SSNV þátttakandi í átjánda fundi sveitarstjórnarvettvangs EFTA

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í átjánda sinn í Brussel 6.-7. desember sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Íslandi og Noregi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands. Landshlutasamtökin eiga fulltrúa í vettvangnum skv. skiptireglu og næstu tvö ár á SSNV fulltrúa. Alla jafna eru það formenn landshlutasamtakanna sem sitja fundi vettvangsins. Þorleifur Karl Eggertsson formaður stjórnar SSNV sat fundinn en þar voru til umfjöllunar áhugaverð málefni. Má þar nefna tækifæri fyrir íslensk sveitarfélög innan samstarfsáætlana Evrópusambandsins, útganga Breta úr Evrópusambandinu, „vernd hvíslara“ í nútímasamfélagi og aukið samstarf við svæðanefnd Evrópusambandsins.

 

Nánari upplýsingar um fundinn er að finna á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga.