Undirritun nýrra samninga um sóknaráætlanir landshluta - Aukin ábyrgð og völd heim í hérað

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og…
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ásamt fulltrúum landshlutasamtaka við undirritun samninga um sóknaráætlanir landshluta. Mynd: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.

Samningar um sóknaráætlanir landshluta voru undirritaðir 12. nóvember sl. í ráðherrabústaðnum í Reykjavík. Samningana undirrituðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurður Ingi Jóhansson, mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir og formenn eða framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna. Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri, undirritaði fyrir hönd SSNV.

 

Það var hátíðleg stemming við undirritunina enda um mikilvægt verkefni að ræða sem stuðlar að eflingu byggða í landinu. Með samningunum er leitast við að flytja ábyrgð og vald yfir fjármunum og verkefnum heim í hérað. Nýr samningur gildir árin 2020-2024 og er með svipuðu sniði og samningurinn sem rennur út um áramót. Ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra nefndi í ræðu sinni að eina breytingin væri í raun sú að nýr samningur er opnari en hinn fyrri og færir því enn meiri ábyrgð og völd yfir verkefnunum til heimamanna. Er það afar ánægjuleg þróun.

 

Einn liður í samningnum eru þróunaráætlanir sem fela í sér stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Áætlanir þessar hafa verið í vinnslu hjá landshlutasamtökunum undanfarnar vikur og mánuði og er gaman að segja frá því að Sóknaráætlun Norðurlands vestra var fyrsta áætlunin sem hlaut samþykki sveitarstjórnarmanna á haustþingi samtakanna sem haldið var 18. október sl. Var áætlunin unnin í miklu samráði við íbúa, bæði með fundum sem haldnir voru á starfssvæðinu og eins með rafrænum hætti. Áætlunin var svo til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda áður en hún var lögð fyrir haustþing til samþykktar. KPMG var samtökunum til ráðgjafar við vinnslu áætlunarinnar.  Sóknaráætlun Norðurlands vestra er aðgengileg á heimasíðu SSNV.

 

Þegar hefur verið auglýst úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra sem er einn liður samningsins með umsóknarfrest til 20. nóvember. Innan tíðar verða skilgreind áhersluverkefni til áranna 2020-2021.

 

Stýrihópur stjórnarráðsins um byggðamál er umsjónaraðili samninganna fyrir hönd ráðuneytanna. Í hópnum sitja fulltrúar nokkurra ráðuneyta auk fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og áheyrnarfulltrúa frá Byggðastofnun og landshutasamtökunum. Landshlutasamtökin skipta með sér setu í hópnum og s.l. ár var Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri SSNV fulltrúi þeirra í stýrihópnum. Segir Unnur það hafa verið í senn lærdómsríkt og ánægjulegt ferli að taka þátt í vinnunni við gerð þessa nýja samnings fyrir hönd landshlutasamtakanna.

 

Stjórn og starfsmenn SSNV óska íbúum Norðurlands vestra til hamingju með nýja Sóknaráætlun Norðurlands vestra.