Ratsjáin í loftið á ný - nú samtengd á landsvísu

Landshlutasamtök sjö landsvæða á Íslandi hafa tekið sig saman um að bjóða stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum þátttöku í nýrri útgáfu af Ratsjánni, samtengdu verkefni sem hefst í upphafi árs 2021. 

Ratsjáin er ákveðið verkfæri ætlað stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum sem vilja auka nýsköpunarhæfni sína, hraða mikilvægum breytingaferlum og öðlast aukna yfirsýn og getu til að þróa vörur og þjónustu. Íslenski ferðaklasinn leiðir verkefnið í samstarfi við RATA og tengiliði frá landshlutasamtökum sveitarfélaga á Austurlandi, Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra, Vestfjörðum, Vesturlandi, Reykjanesi og Suðurlandi. 

 Ljóst er að fyrirtæki í virðiskeðju ferðaþjónustunnar eru í miklum ólgusjó sem ekki sér fyrir endann á. Á næstu mánuðum er lykilatriði að halda fast um taumana, nýta sér þau úrræði sem í boði eru af hendi stjórnvalda ásamt því að nýta tímann til að efla nýsköpun, vöruþróun og stafræna ferla fyrirtækisins. 

 Ratsjáin mun snerta á helstu áskorunum sem fyrirtækjaeigendur standa frammi fyrir í dag en endanleg dagskrá mun vera unnin í samstarfi við þátttakendur sem geta með kosningu haft áhrif á þá efnisþætti sem teknir verða fyrir. Meðal efnisþátta sem verða í boði eru: nýsköpun og vöruþróun, markaðsmál og markhópar, sjálfbærni og ábyrg ferðaþjónusta, stafræn þróun og tæknibylting fyrirtækja, breyttir tímar og tækifærin – kaupákvörðunarhringurinn, draumur stofnenda – tilgangur og markmiðasetning, heimasíður – hvernig skarar síðan mín fram úr?, jákvæð sálfræði, breytingastjórnun, endurhugsaðu viðskiptamódelið, skapandi hugsun sem verkfæri til framfara, samkeppnishæfni og sérstöðugreining, svo dæmi séu tekin.

 Ratsjáin mun hefjast með formlegum hætti í janúar 2021 og standa yfir í 16 vikur eða til 16.apríl. Umsóknarfrestur er til 1. desember 2020. Þátttakendur frá öllum landshlutum munu hittast á tveggja vikna fresti á sameiginlegum vinnustofum á netinu þar sem kafað verður í kjarna þeirra verkfæra sem fyrir valinu verða. Á milli sameiginlegu vinnustofanna er haldinn svæðisbundinn heimafundur sem er í umsjón landshlutanna sjálfra. Þar verður farið nánar yfir efnistök frá sameiginlegum fundi og unnið með sérstöðu hvers svæðis fyrir sig á þeirra forsendum.

 Ratsjáin var fyrst keyrð í samstarfi Ferðaklasans og Nýsköpunarmiðstöðvar árið 2016 en með stuðningi frá Byggðaáætlun frá 2019. Í ljósi breyttra tíma mun Ratsjáin 2021 miða að því að vera svæðisbundin en samtengd í senn og er því töluvert frábrugðin hefðbundna verkefninu. Það sem þó tengir þau saman fyrir utan nafnið sjálft er hugmyndafræðin að baki en það allra mikilvægasta er að þátttakendur kynnist hver öðrum, geti miðlað þekkingu og reynslu sín á milli og myndi með sér samstarf og tengslanet sem þau búa að löngu eftir að verkefninu líkur.  

Tengiliður SSNV í verkefninu er Davíð Jóhannsson, ráðgjafi á sviði ferðamála og svarar hann gjarna spurningum um verkefnið.   david@ssnv.is 

 

SÆKJA UM HÉR