Sumarstarfsmaður ráðinn í glatvarmaverkefni Blönduósi.

María Dís Ólafsdóttir hefur hafið störf sem sumarstarfsmaður hjá SSNV, hún mun starfa við glatvarmaverkefni við gagnaverið á Blönduósi. Verkefnið hlaut nýverið styrk frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og miðar að því að finna leiðir til að nýta varma sem frá gagnaverinu kemur til verðmætasköpunar.  María Dís hefur lokið MS gráðu í lífverkfræði frá Háskóla Íslands og hóf hún störf í lok júní.

 

María mun safna gögnum til greiningar á neyslu á matvælum á svæðinu og á landsvísu, jafnframt greina neyslubundið kolefnisspor matvæla úr ylrækt á svæðinu. Hún mun líka skoða hvað mögulegt er að framleiða mikið að matvælum miðað við gefnar forsendur um nýtanlegan glatvarma frá gagnaverinu á Blönduósi og hvað gæti verið hagvæmast að rækta.

 

“Við erum gríðarlega ánægð að fá Maríu Dís til liðs við okkur í þetta spennandi verkefni á Blönduósi og vonumst til að geta nýtt niðurstöður úr hennar vinnu til enn frekari framgangs á glatvarmaverkefninu við gagnaverið, nýtt þá orku sem þar fer til spillis enn betur og um leið aukið á sjálfbærni svæðisins.” Segir Magnús Jónsson, verkefnastjóri fjárfestinga hjá SSNV.