Á ársþingi SSNV, sem haldið var í fjarfundi 16. apríl, voru Byggðagleraugu SSNV veitt í fyrsta sinn.
Undanfarið hefur mikið verið rætt um störf án staðsetningar og almennt flutning starfa út á land sem m.a. hefur lengi verið baráttumál sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi vestra. Til að vekja athygli á þessu og jafnframt hvetja og þakka þeim sem vel hafa staðið sig hefur stjórn SSNV ákveðið að veita á ársþingi ár hvert, viðurkenninguna Byggðagleraugun, þeirri stofnun eða ráðuneyti sem þykir hafa skarað fram úr í fjölgun starfa/verkefna á Norðurlandi vestra eða með öðrum hætti stuðlað að uppbyggingu hans. Er viðurkenningunni ætlað að hvetja forsvarsmenn stofnana til að horfa með „byggðagleraugunum“ á verkefni sinna eininga og nýta þau tækifæri sem gefast til flutnings starfa/verkefna á landsbyggðina í samræmi við áherslur byggðaáætlunar og annarra áherslna ríkisins. Viðurkenningarskjalið er hannað af Ólínu Sif Einarsdóttur, grafískum hönnuði ÓE Design, sem búsett er í Skagafirði.
Byggðagleraugu SSNV fyrir árið 2021 hlýtur Vinnumálastofnun fyrir árangursríka uppbyggingu starfsstöðva stofnunarinnar á Hvammstanga og Skagaströnd. Starfsstöðvarnar báðar hafa mikla þýðingu fyrir samélögin á Norðurlandi vestra og þykja fyrirmyndardæmi um árangursríkan flutning verkefna á landsbyggðina. Frá opnun þeirra hafa þær eflst verulega og starfa þar nú samtals vel yfir 40 starfsmenn. Slíkur fjöldi starfa hefur mikil áhrif í hagkerfi svæðisins og stuðlar að aukinni byggðafestu og uppbyggingu í landshlutanum.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550