Upptaka er komin af þriðja fyrirlestri í fyrirlestraröðinni Forvitnir frumkvöðlar!

Atli Arnarson flutti þriðja fyrirlesturinn í fyrirlestraröðinni „Forvitnir frumkvöðlar“, sem haldin er á vegum landshlutasamtakanna.

Atli er sérfræðingur hjá Tækniþróunarsjóði og fjallaði hann um hvernig hægt er að nýta gervigreind við gerð styrkumsókna. Hann veitti innsýn í þróun gervigreindartækni og kynnti frumkvöðlum tól og aðferðir sem geta nýst við umsóknarskrif. Jafnframt ræddi hann mögulegar áskoranir, siðferðileg álitaefni og takmarkanir tækninnar.

Í fyrirlestrinum sýndi Atli dæmi um hvernig gervigreind getur aðstoðað við að greina styrkþarfir, skrifa skýrar og markvissar umsóknir og betrumbæta texta út frá matsviðmiðum styrkveitenda. Hann lagði áherslu á að þó gervigreind geti verið öflugt hjálpartæki, sé mikilvægt að umsækjendur leggi sjálfir mat á innihald umsóknanna og tryggi að þær endurspegli raunverulegt verkefni og markmið þess.

Fyrirlesturinn var vel sóttur og vakti mikla umræðu. Atli svaraði spurningum af mikilli nákvæmni og gaf hagnýt ráð um hvernig frumkvöðlar geta nýtt tæknina á ábyrgan hátt.

Smelltu hér til að nálgast upptöku af fyrirlestrinum og hér má nálgast glærurnar.

Við viljum hvetja alla frumkvöðla til að fylgjast áfram með fyrirlestraröðinni.

Næsti fyrirlestur verður haldinn á næstu vikum og nánari upplýsingar um hann má finna á Facebook-viðburðinum Forvitnir frumkvöðlar og heimasíðum landshlutasamtakanna.