Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra tekur heilshugar undir bókanir sveitarfélaganna á starfssvæði sínu í tengslum við óveðrið sem gekk yfir dagana 10.- 12. desember. Það ástand sem skapaðist í landshlutanum er óviðunandi og stjórnvöld, stofnanir og aðrir sem hlut eiga að máli verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að viðlíka ástand skapist ekki aftur. Það er óboðlegt á árinu 2019 að í kjölfar óveðurs skuli íbúar verða innlyksa án rafmagns og hita sólarhringum saman, auk þess að njóta bágborinna fjarskipta og upplýsinga um hvað endurbótum og lagfæringum líður. Það er sömuleiðis óviðunandi að stefna hundruðum manna út í mannskaðaveður, með tilheyrandi hættu, til að ráðast í lagfæringar á innviðum sem hefði þegar átt að vera búið að byggja upp með því öryggi sem tilheyrir 21. öldinni.
Ljóst er að tjón af völdum veðursins er verulegt og mun vera lengi að koma í ljós hvert raunverulegt umfang þess er. Sveitarfélögin á starfssvæði samtakanna eru nú að meta stöðuna og greina hvaða úrbóta er þörf. Það er hins vegar alveg ljóst að ráðast verður í verulegar endurbætur innviða. Tryggja verður afhendingu raforku, nauðsynlegt varaafl og fjarskipti svo sú hætta sem skapaðist á meðan á veðrinu stóð skapist ekki aftur. Stöðug fækkun starfsmanna á landsbyggðinni hjá þeim stofunum sem reka framangreind kerfi gerir það að verkum að ekki er hægt að hægt að tryggja virkni þeirra við hættuástand eins og meðan á veðrinu stóð og í kjölfar þess. Fjölga verður starfsfólki á starfsstöðvum í landshlutanum að nýju svo hægt sé að sinna rekstri og nauðsynlegu viðhaldi. Jafnframt er brýnt, þegar gefnar eru út veðurviðvaranir sem gefa tilefni til að ætla að fylgi hættuástand líkt og nú var, að nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar t.d. með því að senda viðbótar mannafla ásamt nauðsynlegum tækjabúnaði á staðinn áður en veður skellur á.
Stjórn SSNV vill koma á framfæri þakklæti til björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila á starfssvæðinu. Allir þeir sem vaktina stóðu unnu þrekvirki og er þakkað fyrir ómetanleg störf. Þessir aðilar voru tilbúnir undir veðurofsann sem því miður er ekki hægt að segja um þær stofnanir sem reka innviðakerfin sem við reiðum okkur á.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550