Rennsli átta vatnsfalla mælt

Starfsmenn Mannvits við mælingar á Djúpadalsá í Skagafirði
Starfsmenn Mannvits við mælingar á Djúpadalsá í Skagafirði

Nýverið voru starfsmenn Verkfræðistofunnar Mannvits á ferðinni á Norðurlandi vestra. Tilgangur þeirra var að mæla rennsli átta vatnsfalla á svæðinu.  

 

Í apríl 2020 var auglýst eftir umsóknum um styrki í Skref 1, frummat smávirkjana, sem eru grunnrannsóknir á rennsli vatnsfalla og fyrstu hugmyndir um virkjanir og kostnað við byggingu þeirra. Alls bárust 12 umsóknir og var 8 styrkjum úthlutað.  

 

Gert var ráð fyrir að mælingar færu fram sl. haust en vegna mikillar úrkomu þá var mælingum frestað þar til núna í apríl þar sem þær þurfa að fara fram þegar lágrennsli er í vatnsföllunum. Búast má við niðurstöðum núna í maí. 

 

Rennslismælingarnar eru kostaðar að miklu leyti af Smávirkjanasjóði SSNV en tilgangur sjóðsins er að styrkja fyrstu skrefin í rannsóknum á mögulegum rennslisvirkjunum undir 10 MW að stærð á Norðurlandi vestra.   

 

Þetta er í þriðja sinn sem Smávirkjanasjóðurinn styður grunnrannsóknir á rennsli vatnsfalla á Norðurlandi vestra. Árið 2018 voru gerðar rannsóknir á átta vatnsföllum og árið 2019 studdi sjóðurinn framhaldsrannsóknir á tveimur vatnsföllum.