Tæpar 19 milljónir frá Matvælasjóði til verkefna á Norðurlandi vestra

Þrír styrkhafar í Skagafirði fengu nýverið glæsilega úthlutun frá Matvælasjóði til þróunar á verkefnum. 

Elínborg Erla Ásgeirsdóttir fékk styrk til þróunar á lífrænt vottaðri matvælavinnslu og nýtingu á vallhumli til matvælaframleiðslu, alls rúmar fimm milljónir króna. 

Stefanía Hjördís Leifsdóttir fékk styrk til að þróa vinnslu á geitamysu. Styrkur hennar var upp á þrjár milljónir. 

Verkefni Elínborgar Erlu og Stefaníu Hjördísar voru þrjú af 22 verkefnum sem fengu styrk úr Báru, sem er styrkjaflokkur fyrir verkefni á hugmyndastigi.  

María Eymundsdóttir fékk styrk upp á tæpar 10,5 milljónir króna. Verkefni Maríu snýst um ræktun burnirótar í Aeroponic loftræktarkerfi og var það eitt níu verkefna sem fengu styrk úr styrkflokknum Afurð. Styrkjum úr þeim flokki er ætlað að auka nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu.  

Alls hlutu 46 verkefni styrk frá Matvælasjóði af þeim 198 umsóknum sem bárust. Styrkflokkar sjóðsins eru Bára, Kelda, Afurð og Fjársjóður en hver þeirra styrkir verkefni á mismunandi stigum.  
Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla og hliðarafurða úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Áhersla er á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskra matvæla. Sjóðnum er einnig heimilt að styðja við vöruþróun og markaðssókn á erlendum mörkuðum og fylgir sjóðurinn heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í þessum tilgangi styrkir sjóðurinn verkefni og rannsóknir einstaklinga og lögaðila. 

Samkvæmt Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra spilar Matvælasjóður lykilhlutverk fyrir þróun og vöxt frjórra hugmynda tengdum lífvænlegu verkefnum í matvælaframleiðslu og -vinnslu. Að þessu sinni dreifðust úthlutanir nokkuð jafnt á milli kynja og skipting milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðarinnar var í góðu jafnvægi. Að þessu sinni voru 11% umsókna frá Norðurlandi vestra og komu einnig11% styrkja hingað.  

Það er greinilega mikil nýsköpun á Norðurlandi vestra og margt í gangi á matvælasviðinu. Við hjá SSNV hlökkum til að fylgjast með þróuninni á þessum verkefnum, sjá þau dafna og springa út.  Hamingjuóskir!

Nánari upplýsingar má finna í frétt frá Matvælaráðuneytinu