31. Ársþing SSNV fór fram síðast liðinn föstudag og var haldið á Hótel Laugarbakka sem stendur við bakka Miðfjarðarár í Húnaþingi vestra. Umhverfið allt tók vel á móti gestum þingsins sem var afar vel sótt þetta árið. Ráðherra, þingfólk, kjörnir fulltrúar á Norðurlandi vestra, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga ásamt nýráðnum framkvæmdarstjóra Sambandsins voru meðal gesta.
Mikil umræða skapaðist tengd riðuveiki í sauðfé en undanfarin ár hefur riðuveiki í sauðfé verið að greinast ekki bara á sýktum svæðum heldur einnig á skilgreindum hreinum svæðum og nú ný tilfelli í Miðfjarðarhólfi. Þingið sendi frá sér ályktun þar sem þingið skorar á Matvælaráðherra í ljósi þessara nýgreindra riðusmita. Aðrar umræður og afgreiðslur gengu vel, meðal þeirra voru breytingar á samþykktum og úthlutunarreglum.
Vönduð og fjölbreytt erindi fyrirlesara á þinginu vörpuðu svo skýru ljósi á hin ýmsu tækifæri sem Norðurland vestra á inni og gáfu innsýn í hin ýmsu verkefni sem þegar eru í vinnslu, með nýsköpun, nýjar fjárfestingar og umhverfismál að leiðarljósi.
Á næstu dögum munu birtast frekari fréttir unnar upp úr ársþingi SSNV.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550