Úthlutun styrkja vegna sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða - C1

Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur úthlutað styrkjum að upphæð 140 milljónum kr. til þrettán fjölbreyttra verkefna til að efla byggðir landsins. Framlag til styrkjanna kemur af byggðaáætlun (aðgerð C.1 – Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða). Alls bárust nítján umsóknir fyrir um 437 m.kr. en heildarkostnaður verkefnanna var rúmlega 800 m.kr.

Markmiðið með aðgerðinni er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Landshlutasamtök sveitarfélaga geta sótt um framlög í samkeppnissjóð vegna verkefna sem nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans eða landshlutanum í heild. Verkefni sem talin eru hafa varanleg áhrif, eru atvinnuskapandi og hvetja til nýsköpunar verði í forgangi.

SSNV sótti um fyrir hönd sveitarfélaga á Norðurland vestra og ánægjulegt er frá því að segja að fjögur þeirra verkefna hlutu styrkveitingu.

Verkefnin sem fengu styrk á Norðurlandi vestra eru eftirfarandi:

Orkuskipti í Húnaþingi vestra
Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
Styrkupphæð: 7,2 m.kr.
Verkefnið snýst um undirbúning og greiningu á fýsileika á uppsetningu staðarveitna tengdum varmadælum, í eigu og rekstri Hitaveitu Húnaþings vestra, á köldum svæðum í dreifbýli í Húnaþingi vestra þar sem ekki er kostur á að tengjast dreifikerfi hitaveitu.

Gamli bærinn á Blönduósi – aðdráttarafl ferðamanna
Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
Styrkupphæð: 13,4 m.kr.
Markmið verkefnisins er að hanna sýn/leikmynd á endurgerð gamla bæjarins á Blönduósi og þróa söguleiðsögn með því markmiði að efla ferðaþjónustu á svæðinu og skapa ný störf í sveitarfélagi sem stendur frammi fyrir miklum áskorunum í atvinnumálum.

Þekkingargarðar á Norðurlandi vestra
Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
Styrkupphæð: 8 m.kr.
Verkefnið miðar að stofnun þekkingargarða á Norðurlandi vestra með höfuðstöðvar á Sauðárkróki. Garðarnir munu tengja atvinnulíf, háskólasamstæðu Háskóla Íslands, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og sveitarfélög. Áherslan er á sjálfbæra matvælaframleiðslu sem byggir á styrkleikum svæðisins.

Hjólin eru að koma – tækifæragreining fyrir sjálfbæra hjólaferðaþjónustu á Norðurlandi vestra
Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
Styrkupphæð: 4,8 m.kr.
Í verkefninu verður unnin tækifæragreining fyrir hjólaferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Þar verða þjónustuframboð og landfræðilegir möguleikar svæðisins mátaðir við þær tegundir hjólaferðamennsku sem eru útbreiddastar og þeir innviðir og sú þjónusta kortlögð sem vantar til að mæta þörfum þessa sístækkandi markhóps.

Styrkirnir munu styðja við nýsköpun, orku- og umhverfismál, ferðaþjónustu og atvinnuþróun á Norðurlandi vestra og skapa mikilvæg tækifæri fyrir svæðið til framtíðar.