Laugardaginn 8. júní s.l. var Norðurstrandarleið (Arctic coast way) opnuð með viðhöfn á Bakkafirði og Hvammstanga. Um er að ræða um 900 km leið meðfram Norðurströndinni, frá Hvammstanga í vestri til Bakkafjarðar í austri, en vegurinn liggur út frá hringveginum í gegnum 18 sveitarfélög og 21 þorp eða bæi, mörg hver fremur óþekkt ferðafólki til þessa.
Mikils er vænst af þessu verkefni og því gleðilegt að sjá hversu jákvæðar fyrstu viðtökur eru s.s. val Lonely Planet ferðaútgáfunnar á leiðinni, sem einum af 10 áhugaverðustu áfangastöðum í Evrópu á árinu 2019. Margir hafa tekið eftir nýjum vegvísiskiltum á leiðinni, brúnum að lit, sem skarta merki leiðarinnar. Þetta er í fyrsta sinn, sem slík skilti eru tekin í notkun á Íslandi, en þau eru þekkt víða um heim.
Ný heimasíða hefur sömuleiðis verið sett í loftið, en á www.arcticcoastway.is má nú sjá allt það helsta sem hægt er að sjá og gera á leiðinni.
Verkefnið hefur m.a. verið styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands vestra.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550