Nýr þáttur af hlaðvarpinu Fólkið á Norðurlandi vestra er kominn út. Í þættinum er spjallað við fólk sem er að gera áhugaverða hluti í landshlutanum. Að þessu sinni var rætt við Margréti Katrínu Guttormsdóttur um Textíllabið á Blönduósi og þá vinnu sem fer þar fram. Hægt er að hlusta á viðtalið við hana hér og einnig birtist það á Spotify og helstu hlaðvarpsveitum.
Margrét hóf störf sem verkefnastjóri Textíllab á Blönduósi sumarið 2021. Margrét er textíl- og vöruhönnuður sem flutti á Blönduós útaf þessu spennandi starfstækifæri. Textíllabið á Blöndósi er fyrsta og eina stafræna textílsmiðjan á landinu í dag, þar er blandað saman tækni og textíl til að þróa hina ýmsu hluti. Í textíllabinu má finna hefðbundna laser- og vínilskera en auk þess eru þar líka tæki sem snúa einungis að textíl eins og að vefnaði, útsaum og þæfingu. Þessi tæki sem eru til staðar bjóða uppá hina ýmsu möguleika m.a. hafa verið búnir hlutir eins og t.d. inniskór og hattar. Einnig er hægt að nýta tækin til að gera við eða breyta og bæta vörur t.d. fatnað sem fólk er orðið leitt á eða sem komið er gat/blettur á.
Flestir sem hafa nýtt sér textíllabið eru hönnuðir og listamenn sem koma bæði frá Íslandi og erlendis frá en textíllabið er opið fyrir alla hvort sem fólk er vant því að vinna með textíl eða ekki. Á döfinni er að halda fleiri námskeið þar sem fólk getur lært að vinna á vélarnar sem eru í boði og á miðvikudögum eru opnir dagar þar sem hægt er að mæta og fá aðstoð til nota tækin og búa til nýjar vörur, merkja eða gera við gamlar vörur.
Hægt er að fylgjast með viðburðum og fleiri verkefnum hjá Textílmiðstöðinni á heimasíðunni textilmidstod.is og á samfélagsmiðlum.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550