Samstafsaðilar SSNV í Norðurslóðaverkefninu Stafræn borg funda dagana 2.-4. apríl á Norðurlandi vestra auk þess að heimsækja nokkra áhugaverða staði í Reykjavík. Efni fundarins er staða verkefna samstarfsaðilanna en hver aðili ber ábyrgð á ákveðnum hluta verkefnisins. Sveinbjörg Pétursdóttir atvinnuráðgjafi og Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri sitja fundinn fyrir hönd SSNV.
Markmið samstarfsins er m.a. að þróa nýjungar í stafrænum markaðs- og söluhugbúnaði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki staðsett fjarri markaði og aðstoða þau við að nýta sér stafræna möguleika til sölu og markaðssetningar. Þá er enn fremur stefnt að því að þátttaka í verkefninu stuðli að alþjóðlegum vexti fyrirtækja sem byggja á líffræðilegum auðlindum svæðisins; fisk, landbúnaði, skógrækt og öðrum tengdum iðnaði.
Þátttakendur í verkefninu auk SSNV eru WESTBIC og ICBAN (atvinnuþróunarfélög), Udaras na Gaeltachta (landshlutasamtök), University of Ulster og Karelia University (háskólar í Norður-Írlandi og Finnlandi).
Hópurinn mun m.a. heimsækja Atlantic Leather á Sauðárkróki en það fyrirtæki var á dögunum valið sem fyrsta samstarfsfyrirtækið í verkefninu hér á landi. Í þessu fyrsta skrefi var leitað að fyrirtæki sem hefði brennandi áhuga og vilja til að gera reksturinn umhverfisvænni og skuldbinda sig jafnframt til þátttöku í verkefninu næstu 2 árin. Viðkomandi þurfti að hafa áhuga og vilja til að fara í naflaskoðun á rekstri síns fyrirtækis og vinnu við að greina stöðu þess í dag og greina leiðir til að gera reksturinn umhverfisvænni. Í næsta skrefi verkefnisins verður kallað eftir fleiri fyrirtækjum til þátttöku þar sem meiri áhersla verður m.a. á stafræna markaðssetningu.
Það er von SSNV að þátttaka í verkefninu leiði til aukins vaxtar fyrirtækja á Norðurlandi vestra.
Udaras na Gaeltachta leiðir verkefnið. Sveinbjörg Pétursdóttir er verkefnisstjóri verkefnisins fyrir hönd SSNV og veitir allar frekari upplýsingar.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550