Undanfarið ár hefur verið unnið að stefnumótun í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í málefnum almenningssamgangna á landsbyggðinni þar sem markmiðið er að stuðla að samþættu kerfi almenningssamgangna á sjó, landi og lofti. Drög að stefnu stjórnvalda varðandi almenningssamgöngur hafa nú verið birtar á samráðsgátt stjórnvalda
og er kallað eftir samráði um stefnuna.
Í drögunum sem lögð hafa verið fram er stefnt að því að auka hlutdeild almenningssamgangna í ferðum milli byggða á Íslandi og stuðla þannig að umhverfisvænni, öruggari og þjóðhagslega hagkvæmari umferð um allt land. Einnig er stefnt er að því að samþætt kerfi flugs, ferja og almenningsvagna virki sem ein heild þannig að styrkleikar hvers samgöngumáta nýtist á sem bestan hátt.
Meðal annars er lagt til að fargjöld lækki og allar upplýsingar um leiðakerfi verði aðgengilegar á einum stað. Einnig að fjárfest verði í innviðum almenningssamgangna, bæði á venjulegum biðstöðvum, sem og á skiptistöðvum. Stefnt er að því að á helstu hnútpunktum í kerfinu muni samgöngumiðstöðvar verða starfræktar. Stefnan boðar því umtalsverðar breytingar á almenningssamgangnakerfinu eins og það er í dag.
Í greinargerð um vinnuna við stefnuna kemur eftirfarandi fram: „Sterkt almenningssamgöngukerfi jafnar stöðu landsmanna og færir okkur nær hvert öðru. Þess er vænst að sú stefnumótun sem lögð er hér fram muni tryggja áreiðanlega og góða þjónustu til allra landsmanna, stuðla að bættum þjóðarhag og styrkja byggðir landsins í sessi.“ Heilshugar er tekið undir mikilvægi góðs almenningssamgöngukerfis til að jafna stöðu landsmanna. Þess vegna er sérstaklega hvatt til þess að íbúar á Norðurlandi vestra kynni sér stefnuna og geri athugasemdir við hana ef þurfa þykir. Umsagnarfrestur er til 7. mars.
Stefnuna má nálgast hér: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1306#advices
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550