Málþing GLOW - myrkur og ferðaþjónusta á Blönduósi

Vel var mætt á málþingið sem var haldið í Krúttinu á Blönduósi
Vel var mætt á málþingið sem var haldið í Krúttinu á Blönduósi

Einn hluti af verkefnafundi GLOW 2.0., sem haldinn var fyrri part október, var opið málþing í Krúttinu á Blönduósi þriðjudaginn 8. október. Þar voru flutt nokkur mjög áhugaverð erindi um ferðaþjónustu og  tengingar hennar við myrkur og myrkurgæði. 

Pétur Arason sveitarstjóri Húnabyggðar opnaði málþingið og tíundaði hann m.a. hve mikla skírskotun við myrkur mætti finna í sögu og landslagi sveitarfélags eins og Húnabyggð og mikilvægt væri að nýta  sér möguleika þessu tengda.   

Ólöf Ýrr Atladóttir ráðgjafi  fjallaði um „nærandi ferðaþjónustu“, sem segja má að samtvinni ábyrga og sjálfbæra ferðaþjónustu.  Þar er mikilvægt að  félags-, náttúru-, efnahags- og menningarlegir þættir séu í góðu jafnvægi og skapi þar með gæði samfélags og áfangastaðar. Myrkurtengd ferðaþjónusta væri jákvæð viðbót á sinn lágstemmda hátt.  

Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands greindi í sínu máli frá starfsemi MN og áfangastaðaáætlun Norðurlands. Hún reifaði einnig hvernig verkefni, sem yrðu til utan markaðsstofunnar og þá gjarna í grasrótinni, yrðu seinna mikilvægir þættir í heildarmynd landshlutans.  

Dr. Jessica Aquino,  dósent við Háskólann á Hólum, fjallaði í sinni kynningu um „borgaravísindi“ (en: citizen science) og hvernig þeirri nálgun hafi verið beitt í verkefni tengt selaskoðun í svæðisgarðinum á Snæfellsnesi, þar sem gestir söfnuðu gögnum í heimsóknum sínum og skráðu á þar til gerð form, sem safnað var til vísindastarfsins.   

Georgia MacMillan  forstöðumaður Mayo Dark Sky Park á vesturströnd Írlands greip síðan þennan bolta og  greindi frá hvernig Mayo myrkurgarðurinn  hefði nýtt sér þessa aðferðafræði þegar kemur að kortlagningu myrkurgæða o.fl. því tengt.   

Næstur steig á stokk Kristján Kristjánsson lýsingarhönnuður hjá Hildiberg og sagðist í upphafi oft sakna alvöru myrkursins og bjarta stjörnuhiminsins á æskustöðvunum í Svartárdal. Sem fagmaður minnti hann á að vert væri að hafa í huga lýsing væri að öllu jöfnu fyrir fólkið en ekki  staðinn þar sem eitthvað væri lýst upp. Hann greindi frá ýmsum nýjungum og dæmum úr heimi lýsingarhönnunar m.a. af nýlegri uppbyggingu ferðaþjónustunnar í Kerlingarfjöllum, sem hann hafði yfirumsjón með. Hann taldi að oft væri gengið of langt í lýsingu innan borga og bæja og mýtan um „aukin lýsing = aukið öryggi“ réði of oft för.   

Að síðustu hlýddu gestir á erindi Sævars Helga Bragasonar, sem greindi m.a. frá að þar sem sett hafa verið upp tæki til stjörnuskoðunar fyrir gesti  hafi þau notið vinsælda, ekki síður en þau skipti þar sem norðurljósin glæða næturhimininn lífi. Hann mælti með að leiðsögumenn fengju meiri menntun á sviði stjörnufræðinnar og við ættum að nýta okkur þau myrkurgæði sem við byggjum ennþá yfir, því hafa bæri í huga að  þriðjungur mannkyns nyti ekki skilyrða til að sjá vetrarbrautina, sem þykja grunnskilyrði til stjörnuskoðunar. Hann ítrekaði að þó að sólmyrkvinn í ágúst 2026, sem verður sjáanlegur frá vesturhluta landsins,  verði vissulega ákveðinn hápunktur, séu töfrar næturhiminsins alltaf jafn óviðjafnanlegir og það sé okkar verkefni að ljósmengun spilli ekki  möguleikunum á því að njóta hans, auk þess sem hún hefur neikvæð áhrif á náttúruna og okkar eigin heilsu.  

Að lokum tók Kjartan Bollason kennari við Háskólann á Hólum saman nokkra áhugaverða punkta úr erindunum og ræddi við fjóra seinni fyrirlesarana í pallborði auk þess sem boðið var upp á spurningar úr sal og úr streyminu. Hér var fólk einnig á persónulegum nótum og greindi t.d. frá augnablikinu sem kveikti áhuga þeirra á myrkrinu. Í heildina má segja að málþingið hafi tekist vel, innlendir sem og erlendir þátttakendur mjög ánægðir með útkomuna.