Þingmenn funda með sveitarstjórnarfólki

Nú stendur yfir kjördæmavika en þá funda þingmenn með sveitarstjórarfólki og fara yfir það helsta sem brennur á fólki. Í þetta skiptið var fundur þingmanna Norðvesturkjördæmis og sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra haldinn á Teams. Farið var yfir helstu mál, svo sem samgöngumál, atvinnumál, heilbrigðismál, menntamál, orkumál og margt fleira.  Þar sem orkumálin fá jafnan mikið pláss í umræðunni á fundum sem þessum var það því kaldhæðnislegt að nokkrum mínútum í fund hófust rafmagnstruflanir á Hvammstanga sem stóðu langt fram eftir fundi. Framkvæmdastjóri SSNV stýrði umræðum á fundinum og þurfti því að taka fundinn í símanum í rökkrinu í morgunsárið. Kaldhæðni gæti einhver sagt – eða áhersluauki einhver annar. Í það minnsta var engum vafa undirorpið á fundinum að úrbætur í orkumálum eru brýnt viðfangsefni í landshlutanum.

 

Á myndinni má sjá hina klassísku fundamynd af veffundum en í þetta skiptið tekin í rökkri og af gsm síma í rafmagnsleysinu.