Undanfarin ár hafa verið teikn á lofti um að vinsældir QR-kóðans hafi verið að aukast og má augljóslega sjá þess merki á árinu 2020. Heimsfaraldurinn virðist hafa ýtt að einhverju leyti undir aukna notkun á þessari tækni enda bíður hún m.a. upp á snertilausa tækni og þjónustu sem fyrirtæki eru að leitast eftir til að minnka sameiginlega snertifleti og um leið mögulegar smitleiðir.
Hvað er QR-kóði?
QR-kóði er nokkurs konar strikamerki sem notað er til að geyma gögn á bak við. Með því að nota myndavél í síma eða öðru snjalltæki er hægt að skanna strikamerkið og skoða efnið sem tengt er kóðanum. Með QR-kóðum er hægt að deila efni á einfaldan hátt en til að hægt sé að deila efninu verður það að vera vistað einhversstaðar á netinu. Til dæmis er hægt að deila vefslóðum, myndböndum af Youtube, hljóðskrám, myndum/efni sem vistað er í skýjum og efni af samfélagsmiðlum.
QR-kóðinn á sögu sína að rekja til ársins 1994 en það var hins vegar ekki fyrr en árið 2002 sem byrjað var að nota tæknina með snjallsímum og í markaðsfræðilegum tilgangi, með misjöfnum árangri þó. Upphaflega þurftu notendur að vera með sérstakt forrit í símanum til að geta lesið kóðann, það gæti að einhverju leyti útskýrt af hverju hann náði ekki flugi fyrst þegar QR-kóðinn kom á markað. Eins hefur því verið haldið fram að þegar hann var notaður í byrjun var efnið á bak við kóðann yfirleitt of almennt, óviðeigandi og færði neytandanum yfirleitt ekkert auka virði sem um leið gæti hafa rýrt trúverðugleika tækninnar.
Möguleikar í markaðssetningu og snertilausum þjónustulausnum
Möguleikar QR-kóða í markaðslegum tilgangi eru endalausir. Með QR-kóða væri t.d. hægt að láta fylgja með uppskriftir að matreiðslu á hráefni sem keypt er út í búð, upplýsingar um fólkið sem ræktar grænmetið eða upplýsingar um hvar afurðin er ræktuð og með hvaða hætti. Á umbúðum fyrir fæðubótarefni gæti tilgangurinn verið að fræða neytendann um virkni efnanna, hvenær dags ætti að taka þau, koma áleiðis upplýsingum ef t.d. ekki má taka fæðubótarefnin með öðrum vítamínum, heilnæmi vörunnar eða annað sem aukið gæti virði vörunnar fyrir neytendanum.
Möguleikar QR-kóða í þjónustu eru margir. Með notkun á þessari tækni er hægt að fækka sameiginlegum snertiflötum. Víða eru veitingastaðir farnir að nota QR-kóða til að hýsa mat- og drykkjarseðla. Hagræðing skapast þegar kemur að framsetningu matseðla og auðvelt er að gera breytingar t.d. á verðum eða réttum á matseðli. QR-kóðinn vísar í vefsvæði sem auðvelt er að breyta og ekki er lengur þörf á að prenta nýtt upplag í hvert skipti þegar gera þarf breytingar. Neytandinn þarf heldur ekki að fá í hendurnar matseðil sem kannski margir aðrir viðskiptavinir hafa handleikið yfir daginn. Í þessu Covid ástandi eru fyrirtæki skilduð til að safna upplýsingum um viðskiptavini ef ske kynni að upp kæmi smit, þar sem fram þurfa að koma persónulegar upplýsingar eins og t.d. kennitala, netfang og símanúmer. Einhver fyrirtæki hafa verið að safna þessum upplýsingum saman á útprentuðu blaði, sem skrifaðar eru niður af mismunandi fólki með sama pennanum. Hægt er að nýta sér QR-kóða til að safna saman þessum upplýsingum á hverju borði. QR-kóðinn gæti geymt hlekk á google forms eyðublað þar sem hægt er að slá inn allar þær upplýsingar sem þarf á snjallsíma hvers og eins. Einfalt og handhægt. Þessi leið gefur fyrirtækjum jafnframt leið til að bjóða viðskiptavinum sínum að skrá sig á netfangalista til að fá send sérstök tilboð eða upplýsingar um viðburði.
SSNV gerði stutt myndband sem sýnir hvernig hægt er að búa til QR-kóða með QR Code Generator.
Margar aðrar síður bjóða einnig upp á að sama möguleika og á þeim flestum er einnig í boði að kaupa áskrift að þjónustunni sem veitir þá aðgang að meiri möguleikum.
Myndbandið hér fyrir neðan sýnir hvernig á að nota QR-kóða fyrir matseðla og hvernig á að búa til matseðil með Canva. Á heimasíðu SSNV má einnig finna leiðbeiningar um hvernig hægt sé að vinna frekar með Canva.
Ráðgjafar SSNV veita frekari leiðbeiningar varðandi QR-kóða sé þess óskað. Hægt er að hafa samband við Sveinbjörgu Rut Pétursdóttur, atvinnuráðgjafa SSNV, á sveinbjorg@ssnv.is.
Meiri fróðleik um QR-kóða af erlendum síðum má finna hér fyrir neðan:
https://www.perchinteractive.com/retail-marketing-blog/2020/8/1/qr-codes-retail-covid-contactless
https://newsroom.paypal-corp.com/covid-19-the-rise-of-qr-codes-as-a-payments-tool
https://www.modernretail.co/retailers/how-2020-made-qr-codes-cool/
https://www.thedrum.com/opinion/2020/07/10/the-return-and-rise-the-qr-code
https://www.qrcode.com/en/history/
https://qz.com/1917661/qr-codes-are-finally-having-their-moment-because-of-covid-19/
https://econsultancy.com/how-qr-codes-are-finally-enabling-innovation-in-2020/
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550