: „Stutt heimsókn til Guðrúnar frá Lundi,“ Tíminn, 20. desember 1967 (jólablað II), bls. 2.
[45] Skjalasafn Skagafjarðar. Bréf Guðrúnar Árnadóttur til Sigurðar O. Björnssonar. 17. febrúar 1958.
[46] Erlingur Davíðsson: „Stutt heimsókn til Guðrúnar frá Lundi,“ Tíminn, 20. desember 1967 (jólablað II), bls. 2.
[47] Skjalasafn Skagafjarðar. Bréf Guðrúnar Árnadóttur til Gunnars Einarssonar, 20. september 1966.
[48] Hólmfríður Gunnarsdóttir: „Myndir úr lífi Dalafólksins.“ Lesbók Morgunblaðsins, 13. júlí 1975, bls. 14.
[49] S.J. [Sólveig Jónsdóttir]: „Það var svei mér gaman að vera í dalnum. Guðrún frá Lundi enn að skrifa 83 ára að aldri,“ Tíminn, 16. september 1970, bls. 6.
[50] Skjalasafn Skagafjarðar. Bréf Guðrúnar Árnadóttur til Sigurðar O. Björnssonar, Sauðárkróki, 17. nóvember 1957.
[51] S.J. [Sólveig Jónsdóttir]: „Það var svei mér gaman að vera í dalnum. Guðrún frá Lundi enn að skrifa 83 ára að aldri,“ Tíminn, 16. september 1970, bls. 6.
[52] Skjalasafn Skagafjarðar. Bréf Guðrúnar Árnadóttur til Gunnars Einarssonar, 7. september 1966.
[53] G.Þ.E. [Guðrún Þ. Egilsson]: „Guðrún frá Lundi á metið, Hagalín fylgir í kjölfarið. Rætt við Ása í Bæ um bókasöfn á Suður- og Vesturlandi,“ Þjóðviljinn, 18. október 1970, bls. 12.
[54] I.G.Þ. [Indriði G. Þorsteinsson]: „Peningar Guðrúnar frá Lundi,“ Tíminn, 6. október 1968, bls. 7.
[55] „6 höfundar fá styrk úr Rithöfundasjóði Íslands.“ Morgunblaðið, 17. júní 1972, bls. 8.
[56] Sama heimild.
[57] M. [Matthías Johannessen]: „Skáldkonan á Sauðárkróki. „Ég byrjaði á Dalalífi um fermingu,“ segir Guðrún frá Lundi í stuttu landsímaviðtali. Í fáum orðum sagt,“ Morgunblaðið, 21. október 1956, bls. 6.
[58] Skjalasafn Skagafjarðar.Bréf Guðrúnar Árnadóttur til Sigurðar O. Björnssonar, Sauðárkróki, 17. nóvember 1957.
[59] f.j. [Freysteinn Jóhannsson]: „„Kerling eins og ég má ekki skrifa svona mikið.“ Afmælisrabb við Guðrúnu frá Lundi,“ Morgunblaðið, 3. júní 1972, bls. 10.