Á vordögum voru skilgreind nokkur verkefni sem nýtast ferðaþjónustunni á svæðinu, en SSNV kallaði eftir hugmyndum að verkefnum seinni partinn í mars s.l. Hér er um að ræða verkefni, sem flest geta talist til innviða inn í framtíðina bæði sem áþreifanlegum, en einkum stafrænna, þar sem þeir síðarnefndu nýtast í kynningu svæðisins nú strax í sumar.
Þessa dagana er verið að hefjast handa við átak hnitsetningu gönguleiða á Norðurlandi vestra og þar er af nógu að taka, því sennilega er hátt í eitt hundrað styttri og lengri gönguleiðir uppgefnar á því kortaefni, sem gefið hefur verið út um svæðið á liðnum árum. Hluti af sveitarfélögunum hafa tekið fyrstu skref með nokkrar af þessum gönguleiðum en nú stendur til að bæta hressilega í þannig að sem flestar af þessum gönguleiðum verði í framtíðinni aðgengileg í tölvum og snjalltækjum. Það eru sumarstarfskraftar, sem voru ráðnir af SSNV og Akrahreppi í átaki Vinnumálastofnunar sem munu sjá um hina verklegu framkvæmd. Eins og fyrr segir er af nógu að taka varðandi gönguleiðir á svæðinu og ef einhverja gönguhópa eða einstaklinga langar að leggja verkefninu lið á ferðum sínum, hvetjum við viðkomandi að vera í sambandi.
Nýlega fóru í loftið á samfélagsmiðlum fyrstu landslagsmyndbönd með frumsaminni tónlist úr smiðju Helga Sæmundar Guðmundssonar og er óhætt að segja að byrjunin lofi verulega góðu. "Norðvestur"-verkefnið mun standa yfir í allt sumar og myndefnið að því loknu vera tiltækt í framtíðarnotkun fyrir kynningarefni svæðisins.
Svipaða sögu má segja af því efni sem N4-sjónvarpsstöðin er að taka upp og verður á næstunni notað í þáttunum "Uppskrift að góðum degi á Norðurlandi vestra", en fyrsti þátturinn fór einmitt í loftið á dögunum og þrír munu fylgja í kjölfarið.
Þá er einnig í undirbúningi verkefni, sem miðar að hönnun og uppsetningu skilta m.a. á stöðum sem tengjast þekktum persónum. Hugmyndin er að þetta verkefni verði hluti af heildrænni nálgun á merkingum og/eða uppsetningu á skiltum á ferðamannastöðum, ásamt því að vera samtvinnað öðru upplýsingaefni þeim tengdum.
Öll eru þessi verkefni fjármögnuð sem átaksverkefni úr sérstakri úthlutun Sóknaráætlunar Norðurlands vestra vegna Covid 19.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550