Sem hluti af undirbúningi við mótun nýs þekkingargarðs á Sauðárkróki fór fulltrúi SSNV, Magnús Barðdal, ásamt Einari Einarssyni forseta sveitarstjórnar í Skagafirði, Hólmfríði Sveinsdóttur rektor við Háskólann á Hólum og Árni Gunnarsson kvikmyndagerðarmaður í ferð til Svíþjóðar. Var erindi ferðarinnar að kynnast starfsemi sambærilegra garða og efla tengsl við fyrirtæki og stofnanir þar í landi. Það má margt læra af nágrönnum okkar í Svíþjóð sem hafa náð eftirtektarverðum árangri í nýsköpun og tengingu skóla við atvinnulífið. Ferðin var kostuð með styrk sem Hátæknisetur Íslands hlaut úr Lóu nýsköpunarsjóði og er styrknum ætlað til að hanna þekkingargarða sem byggja á upp samhlið aðstöðu fyrir Háskólann á Hólum á Sauðárkróki.
Nýsköpunarverkefnið Sægarðar á Sauðárkróki gengur út á að skipuleggja sérhæfða iðngarða þar sem einstakar aðstæður skapast til stuðnings við nýsköpun fyrirtækja og frumkvöðla á sviði sjálfbærs lagareldis og -ræktar. Hjarta garðanna er starfsemi Háskólans á Hólum sem snýr að námi og rannsóknum á sjálfbæru lagareldi og -rækt. Verkefnið hlaut 4.140.000 kr. styrk úr Lóu nýsköpunarstyrk fyrir landsbyggðina.
Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan á Norðurlandi vestra.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550