Nýsköpunarvikan á Norðurlandi hefst á morgun

Nýsköpunarvikan fer fram dagana 26. maí til 2. júní. Um er að ræða hátíð þar sem fyrirtækjum og frumkvöðlum gefst kostur á að standa fyrir nýsköpunartengdum viðburðum þar sem spennandi sóknarfæri og frjóar hugmyndir geta sprottið upp.

SSNV tekur þátt í hátíðinni í ár og er ætlunin að vekja athygli á nýsköpun sem á sér stað í landshlutanum, meðal annars innan stofnana, fyrirtækja og sprotafyrirtækja. Einnig verður kynnt þann stuðning sem er í boði fyrir frumkvöðla á Norðurlandi vestra. SSNV sér mikil tækifæri í þátttöku frumkvöðla og fyrirtæki á svæðinu til að koma sér á framfæri á þessum vettvangi.

SSNV hefur í samvinnu við SSNE sett upp dagskrá en um er að ræða þrjá viðburði undir yfirheitinu Nýsköpunarvikan á Norðurlandi. 

  • Nýsköpunarhádegi á Norðurlandi–  eru streymisviðburðir þar sem verður varpað ljósi á það frjóa og spennandi nýsköpunarstarf sem á sér stað á Norðurlandi. Fjallað verður um nýsköpun í ferðaþjónustu, menntamálum, matvælaframleiðslu, hönnun og menningarmálum. Viðburðirnir eru haldnir alla virka daga á meðan að á Nýsköpunarvikunni stendur kl. 12:00-12:30.
  • Hugmyndaþorp Norðurlands –  Hugmyndasamkeppni þar sem leitast verður eftir hugmyndum um hvernig hægt sé að auka og hvetja til fullvinnslu afurða. Þátttakendur nota Hugmyndaþorp sem er hannað af Austan mána til að koma með hagnýtar og frumlegar hugmyndir útaf frá viðfangsefninu. Fullvinnsla afurða er sameiginlegt markmið sóknaráætlanna landshlutasamtakanna á Norðurlandi, SSNE og SSNV. Hægt verður að taka þátt í Hugmyndaþorpinu á meðan að á Nýsköpunarvikunni stendur. Verðlaun frá frumkvöðlafyrirtækjum á Norðurlandi verða veitt fyrir bestu hugmyndirnar sem og virkustu þátttakendurna.
        
  • Nýsköpunarferðalag um Norðurland – Rafræn opin hús í frumkvöðlasetrum á Norðurlandi. Með þessum viðburði er verið að bjóða íbúum, fyrirtækjum og stofnunum að kynna sér þá starfsemi sem er í stuðningsumhverfinu til framdráttar og beina ljósi á tækifæri til nýsköpunar sem nú þegar er í boði á Norðurlandi. Myndböndunum verður streymt fimmtudaginn 27. maí kl. 13:00.

Nánari upplýsingar um viðburðina er að finna í viðburðadagatali samtakanna. Streymt verður af Facebook viðburðinum Nýsköpunarvikan á Norðurlandi.