Sex verkefni á landsbyggðinni hafa verið valin á Eyrarrósarlistann 2017 og eiga þar með möguleika á að hljóta Eyrarrósina í ár. Verkefnin sem hafa verið valin í ár eru Alþýðuhúsið á Siglufirði, Eistnaflug í Neskaupstað, List í ljósi á Seyðisfirði, Nes – Listamiðstöð á Skagaströnd, Rúllandi snjóbolti á Djúpavogi, og Vesturfarasetrið á Hofsósi. Alls bárust alls 37 umsóknir um Eyrarrósina. Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar, á sviði menningar og lista. Verkefnið sem hlýtur Eyrarrósina fær tvær milljónir króna í verðlaun en tvö önnur verkefni á listanum hljóta 500 þúsund krónur.
Á meðal verkefna sem tilnefnd eru í ár er Nes-listamiðstöð á Skagaströnd og Vesturfarasetrið á Hofsósi.
Nes – listamiðstöð á Skagaströnd var stofnuð árið 2008. Fjölmargir listamenn hafa dvalið á Skagaströnd frá opnun listamiðstöðvarinnar en þar er rými fyrir allt að 12 til15 listamenn í einu. Flestir dvelja þar einn til tvo mánuði í senn. Mánaðarlegir viðburðir eru í listamiðstöðinni með virkri þátttöku heimamanna. Listamiðstöðin Nes hefur haft áhrif á nærsamfélag sitt og gefið íbúum á öllum aldri og gestum tækifæri til að kynnast fjölbreyttri listsköpun, bæði sem áhorfendur og sem virkir þátttakendur.
Vesturfarasetrið hefur verið starfrækt frá 1996 og er megintilgangur setursins að viðhalda og efla tengsl fólks af íslenskum ættum sem búsett er í Kanada og Bandaríkjunum og vill leita uppruna síns á Íslandi. Vesturfarasetrið aðstoðar einnig Íslendinga í leit sinni að ættingjum í Vesturheimi. Sýningar hafa verið settar upp í húsnæði Vesturfarasetursins á Hofsósi sem eru allar til þessa fallnar að varpa ljósi á söguna og minnast þeirra fjölmörgu sem yfirgáfu Ísland í leit að betra lífi á seinni hluta 19. aldar og í upphafi þeirra 20.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550