SSNV er þátttakandi í Norðurslóðaverkefni sem kallast Digi2Market, sem útfærst gæti á íslensku sem stafræn leið til markaðar. Verkefninu er ætlað að taka á ýmsum áskorunum sem fyrirtæki á jaðarsvæðum kunna jafnan að glíma við, svo sem smæð markaðar, fjarlægð frá markaði og einangrun.
Markmið verkefnisins er m.a. að þróa nýjungar í stafrænum markaðs- og söluhugbúnaði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, aðstoða þau við að nýta sér stafræna möguleika og viðskiptamódel sem stuðlar að umhverfisvænum rekstri. Þá er enn fremur stefnt að því að þátttaka í verkefninu stuðli að alþjóðlegum vexti fyrirtækja.
Í fyrsta fasa leitum við að einu fyrirtæki á Norðurlandi vestra sem hefur brennandi áhuga og vilja til að gera reksturinn umhverfisvænni og skuldbinda sig jafnframt til þátttöku í verkefninu næstu 2 árin. Viðkomandi þarf að hafa áhuga og vilja til að fara í naflaskoðun á rekstri síns fyrirtækis og vinnu við að greina stöðu þess í dag og greina leiðir til að gera reksturinn umhverfisvænni. Notast verður við umhverfisvænt módel sem þróað verður innan verkefnisins.
Í öðrum fasa verður kallað eftir fleiri fyrirtækjum til þátttöku þar sem meiri áhersla verður m.a. á stafræna markaðssetningu.
Áhugasömum er bent á að hafa samband við Sveinbjörgu Pétursdóttur á sveinbjorg@ssnv.is.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550