Um nokkurt skeið hefur orðið nýsköpun verið áberandi á flestum sviðum atvinnulífsins. Til dæmis í tækniþróun, vísindastarfi, listum, menningu og viðskiptum. En hvað felst í nýsköpun? Í sinni einföldustu mynd snýst nýsköpun um að búa til eitthvað nýtt eða endurbæta það sem er þegar til staðar. Nýsköpun felur í sér nýja nálgun og er uppspretta þekkingar sem er undirstaða framfara og verðmætasköpunar.
Á Norðurlandi vestra eru mörg dæmi um árangursrík og frambærileg nýsköpunarverkefni, meðal annars í menningartengdri ferðaþjónustu sem og matvælaframleiðslu.
Í sóknaráætlun Norðurlands vestra er stefnt að því að nýsköpun sé stunduð sem styður við vöxt lykilatvinnugreina og laðar til sín menntað og hæft fólk á öllum sviðum atvinnulífsins. Markmið áætluninnar eru meðal annars fjölgun sprotafyrirtækja og atvinnutækifæra.
Áhersluverkefni SSNV snúa meðal annars að því að stuðla að aukinni nýsköpun í kennslu, koma á fót skrifstofusetrum og aðstoða fyrirtæki við að nýta sér stafrænar lausnir til markaðssetningar. Þessi verkefni snúa að því að styðja við framþróun í núverandi atvinnugreinum ásamt því að fjölga vaxtarbroddum og styrkja grunnstoðir í atvinnulífinu, s.s. í ferðaþjónustu, nýsköpun, vöruþróun, landbúnaði og sjávarútvegi.
Við stöndum frammi fyrir áskorunum í dag, hvort sem við lítum til heimsfaraldurs, umhverfismála eða aukinnar tæknivæðingar, en í þessum breytingum felast jafnframt tækifæri. Þessar áskoranir hafa kallað fram nýjar hugmyndir á flestum sviðum atvinnulífsins. Sagan segir okkur að nýsköpun sé sjaldan jafn sterk og þegar fólk setur kraft sinn í að rísa upp úr óvissu og umróti. Nýr vandi kallar á nýja hugsun og lausnir sem opna á ný tækifæri.
Kolfinna, ráðgjafi á sviði nýsköpunar hjá SSNV aðstoðar frumkvöðla og sprotafyrirtæki við allt sem við kemur nýsköpun. Hún veitir upplýsingar og verkfæri til að einfalda ferlið frá hugmynd að framkvæmd s.s. við mótun hugmynda, gerð viðskipta- og rekstraráætlana, yfirlit yfir styrki og fjármögnungarmöguleika. Kolfinna aðstoðar við að efla tengslamyndun innan og utan svæðisins með það að markmiði að styrkja og fjölga nýsköpunarfyrirtækjum. Hún verður með viðveru á Hvammstanga, Blönduósi og Skagaströnd dagana 23 - 25. september, sjá nánar hér.
Vakin er athygli á facebook hópnum Nýsköpun á Norðurlandi vestra.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550