Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar var á ferð um Norðurland vestra í blíðunni í gær. Með henni í för voru Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri ásamt starfsfólki ráðuneytisins og Ferðamálastofu. Hópurinn hóf yfirreiðina í Skagafirði þar sem heimsóttir voru ferðaþjónustuaðilar og smáframleiðendur og eftir stuttan spjallfund með fulltrúum ferðaþjónustunnar í Skagafirði var haldið fyrir Skaga. Þar var stoppað við Ketubjörg og í Kálfshamarsvík en verkefni tengd þessum stöðum hafa fengið framlag úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða á síðustu misserum. Nýjasti veitingastaðurinn á Norðurlandi vestra "Harbour restaurant" á Skagaströnd var heimsóttur áður en staðan var tekin með heimamönnum við Hrútey og á Þrístöpum, en á báðum þessum stöðum eru í gangi viðamiklar framkvæmdir sem Framkvæmdasjóðurinn hefur komið að og eiga eftir að skila ótrúlega áhugaverðum áfangastöðum fyrir svæðið. Deginum lauk svo á Hvammstanga þar sem ráðherra dró að húni fána RÉTTIR food festival, sem nú er að hefjast, áður en smakkað var á framlagi Sjávarborgar til matarhátíðarinnar og var enginn svikin af því. Sannarlega vel heppnaður dagur þar sem hægt var að tæpa á nýjungum og áformum á svæðinu, en ráðherra hefur árlega farið í svona dagsferð um einn tiltekinn landshluta.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550