Orka, atvinnumál og nýsköpun

Í tengslum við 6. haustþing SSNV sem haldið var í Árgarði í Skagafirði föstudaginn 21. október var blásið til ráðstefnu sem bar yfirskriftina Orka, atvinnumál og nýsköpun.

Vilhjálmur Árnason, alþingismaður og formaður Umhverfis- og samgöngunefndar, opnaði ráðstefnuna og fagnaði að verið væri að fjalla um þau mikilvægu málefni sem voru á dagskrá ráðstefnunar.

Ragnar K. Ásmundsson, verkefnastjóri Orkusjóðs og orkuverkefna, fjallaði um helstu verkefni sem Orkusjóðurinn vinnur að um þessar mundir. Þar á meðal fór hann yfir orkuskipti í þungaflutningum og áskoranir í tengslum við það.

Valtýr Þórisson, forstöðumaður áætlanadeildar Vegagerðarinnar, kynnti þau verkefni sem Vegagerðin hefur verið að vinna að varðandi uppbyggingu hjólastíga um land allt og ljóst að Norðurland vestra á mikil tækifæri í þeim efnum í öllum sveitarfélögum. Vegagerðin kostar stóran hluta af framkvæmd stíganna sem hefur gert sveitarfélögum kleift að ráðast í framkvæmdir. Hefur færst í vöxt að hjólastígar eru lagðir samhliða öðrum framkvæmdum eins og lagningu á rafmagnsstrengjum eða vatnslögnum.

Ragnhildur Friðriksdóttir, sérfræðingur hjá Byggðastofnun, fór yfir í erindi sínu hver áhrif loftslagsbreytinga væru á sveitarfélög og hvað væri raunverulega í húfi.

Þá kynntu Magnús Barðdal, verkefnastjóri fjárfestinga hjá SSNV, og Anna Lind Björnsdóttir, verkefnastjóri SSNE, samstarfsverkefnið Norðanátt og þá miklu grósku sem er nýsköpun á Norðurlandi. Ræddu þau mikilvægi þess að tengja saman aðra landshluta og ná þannig auknum krafti í nýsköpun á landinu öllu.

Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, fór yfir uppbygginguna við Keflavíkurflugvöll og nærumhverfið, tengda atvinnustarfsemi og þjónustu og tækifærin sem felast í frekari uppbyggingu.

 

Að lokum tók Katrín M. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, saman helstu punkta dagsins.