Target Circular verkefnafundur í Skibbereen

Í vikunni 4.-8. mars héldu Davíð Jóhannsson og Sveinbjörg Rut Pétursdóttir til Írlands vegna Norðurslóðaverkefnsins Target Circular. Markmið ferðarinnar var verkefnafundur samstarfsaðila og viðburður á vegum samstarfsaðilanna.

 

Á verkefnafundinum, sem var haldinn í húsakynnum Ludgate Hub, var farið yfir framvindu verkefnisins og markmið fyrir 2024. Hápunktur dagsins var svo áhugaverð kynning sem samstarfsaðilar fengu frá líftæknifyrirtækinu Pure Ocean Algae. Fyrirtækið ræktar stórþörunga og aðrar sjávarauðlindir m.a. með það að markmiði að framleiða prótein. Framleiðslan er umhverfisvæn og sjálfbær.

Á öðrum degi fór fram opinn viðburður á vegum Ludgate. Dr. Niall O Leary hjá Hincks Centre for Entrepreneurship Excellence byrjaði daginn á að kynna endurmörkun á vísindalegri nálgun í ráðgjöf til frumkvöðla og fyrirtækja. En það er aðferð sem hefur sýnt sig að auki árangur frumkvöðla og fyrirtækja. Í framhaldi af kynningunni var farið yfir niðurstöður á sambærilegri tilraun sem gerð var í Finnlandi með viðskiptaráðgjöfum.

Þá voru kynningar frá írskum fyrirtækjum og frumkvöðlum sem höfðu tekið þátt í tilrauninni á vegum HINCKS. Frumkvöðlarnir sem sögðu frá sinni reynslu af aðferðinni voru verkefni um samvinnurými, verkefni sem nýtir fiskiúrgang, verkefni um kaffimál, umhverfisvæn gisting og sjálfbær snyrtivörutegund. Eins ólík og þessi verkefni voru höfðu þau öll sömu söguna að segja, aðferðin virkaði vel fyrir þau. Flestir sögðu að sennilega hefðu þau komist að sömu niðurstöðu á endanum en með því að nýta vísindalega nálgun við ákvarðanatöku hefði það stytt ferlið og mögulega komið í veg fyrir kostnaðarsöm mistök.

Eftir hádegið tóku samstarfsaðilar og aðrir írskir viðskiptaráðgjafar þátt í þjálfun á að nýta aðferðina. Þátttakendur prófuðu sjálfir aðferðina til að öðlast betri skilning á henni. Skemmst er frá því að segja að með því að prófa að nýta aðferðina í sínum verkefnum gátu ráðgjafar SSNV sannreynt að hún virkar vel.

Á þriðja degi var farið í heimsókn til BIM en það er írsk ríkisstofnun sem hjálpar til við að þróa írskan sjávarafurðaiðnað með því að veita tæknilega sérfræðiþekkingu, viðskiptastuðning, fjármögnun, þjálfun og stuðla að ábyrgum umhverfisaðferðum.

Að lokum var farið í heimsókn í Clonakilty Distillery þar sem samstarfsaðilar fengu kynningu á framleiðslunni og sjálfbærni markmiðum fyrirtækisins.

Næstu skref í verkefninu eru að prófa aðferðina með fyrirtækjum á svæðinu til að sannreyna enn fremur kenninguna. Í framhaldi af því koma ráðgjafar SSNV til með að bjóða upp á þjálfun við að nýta aðferðina til annarra atvinnu/viðskiptaráðgjafa á landinu sem hafa áhuga á að bæta við sig þekkingu í ráðgjöf til frumkvöðla og fyrirtækja.

Verkefnið er fjármagnað að hluta til af Norðurslóðaáætlun.