SSNV tekur þátt í alþjóðlegu samstarfsverkefni

SSNV er þátttakandi í alþjóðlegu samstarfsverkefni sem hlaut á dögunum styrk úr sjóði Norðurslóðaverkefna. Verkefninu er ætlað að taka á ýmsum áskorunum sem fyrirtæki á jaðarsvæðum kunna jafnan að glíma við, svo sem smæð markaðar, fjarlægð frá markaði og einangrun.

Markmið samstarfsins er m.a. að þróa nýjungar í stafrænum markaðs- og söluhugbúnaði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og aðstoða þau við að nýta sér stafræna möguleika. Þá er enn fremur stefnt að því að þátttaka í verkefninu stuðli að alþjóðlegum vexti fyrirtækja sem byggja á líffræðilegum auðlindum svæðisins; fisk, landbúnaði, skógrækt og öðrum tengdum iðnaði. Aðrir þátttakendur í verkefninu eru WESTBIC og ICBAN (atvinnuþróunarfélög), Udaras na Gaeltachta (landshlutasamtök), University of Ulster og Karelia University (háskólar í Norður-Írlandi og Finnlandi).

 

Fyrsti fundur verkefnisins var haldinn í Galway dagana 13.-14. nóvember sl. Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, og Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, atvinnuráðgjafi, sóttu fundinn fyrir hönd SSNV. Farið var yfir skipulag komandi mánuða og drög að verkáætlun listuð upp. Áætlað er að kynna verkefnið fyrir hugsanlegum þátttakendum og öðrum hagsmunaaðilum á næstu vikum. 

Udaras na Gaeltachta leiðir verkefnið og Sveinbjörg Pétursdótti er verkefnisstjóri verkefnisins fyrir SSNV.