Á dögunum var haldin glæsileg fjárfestahátíð á Siglufirði. Nýsköpunarhreyfingin Norðanátt stóð fyrir hátíðinni og var hún lokaskref í nýsköpunarhringrás sem hófst á hraðli, að honum loknum tók við vaxtarrými – 8 vikna þjálfunarbúðir þar sem 8 fyrirtæki fengu stuðning við að þróa sínar hugmyndir og móta enn frekar. Lokaskrefið var svo fjárfestahátíðin. Norðanátt var styrkt af Lóu, nýsköpunarsjóði fyrir landsbyggðina.
Á hátíðinni kynntu 10 teymi verkefni sín fyrir áhugasömum fjárfestum. Áhugi á hátíðinni var mikill en alls mættu um 30 fjárfestar til leiks auk aðila úr stoðkerfi nýsköpunar, fulltrúar sveitarfélaga og annarra hagaðila.
SSNV er aðili að Norðanátt ásamt Eim, SSNE, Nýsköpun í Norðri, Hraðinu og RATA sem sá um þjálfun fjárfestateymanna fyrir kynningarnar á hátíðinni. Samstarfið nær því yfir Norðurland allt og hefur gengið afar vel.
Auk fjárfestakynninga voru haldin nokkur erindi á hátíðinni. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra opnaði hátíðina, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og lofslagsráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fluttu einnig ávörp. Einnig héldu Josh Klein, athafnamaður og frumkvöðull, Þór Sigfússon stofnandi Sjávarklasans og Hólmfríður Sveinsdóttir nýskipaður rektor Háskólans á Hólum erindi.
Mál manna er að hátíðin, sem að því að best er vitað er sú fyrsta af þessum toga sem haldin hefur verið á Norðurlandi, hafi tekist afar vel.
Nánar má lesa um hátíðina og þáttökuteymin hér
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550