Starfsfólk SSNV heimsótti í dag Foodsmart Nordic

Starfsfólk SSNV heimsótti í dag Foodsmart Nordic sem er nýtt hátækni- og nýsköpunarfyrirtæki á Blönduósi. Það var Viðar Þorkelsson sem tók vel á móti hópnum og kynnti starfsemina.

Foodsmart Nordic framleiðir hágæða fæðubótaefni úr íslensku sjávarfangi sem áður fyrr fór forgörðum. Félagið sér mikil tækifæri í framleiðslu á hágæða fæðubótarefnum úr íslenskum hráefnum í samstarfi við önnur fyrirtæki í matvælaiðnaðinum. Stefnt er að því að framleiða 150 tonn af endanlegum afurðum í þessum fyrsta áfanga fyrirtækisins á Blönduósi og verður framleiðslan gæðavottuð til útflutnings.

Sérhannað húsnæði Foodsmart Nordic að Ægisbraut 2 á Blönduósi er tilbúið og nemur fjárfestingin 500-600 m.kr. samtals í fasteign og tækjabúnaði. Um er að ræða fyrsta áfanga aðstöðunnar en stefnt er að frekari stækkun þegar fram í sækir og umsvif aukast í kjölfar fyrirhugaðrar markaðssóknar ytra. Nýju framleiðslutækin skila úrvals hráefni í duftformi og nýtast við þurrkun á breiðu sviði af hráefnum.

Rannsóknarsetur félagsins hefur undanfarin ár verið staðsett á Skagaströnd og þar hefur staðið yfir tilrauna framleiðslu á kollageni, sem er eitt helsta uppbyggingarefni líkamans, ásamt sæbjúgnadufti og fiskpróteinum úr íslenskum þorski.

SSNV óskar Foodsmart Nordic góðs gengis!