Niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar (ÍÆ) fyrir Húnabyggð

Niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar (ÍÆ) fyrir Húnabyggð voru kynntar á foreldrafundi í Húnaskóla þann 9. apríl sl. og í kjölfar fundarins komu foreldrar með hugmyndir og ráð sem nýtast í áframhaldandi vinnu með niðurstöðurnar. Fyrr um daginn höfðu nemendur í 5.-10. bekk fengið kynningu á niðurstöðunum og unnið sambærilega hugmyndavinnu að henni lokinni. Í marsmánuði fengu kennarar Húnaskóla kynningu á niðurstöðunum og voru einnig með hugmyndavinnu að henni lokinni. Endurgjöf að loknum kynningum er veigamikill þáttur í áframhaldandi vinnu skólans með niðurstöðurnar. Um kynningarnar sá Dagný Rósa Úlfarsdóttir fræðslustjóri og ábyrgðaraðili innleiðingar farsældarlaganna í Austur-Húnavatnssýslu en hún ásamt Þórhöllu Guðbjartsdóttur skólastjóra og Önnu Margreti Sigurðardóttur aðstoðarskólastjóra sitja í ábyrgðarteymi fyrir ÍÆ í Húnaskóla. Í kjölfar áðurnefndra kynninga verður fræðslunefnd Húnabyggðar upplýst um niðurstöðurnar.

Það er von ábyrgðarteymisins að kynningarfundur sem þessi vekji foreldra til umhugsunar um stöðu barna í samfélaginu og kveikji áhuga á að bæta farsæld barna enn meira í samvinnu við skólasamfélagið allt.

ÍÆ safnar gögnum um sýn barna og ungs fólks á stöðu ýmissa farsældarþátta í þeirra eigin lífi. Rannsóknin er lögð fyrir árlega í grunnskólum, annað hvert ár í framhaldsskólum og reglulega hjá ungu fólki utan skóla. Spurt er til dæmis um skólastarf, íþrótta– og tómstundaiðkun, samskipti við uppalendur, heilbrigði – líkamlegt og andlegt, notkun nikótíns, áfengis og annarra vímuefna, félags– og efnahagslega stöðu fjölskyldu, félagstengsl, notkun samfélagsmiðla og upplifun af ofbeldi.

Niðurstöður nýtast til að kortleggja farsæld barna og ungs fólks á hverjum tíma og gagnast því vel bæði í stefnumótun en jafnframt við að forgangsraða inngripum og þjónustuúrræðum til handa börnum, ungu fólki og fjölskyldum þeirra í samræmi við lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna,
nr. 86/2021.