Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál fundar með stjórn SSNV

Fulltrúar úr stýrihópi Stjórnarráðsins um byggðamál funduðu í dag með stjórn og framkvæmdastjóra SSNV á Hvammstanga. Fundurinn er liður í fundaferð hópsins um landið til að ræða við stjórnir landshlutasamtaka um sóknaráætlanir og framgang þeirra í héraði. Fulltrúar stýrihópsins fengu kynningu á nýrri Sóknaráætlun Norðurlands vestra sem samþykkt var á dögunum, helstu áherslum hennar og verkefnum sem framundan eru.  Farið var yfir mælikvarða áætlunarinnar og hvernig árangur hennar verður gerður sýnilegur í sérstöku mælaborði sem verið er að vinna að, sem og fleira sem málefninu tengist. Fundir sem þessir eru afar mikilvægir, bæði fyrir landshlutasamtökin og stýrihópinn, þar sem samtal um byggðamál þarf að vera stöðugt og virkt til að tryggja að sem bestur árangur náist.

 

Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál hefur það hlutverk að efla samhæfingu innan stjórnarráðsins í málefnum sem snúa að byggðamálum og tryggja virkt samráð við sveitarstjórnarstigið í þeim málaflokki. Í því felst meðal annars umsjón með sóknaráætlunum landshuta sem er afar mikilvægt því í stýrihópnum koma saman fulltrúar allra ráðuneyta auk fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og áheyrnarfulltrúa frá landshlutasamtökunum og Byggðastofnun.

 

Stýrihópurinn vinnur út frá þeirri skilgreiningu að byggðamál nái yfir öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á búsetuskilyrði í landshlutunum. Þau snúa að eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna og fjarskipta svo fátt eitt sé talið. Samkvæmt þessari skilgreiningu, sem og lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta, eru byggðamál viðfangsefni allra ráðuneyta með einhverjum hætti og ná til landsins alls.

 

Á myndinni sjást Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV og Hólmfríður Sveinsdóttir, formaður stýrihópsins.