Minnkum matarsóun! - fróðleiksmoli um umhverfismál

 

Við Íslendingar höfum það orð á okkur að vera mikil neysluþjóð og fara ekki alltaf nógu sparlega með. Meðal þess sem er sóað er matur, en matarsóun er mikið vandamál og alls ekki einangrað við Ísland. Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að talið sé að á Vesturlöndum hendi hver einstaklingur nýtanlegum mat að virði um 60.000 króna á ári.  

Á ruv.is má finna áhugaverða þætti sem kallast Endurtekið. Þetta eru nýir þættir sem fjalla um hringrásarhagkerfið, þar sem hlutir og hráefni fara í hring og eins manns rusl verður annars fjársjóður. Einn þátturinn fjallar m.a. um nýtingu matar sem annars hefði verið hent.   

Á vefsíðunni norden.org má finna umræðu um matarsóun, en þar kemur m.a. fram að matarsóun á Norðurlöndum dragist ekki saman á þeim hraða sem til þarf til að við náum því alþjóðlega markmiði að helminga matarsóun fyrir árið 2030. Í umfjölluninni er bent á þá staðreynd að matarsóun hafi ekki aðeins áhrif á efnahag heldur einnig hvað hún er þýðingarmikill liður í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Haft er eftir Karen Ellemann, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, að þjóðir hafi hreinlega ekki efni á því að henda mat lengur. Aðgerðir til að sporna gegn matarsóun þurfi að vera forgangsmál vegna loftslagsins, umhverfisins, viðbúnaðar og efnahagsins.  

En hvað getum við gert? 

Á vefsíðunni Saman gegn sóun segir að þriðjungi þeirra matvæla sem framleidd eru á heimsvísu sé sóað, en að sjö af hverjum tíu reyni að lágmarka matarsóun. Á síðunni er undirsíða sem heitir Hvað get ég lært þar sem finna má uppskriftir sem nýta matinn vel, þar er einnig fræðsla um hvernig best er að geyma mismunandi matvæli og svo tillögur að því hvernig hægt er að gefa afgöngum nýtt líf.  

Þá hefur Leiðbeiningastöð heimilanna gefið leiðbeiningar og ráð í fjölda ára - og meðal annars fjallað um matarsóun: Til að koma í veg fyrir að maturinn endi í ruslinu er gott ráð að hafa einn dag í viku hverri til að matbúa úr því sem til er. Gefið hugmyndafluginu lausan tauminn og verið skapandi í eldhúsinu með því að prófa nýja rétti eða önnur hráefni í réttinn. 

Nýta má afganga, kjöt, fisk eða grænmeti í súpur, salöt, eggjakökur, bökur og margt annað. Eru afgangshrísgjón frá gærdeginum? Þau má nota í mjólkurgraut eða í grænmetisrétt. Soðið grænmeti og kartöflur má nota í súpur o.s.frv. 

Nokkur góð ráð: 

  • kaupa minna magn í einu 

  • einn dagur í hverri viku þar sem eldað er úr því sem til er 

  • kláraðu það sem til er í ísskápnum áður en verslað er 

  • settu nýjar vöru innst í ísskápinn og eldri fremst 

 

Við hjá SSNV mælum með að við hugsum um hvort við getum breytt umgengni okkar við mat og mögulega nýtt matinn okkar betur.  

 

Fleiri gagnlegir tenglar: 

MAST Matvælastofnun: Minnkum matarsóun 

Vakandi – samtök sem vilja stuðla að vitundarvakningu um sóun matvæla eru með síðu á Facebook