Með styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra hefur nýtt kennsluefni fyrir STEM-vinnubúðir verið þróað, en STEM stendur fyrir science, technology, engineering & math eða vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði. Verkefnið snerist um að búa til aðgengilegar og skýrar kennsluleiðbeiningar fyrir verklegar tilraunir sem hægt er að framkvæma í hvaða skólastofu sem er, óháð sérhæfðum verkgreinastofum.
Á fyrstu stigum verkefnisins var lögð mikil áhersla á hugstormun, þar sem fjölmargar hugmyndir voru ræddar, metnar og prufaðar. Að lokum voru valin verkefni sem eru tiltölulega einföld í framkvæmd, krefjast aðgengilegra efna og bjóða upp á skýra en einfalda framsetningu á oft flóknum viðfangsefnum. Kennsluleiðbeiningarnar voru hannaðar með tengingu við hæfniviðmið Aðalnámskrár grunnskóla, ásamt tillögum um matsaðferðir og umræðuefni tengd hverju verkefni.
Til að tryggja gæði kennsluefnisins voru verkefnin prófuð í nokkrum umferðum, þar sem leiðbeiningar voru stöðugt betrumbættar í ljósi athugasemda og reynslu.
Þrjár vinnustofur voru haldnar, ein í hverri sýslu á Norðurlandi vestra, þar sem kennarar allra skóla svæðisins voru boðnir velkomnir. Einnig var auðsýnilegur áhugi hjá stuðningsfulltrúum og fræðslustjórum sem skapaði enn betra samtal milli þátttakenda. Mikið var lagt upp úr góðri stemningu og tilraunagleði, meðal annars með veglegum veitingum, enda mikilvægt að skapa gott samtal um kennslufræði og STEM-fræðslu yfir kaffibolla.
„Það var frábært að sjá hversu mikill áhugi var á verkefnunum og hvernig kennarar sáu strax leiðir til að nýta þau í sínu starfi. Ég hef fulla trú á því að þetta stuðli að fleiri verklegum tilraunum í skólunum og auknum áhuga nemenda á náttúrufræði og STEM-greinum," segir Álfhildur Leifsdóttir, verkefnastjóri og styrkhafi.
Að lokum fengu allir þátttakendur aðgang að rafrænum STEM-verkefnabanka með öllum kennsluleiðbeiningunum til framtíðar nota. Verkefnið hefur þegar vakið mikla eftirspurn eftir frekari þróun og vonir standa til að fleiri verkefni bætist við í framtíðinni.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550