Samningur um gerð vefsjár

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Guðjón Fjeldsteð landfræðingur og eigandi Hvítáróss ehf. hafa gert með sér samning um að Hvítárós hanni og smíði vefsjá sem sýni innviðaupplýsingar um Norðurland vestra. Í vefsjánni verði aðgengilegar þær upplýsingar sem samtökin hafa látið vinna auk annarra upplýsinga sem aðgengilegar eru hjá öðrum stofnunum, svo sem Vegagerðinni, Ferðamálastofu, Skipulagsstofnun og víðar. Af þeim greiningum sem samtökin hafa látið vinna sem nýttar verða má nefna frumúttekt á smávirkjanakostum, úttekt á heilbrigðisþjónustu, kortlagningu skapandi greina og kortlagningu hverasvæða (lýkur í október).

Hugmyndin með verkefninu er að á einum stað verði aðgengilegar allar fáanlegar innviðaupplýsingar um landshlutann sem til dæmis nýtist fjárfestum við staðarval sem auk þeirra sem vilja afla sér almennra upplýsinga um landshlutan.

Stefnt er að því að í vefsjánni verði m.a. aðgengilegar upplýsingar um sveitarfélagamörk, þéttbýlisstaði, ár og vötn, hafnir, flugvelli, sjúkrahús, heilsugæslustöðvar, grunnskóla, leikskóla, íþróttavelli, golfvelli, hverasvæði, friðlýst svæði, náttúruminjar, þjóðlendur svo fátt eitt sé talið auk upplýsingar frá stofnunum sem nefndar hafa verið. Einnig verði tengingar inn á vefmyndavélar á svæðinu sem og við samfélagsmiðla.

Guðjón mun vinna verkið fyrir hönd Hvítáróss en hann hefur mikla reynslu af sambærilegum verkefnum. Hann vann m.a. sambærilegt verkefni fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi sjá hér: http://vefsja.ssv.is/

Vefsjáin mun verða aðgengileg á heimasíðu SSNV við verklok sem gert er ráð fyrir að verði í lok árs 2018.