Rúmar 25 milljónir í nýsköpunarverkefni á Norðurland vestra

Gaman er að segja frá því að meðal verkefna sem hljóta styrk í ár úr Lóu – nýsköpunarstyrkjum fyrir landsbyggðina eru sex verkefni á Norðurlandi vestra. Styrkirnir eru upp á rúmar 25.000.000 kr. 

Á vef Stjórnarráðs Íslands má sjá samantekt um úthlutanir úr Lóu. Þar kemur fram að 27 verkefni hlutu styrki í ár, alls tæplega 139 milljónir króna.  

„Með nýsköpunarstyrk Lóu stuðlum við að frjórri jarðvegi fyrir nýjar hugmyndir og nýsköpun á landsbyggðinni. Verkefnin sem fá nú styrk koma af öllu landinu og eru virkilega fjölbreytt. Lóa eflir atvinnulíf og verðmætasköpun sem byggir á hugviti á forsendum landssvæðanna sjálfra. Slíkt mun leggja grunn að bjartari von og fjölbreyttari störfum fyrir þau sem vilja hafa aukið val um búsetu,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. 

Styrkþegar í ár eru um landið allt enda er styrkjunum ætlað að styðja við eflingu byggða og landshluta með nýskapandi verkefnum auk þess að hlúa að vistkerfi nýsköpunar á landsbyggðinni.  

Styrkþegar á svæði SSNV eru: 

1238 Baráttan um Ísland, til að halda áfram með gerð stafrænna þrívíddarmódela um byggð á Blönduósi árið 1900 annars vegar og 1958 hins vegar.  

Alor ehf., til að setja upp birtuorkubúnað á fjórum býlum til að fá reynslu af virkjun og geymslu birtuorku. 

Elínborg Erla Ásgeirsdóttir, til að vinna að leiðum við að nýta vallhumal sem hráefni í lífrænt vottaða matvælaframleiðslu. 

Hátæknisetur Íslands, til að vinna að skipulagningu sérhæfðra iðngarða, Sægarða, sem ætlað er að styðja við nýsköpun fyrirtækja og frumkvöðla  á sviði sjálfbærs lagareldis og ræktar.  

Pareto lausnir ehf., til að hanna notendavænan og sveigjanlegan hugbúnað, Vasareikni, sem hjálpa mun einstaklingum og sérfræðingum á víðu sviði að meta áhrif skatta- og bótakerfa á ráðstöfunartekjur.   

Textílmiðstöð Íslands, til að efla textílframleiðslu á Íslandi með auknu samstarfi og nýsköpun með hugviti, stafrænni tækni og því að leiða saman hefðbundnar aðferðir og nýja tækni með áherslu á hringrásarhagkerfið.  

Óskum við öllum styrkþegum innilega til hamingju með styrkina og fögnum fjölbreyttri nýsköpun á Norðurlandi vestra. 

Nánari upplýsingar um Lóuna má finna hér