Innan við helmingur af þátttakendum á ungmennaþingi SSNV sem haldið var í haust sáu fyrir sér að búa í landshlutanum í framtíðinni. Þessar niðurstöður eru umhugsunarverðar fyrir stjórnmálafólk landshlutans því ef unga fólkið vill ekki búa hér í framtíðinni hver á þá að gera það?
Vel heppnað Ungmennaþing SSNV var haldið Í félagsheimilinu á Blönduósi þann 5. október síðastliðinn. SSNV hlaut styrk úr samfélagssjóði Landsvirkjunar til þess að halda viðburðinn. Markmið þingsins var að skapa vettvang fyrir ungt fólk til að tjá skoðanir sínar og ræða málefni sem brennur á því, valdefla það og efla tengslanet. Á þingið mættu 20 ungmenni á aldrinum 13-18 ára og tóku þátt í vinnustofu. Sævar Helgi Bragason kom og sá um vinnustofu en þemað á þinginu var umhverfismál og nýsköpun. Vinnustofunni var skipt upp í þrjá hluta þar sem krakkarnir kortlögðu helstu áskoranir í sínu sveitarfélagi, fundu lausnir við þeim og lögðu fram framtíðarsýn fyrir landshlutann.
Þegar dregin eru saman aðalatriðin af þinginu þá er ljóst að ungmennin vilja búa í samfélagi þar sem á þau er hlustað og þau geta sagt skoðanir sínar, bæði núna og þegar þau verða eldri. Samgöngur skipta þau miklu máli, þau vilja efla innviði svo það sé auðveldara fyrir bæði þau og fullorðna fólkið að nota vistvænar samgöngur á milli staða. Þau höfðu orð á því að bílar væru notaðir of mikið til að keyra stuttar vegalengdir og þeir væru of oft skildir eftir í gangi með tilheyrandi útblæstri. Ungmenni úr minni sveitarfélögum nefndu einnig að oft þurfi að ferðast langar vegalengdir til að fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu.Þau veltu eðlilega fyrir sér hvort ekki væri hægt að finna lausnir til að þjónusta þau í heimabyggð.
Ungmennin lögðu áherslu á orkuskipti og að það sé ekki bara fólkið sem á að fá sér rafmagnsbíl heldur þurfi fyrirtæki og sveitarfélög að gera betur á því sviði. Úrgangur var annað málefni sem brann á unga fólkinu. Þau vilja bæta flokkun í landshlutanum og einnig bæta hreinsun á rusli úr náttúrunni.
Þegar þau voru spurð hvað skipti mestu máli svo þau vilji búa í landshlutanum í framtíðinni voru margir sem nefndu góða aðstöðu fyrir landbúnað. Á vinnustofunni var mikill áhugi á nýsköpunarlausnum sem gera landbúnað loftslagsvænni og þar liggur tækifæri til að virkja ungt fólk með frjótt ímyndunarafl.
Líklegt er að ávinningurinn af því að virkja ungmennin okkar með þessum hætti yrði sá að þau verði líklegri til að vilja setjast hérna að í framtíðinni. Þessi vettvangur getur líka ýtt undir að þau fái áhuga á stjórnmálum og vilji taka virkan þátt í samfélaginu okkar. Ef við ætlum að byggja upp sjálfbært samfélagi í landshlutanum er mikilvægt að skapa vettvang eins og ungmennaþing þar sem ungmenni geta látið skoðanir sínar í ljós og enn mikilvægara er að við sem eldri erum, þá sérstaklega sveitastjórnarfólk, hlustum á þau. Skoðanir þeirra gefa okkur ómetanlega innsýn í fjölbreyttar þarfir og væntingar kynslóðar sem við viljum að setjist hér að í framtíðinni.
Hér geta áhugasamir lesið meira um framkvæmd og niðurstöður ungmennaþingsins.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550