Umsögn og minnisblað í tengslum við fjármálaáætlun 2023-2027

Fjármálaáætlun áranna 2023-2027 er nú í meðförum fjárlaganefndar. Frá SSNV voru tvö skjöl send inn sem innlegg í umræðu um áætlunina. Annars vegar minnisblað um greiðslur sveitarfélaga í Norðvesturkjördæmi með dreifnámsdeildum sem reknar eru á fjórum stöðum í kjördæminu, sem var unnið í samvinnu við Vestfjarðastofu. Sveitarfélögin hafa greitt tæplega 180 milljónir með starfseminni frá því að deildirnar voru stofnaðar. Rekstur framhaldsskóla er lögbundið hlutverk hins opinbera. Það skýtur því skökku við að lítil sveitarfélög þurfi, svo árum saman, að standa straum af kostnaði sem hið opinbera á með réttu að bera. Með því er verið að auka álögur á þessi sveitarfélög umfram önnur þar sem framhaldsskólar eru til staðar. Til að gæta jafnræðis er mikilvægt að stutt verði við þessa mikilvægu starfsemi með framlögum frá ríkinu í stað framlaga sveitarfélaganna. Með því móti er þessi mikilvæga starfsemi fest enn frekar í sessi

 

Í hinu skjalinu er fjallað um brýna þörf á auknu fjármagni í sóknaráætlanir og atvinnuþróun, sem eru tvö meginverkefni landshlutasamtaka. Afar brýnt er að þau fyrirheit sem komið hafa fram í stjórnarsáttmálum undanfarinna ára um eflingu sóknaráætlana verði nú fundinn farvegur í fjármálaáætlun og stórlega bætt í þá fjármuni sem til ráðstöfunar hafa verið undanfarin ár. Tímabundin viðbótarframlög undangenginna ára eru þakkarverð en brýnt er að framlagið verði aukið til framtíðar til að skapa festu og samfellu í verkefnum úti í landshlutunum. Stóraukin aðsókn hefur verið í atvinnuþróun hjá SSNV undanfarin misseri. Brýn þörf er á að framlögin verði aukin í takt við þróun launavísitölu og aukinnar ásóknar í ráðgjöf hjá landshlutasamtökunum. Lögð er áhersla á að framlögin verði hækkuð í fjármálaáætlun til að treysta grunn þessarar mikilvægu starfsemi í landshlutunum.

 

Minnisblað um dreifnámsdeildir er að finna hér.

Umsögn um fjármálaáætlun er að finna hér.