SSNV er aðili að Norðurslóðaverkefninu GLOW 2.0 og í síðustu viku var komið að okkur að hýsa og skipuleggja verkefnafund, en slíkir eru haldnir á hálfs árs fresti hjá einum af þátttakendum, sem auk okkar koma frá Írlandi, Finnlandi og Noregi. Að auki hittast aðilar að jafnaði mánaðarlega á netinu þessi þrjú ár sem verkefnið varir. Að þessu sinni voru með í för fulltrúar 16 smáfyrirtækja, sem eru að tileinka sér myrkur og myrkurgæði í sinni ferðaþjónustu. Hópurinn dvaldi á Blönduósi en hann kom til landsins mánudaginn 7. október og naut einmuna veðurblíðu svo að segja allan tíman þar til haldið var heim á leið á fimmtudeginum, í takt við tilefni ferðarinnar var norðurljósavirkni í hæstu hæðum.
Á þriðjudagsmorgninum var fundur verkefnastjórnar landanna fjögurra á Blönduósi, en á meðan heimsóttu fulltrúar fyrirtækjanna Skagaströnd. Þar fæddust þau um tilurð og starfsemi Spákonuhofs og Nes listamiðstöðvar, sem beindi sjónum þeirra einkum að „Light up hátíðinni”, vel heppnuðum viðburði í svartasta skammdeginu. Um eftirmiðdaginn fór svo fram opið málþing um „Myrkur og ferðaþjónustu”, með þátttöku erlendu gestanna og heimafólks, aðallega úr ferðaþjónustu. Viðburðinum einnig streymt á netinu. Sagt verður frá málþinginu í annarri frétt.
Að loknum kvöldverði var haldið með gestina í myrkurgöngur, annars vegar í landi Vatnsdalshóla undir stjórn Dóru, auk þess sem þátttakandi úr hópnum nýtti myrkurgæðin til stjörnufræðslu fyrir hina í hópnum og hins vegar fékk hópurinn sögustund og leiðsögn með Magnúsi á Sveinsstöðum um Þrístapa.
Næsta morgun var svo haldið á Sauðárkrók þar sem gestirnir fengu að kynnast notkun sýndarveruleika í ferðaþjónustu, en einn hluti GLOW verkefnisins snýst einmitt um að útbúa s.k. stafrænt stjörnuver í sýndarveruleika og gafst kostur á að skoða þróunarútgáfu í tækjum 1238. Að því loknu var haldið til Reykjavíkur, þar sem Flyover Iceland og Perla norðursins voru heimsótt áður en fólk hélt til Keflavíkur þar sem síðustu nóttinni fyrir heimflug var eytt.
Allt í allt vel heppnuð heimsókn og við hvetjum þá ferðaþjónustuaðila sem vilja slást í hópinn og máta myrkrið við starfsemi sína að endilega vera í sambandi.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550