Út er komin skýrslan Leiðir að Byggðafestu eftir Hlédísi Sveinsdóttur og Björn Bjarnason. Skýrslan er unnin á vegum Fjórðungssambands Vestfirðinga (FV), Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV). Aðdraganda skýrslunnar má rekja til fundar landshlutasamtakanna þriggja og þingmanna kjördæmisins um stöðu sauðfjárræktar í landinu. Byggðastofnun hafði þá í skýrslu um málefnið dregið upp afar dökka mynd af stöðu og framtíðarhorfum sauðfjárræktar á Íslandi. Þar var það jafnframt metið svo að verst kæmi þetta niður á Dalabyggð, Reykhólahreppi, Húnaþingi vestra og Ströndum.
Landshlutasamtökin þrjú fengu styrk úr C1 lið Byggðaáætlunar til að hvetja til verðmæta- og nýsköpunar á þessum landsvæðum sem mest hafa átt undir sauðfjárrækt. Fyrsta skrefið við framkvæmd verkefnisins var tækifæragreining, annað skrefið er stefnumótun og þriðja skrefið fræðsla og tengslamyndun til framkvæmdar fyrrgreindra tækifæra. Leiðir að byggðafestu felur í raun í sér í senn stöðu- og tækifæragreiningu sem undirbýr jarðveginn fyrir þriðja skrefið.
Þar sem höfuðvígi sauðfjárræktar er strjálbýlið er áhersla lögð á að mæta því í þeirri vinnu sem fram hefur farið og tilgangurinn að efla frumkvöðlastarf á lögbýlum. Ætlunin er að veita frumkvöðlum stuðning og hvatningu og fara í fræðslu og tengslamyndun með þeim.
Næstu skref eru til skoðunar og allar ábendingar og tillögur um aðgerðir á grunni þessarar vinnu eru vel þegnar. Við athugasemdum tekur starfsmaður verkefnisins Sigurður Líndal á netfangið sigurdurl@vestfirdir.is
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550