Ríkisstjórn Íslands samþykkti í morgun að styrkja innviði, atvinnulíf og samfélag á Norðurlandi vestra með margvíslegum aðgerðum. Markmiðið með þeim er að skapa þjóðhagslegan ávinning og aðstæður svo góðum framtíðarstörfum á svæðinu fjölgi.
Tilgangur aðgerðanna er að snúa við neikvæðri byggðaþróun á Norðurlandi vestra og efla mannlíf. Íbúum hefur fækkað mikið á undanförnum áratugum og útsvarstekjur sveitarfélaganna af hverjum íbúa eru lægri en landsmeðaltal. Menntunarstig er lægra og hagvöxtur minni.
Norðurland vestra hefur ekki notið góðs af sértækum aðgerðum stjórnvalda á undanförnum árum, ólíkt Vestfjörðum (2011), Austurlandi (2012) og Suðurlandi (2013). Þá hafa stjórnvöld gert fjóra ívilnunarsamninga vegna nýfjárfestinga á Suðurnesjum frá árinu 2010.
Ríkisstjórnin telur mikilvægt að stuðla að byggð í öllu landinu og tryggja jafnræði milli landshluta. Aðgerðirnar sem samþykktar voru á ríkisstjórnarfundi í morgun eru liður í því. Ráðgert er að störfum á Norðurlandi vestra fjölgi um 30 vegna aðgerðanna. Hér má sjá nánari útlistun á þeim aðgerðum sem samþykktar voru.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550