Mannamót

Mannamót markaðsstofa landshlutanna fór fram í Kórnum í Kópavogi 17. janúar. Mannamót er kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og tækifæri til að koma á fundum fagaðila í greininni. Tilgangurinn er að kynna landsbyggðarfyrirtæki fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu. Ísland hefur mikið upp á að bjóða og Mannamót hjálpar til við að mynda tengsl innan ferðaþjónustunnar. Gestum á Mannamóti gefst kostur á kynna sér það sem landshlutarnir bjóða uppá.

 

400 fulltrúar 270 ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni kynntu starfsemi sína í ár fyrir yfir 800 gestum sem skráðir voru. Ferðaþjónustuaðilar eru sammála um mikilvægi þessa vettvangs en á honum verða á hverju ári til mikil viðskipti, nýjar hugmyndir fæðast og samstarf verður til um ýmis verkefni. Tengsl styrkjast, auk þess að myndast á staðnum, enda er Mannamót frábær stökkpallur fyrir ný fyrirtæki inn í atvinnugreinina. 

 

Fulltrúar ferðaþjónustufyrirtækja á Norðurlandi vestra létu sig ekki vanta á Mannamót þetta árið og lögðu undir sig heilan gang á sýningarsvæðinu. Gaman er að sjá gróskuna í ferðaþjónustunni á svæðinu en ár frá ári fjölgar sýnendum af svæðinu á Mannamóti sem er til marks um gróskuna í greininni.