Haustdagur ferðaþjónustunnar á Norðurlandi vestra var haldinn á Zoom miðvikudaginn 10. Nóvember. Þetta er í sjötta sinn sem dagurinn er haldinn og voru netgestir um fjöritíu talsins. Á fundinum voru flutt fimm áhugaverð erindi, sem öll tæptu á efni tengdu greininni í ljósi núverandi stöðu og framtíðarhorfa að því leyti sem hægt er að ráða í þær. Fundurinn hófst á innleggi frá Helgu Guðrúnu Jónasdóttur, sem situr í stjórn hins nýstofnaða Atvinnufjelags, sem hefur að markmiði að láta sig varða þær áskoranir sem lítil og meðalstór fyrirtæki standa frammi fyrir. Í máli Helgu Guðrúnar kom m.a. fram að félaginu hafi verið vel tekið og það telji nú þegar á þriðja hundrað meðlimi. Næst tók við Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, sem gaf greinargóða yfirferð um það hvernig starfsfólk MN hefur skynjað andrúmsloftið á þeim mörkuðum, sem þau hafa verið að kynna landshlutan á upp á síðkastið og hvernig Markaðsstofan hyggist vinna með þessa markaði næstu vikur og mánuði. Gústaf Gústafsson aðjúnkt við ferðamáldeild Háskólans á Hólum velti svo fyrir sér spurningunni hvort samband viðskiptavina og þjónustuaðila verði breytt eftir Covid og kom þar ýmislegt áhugavert fram, sem vert verður að fylgjast með hvort og þá hvernig raungerist þegar fram líða stundir. Kynning Sveinbjargar Rut Pétursdóttur hjá SSNV á QR kóðum og ýmsum notkunarmöguleikum átti því á vissan hátt vel við sem næsta innlegg, enda notkun á þeim aukist gríðarlega síðustu mánuði sem svar við þörfinni á snertilausum samskiptum. Að siðustu var svo Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri SSNV með yfirlit yfir helstu ferðaþjónustutengd verkefni á svæðinu, sem SSNV hefur komið að á liðnum árum eða eru í pípunum nú um stundir.
Upptöku af fundinum má finna á Facebooksíðu SSNV.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550