Mjög mörg merki tengd umhverfisvernd eru til og notuð til að merkja vörur. Fyrir neytandann getur verið erfitt að halda utan um fyrir hvað hvert merki stendur þar sem þau eru jafn ólík og þau eru mörg.
Ef vara er merkt viðurkenndu umhverfismerki getur kaupandi verið viss um að hún skaði umhverfið minna en aðrar sambærilegar vörur. Vottun umhverfismerkja byggir á úttekt óháðra aðila.
Eftirfarandi eru upplýsingar um nokkur umhverfismerki sem finna má á vörum og þjónustu.
Svanurinn
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem var komið á fót af Norrænu ráðherranefndinni árið 1989. Meginmarkmið Svansins er að draga úr umhverfisáhrifum af vörum eða þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni kosti. Kröfur Svansins tryggja að vottuð vara sé betri fyrir umhverfið og heilsuna.
Blómið
Blómið er opinbert umhverfismerki Evrópusambandsins.
Það var sett á laggirnar árið 1992 og í dag eru hátt í 80.000 vörutegundir og þjónusta merktar Blóminu á evrópska efnahagssvæðinu. Evrópublómið er umhverfismerki sem má treysta og auðveldar neytendum sem vilja velja vörur og þjónustu sem fara betur með bæði umhverfið og heilsu okkar.
Blái engillinn
Blái engillinn (Der Blaue Engel) er áreiðanlegt þýskt umhverfismerki sem hefur verið til í rúm 45 ár. Viðmið merkisins eru þróuð í samvinnu við fulltrúa frá þýskum umhverfisyfirvöldum, iðnaði, neytendasamtökum og öðrum hagsmunaaðilum og er gott viðmið um umhverfisvæn innkaup.
Fair trade
Viðskipti með vöru merktri Fair trade flokkast sem sanngjörn viðskipti. Merkið tryggir að við framleiðslu vörunnar eru gerðar lágmarkskröfur um verð, vinnuaðbúnað, lýðræðislega þróun og umhverfismál. Þannig er bændum tryggðar réttmætar lágmarks tekjur fyrir sínar afurðir.
TÚN
Vörur merktar TÚN merkinu hafa fengið vottun um að vera lífrænar afurðir og verið framleiddar samkvæmt samþykktum skilgreiningum Evrópusambandsins um lífræna ræktun. Þær reglugerðir ná til ræktunar á plöntu- og dýraafurðum, unnum sem óunnum og ætlaðar eru til manneldis eða sem dýrafóður.
FSC
FSC vottun stendur fyrir enska heitið Forest Stewardship Council og sýnir fram á að timbur sé úr sjálfbærum skógum. FSC vottun er tvenns konar. Annars vegar vottun á skógrækt, þ.e. að timbrið sé ræktað samkvæmt ákveðnum sjálfbærniviðmiðum og hins vegar vottun á rekjanleika, þ.e. að hægt er að rekja timbur eða skógarafurðir til ákveðinnar sjálfbærrar skógræktar.
Bra Miljöval
Sænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsforeningen þróuðu Bra Miljöval og hefur það verið til frá árinu 1990. Markmiðið er að auðvelda neytendum að finna vöru og þjónustu sem er minnst skaðleg umhverfinu, til að vernda dýr, plöntur og búsvæði. Þá eru einnig settar kröfur um orkunotkun og að hægt sé að endurvinna vöruna eða að niðurbrot hennar hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfið.
Green Seal
Margar bandarískar vörur sem finna má hér á landi eru merktar Green Seal merkinu. Þetta er bandarískt, áreiðanlegt umhverfismerki og er rekið af samtökum sem eru ekki starfrækt í hagnaðarskyni. Samtökin voru stofnuð árið 1989 og Green Seal er elsta merki sinnar tegundar í Bandaríkjunum.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550